top of page
Writer's pictureÞorvaldur Sigurbjörn Helgason

Skáldaskúffan #7 – Á áramótum verð ég alltaf svo melankólískur



á næstsíðasta degi ársins vakna ég á hádegi og hugsa

„hvað gerði ég til að eiga allt þetta skilið?“

 

hugsa um árið sem er að líða

alla staðina sem ég hef heimsótt

rigninguna í Maasai Mara sem buldi á tjaldinu alveg eins og í Africa með Toto

slabbið í Reykjavík sem seitlaði í gegnum kuldaskó, ullarsokka og föðurland

sólina í Róm sem var svo sterk að ég hélt ég myndi falla í yfirlið innan um allar rústirnar

 

skrefateljarinn í símanum segir að ég hafi gengið 3,1 milljón skref á árinu

ég veit ekki hvaða þýðingu það hefur

veit bara að í haust varð ég svo skotinn í konu

að ég hljóp 100 kílómetra á einum mánuði

það eina sem kom út úr því var að ég missti 8 kíló

og var skammaður af sjúkraþjálfaranum mínum fyrir að ofreyna liðina

 

hugsa um ástina og sorgina

samtvinnaðir þræðir frá hjarta í hjarta

startkaplar eilífðarinnar

það eina sem rofnar ekki við dauðann

það eina sem ferðast óslitið á milli heima

 

hugsa um ömmu og afa

fædd sama árið

farin með nákvæmlega tveggja vikna millibili

„sorgin er hreyfanlegt afl“ sagðir þú eitt kvöldið í Klaipeda

það eina sem ég myndi vilja bæta við

er að sorgin hverfur aldrei

hún finnur sér bara nýjan farveg

 

hugsa um systur fasta í álfakletti

hvernig getur maður syrgt einhvern sem er lifandi?

 

ég er hættur að sprengja flugelda

með hverju árinu hef ég minni þörf fyrir sprengingar

bara þessar djúpsjávarsprengjur sem birtast í brjóstinu

annað slagið

 

hugsa um öll tárin sem ég felldi

yfir ótrúlegustu hlutum

á ótrúlegustu stöðum

sólsetrinu á Seltjarnarnesi

mynd af nýfæddu barni á samfélagsmiðlum

kvikmyndinni Boyhood í bústaðnum

bréfinu sem hún sendi mér í World Class Vatnsmýri

en í símanum mínum er enginn tárateljari

 

á árinu sem er að líða las ég 59 bækur, horfði á 108 kvikmyndir og hlustaði á 27.800 mínútur af tónlist

helst myndi ég vilja vita hversu oft ég hló

hversu oft ég faðmaði einhvern

hversu margar mínútur ég var hamingjusamur

en um það finnast engin gögn

 

hugsa um þakklæti

götu fulla af haustlaufum, eins og gullin kjarnorkusprengja

bleika rönd á fölbláum vetrarhimni, þegar borgin breytist í Múmínbolla

öskrandi brimið á síðasta útihlaupi vetrarins


hugsa um æðruleysi

að finna öryggi í hverjum andardrætti

að uppgötva gleði í brosum ókunnugra

að hætta aldrei að leita jafnvel þótt maður finni ekki skapaðan hlut


á áramótum verð ég alltaf svo melankólískur

því þá líður mér eins og ég sé fjarlægjast fortíðina

jafnvel þótt ég sé að nálgast framtíðina

árin byrgja mér sýn

þannig kannski þarf ég bara að hætta að telja

 

í kvöld ætla ég hins vegar að skála

fyrir ári uppfullu af tilfinningum

en gersneyddu allri rómantík

ári þar sem ég uppgötvaði að andlegur vöxtur er ekki beinn eins og ljósastaur

heldur undinn eins og greinar trjánna

ári þar sem ég lærði að tíminn er ekki línulegur

heldur hringlaga eins og gárur í stöðuvatni

 

árið 1977 skrifaði Sigfús Daðason

ég skil ekki upphafið

ég skil ekki ástina

ég skil ekki dauðann


ég vil ekki hljóma hrokafullur

en Sigfús hafði rangt fyrir sér

við skiljum þetta allt

við erum bara búin að gleyma því

munum það ekki

fyrr en það er orðið of seint


ÞSH, 31. desember 2024

20 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page