top of page

Skáldaskúffan #8 – Brotist út úr skúffunni

Writer: Þorvaldur Sigurbjörn HelgasonÞorvaldur Sigurbjörn Helgason

Steingrímur Sturla hefði ábyggilega skemmt sér vel á árshátíð LHÍ á Selfossi um daginn.
Steingrímur Sturla hefði ábyggilega skemmt sér vel á árshátíð LHÍ á Selfossi um daginn.

Árið 2025 byrjaði með hvelli hjá mér sem er kannski ástæðan fyrir því að ég hef ekkert bloggað síðan í fyrra. Ég er búinn að vera alveg fáránlega upptekinn í vinnu, félagslífi, ræktinni, tónlistinni osfrv. en ég nenni ekki að eyða of mörgum orðum í það og ætla frekar að segja ykkur frá því nýjasta sem er að gerast í skrifunum hjá mér.


Enn eitt hjartaljóðið

Fyrsta útgáfa ársins var ljóð eftir mig í hinu gamalgróna Tímariti Máls og menningar. Ég er búinn að skrifa reglulega fyrir TMM undanfarin ár, ljóð, gagnrýni, pistla ofl. og það er alltaf gaman að birta í þessu sennilega rótgrónasta og vandaðasta menningariti landsins. Fyrsta hefti 2025 var gefið út í samstarfi við bókmenntahátíðina Queer Situations sem haldin var í fyrsta sinn í lok síðasta sumars en ljóðið mitt var einmitt frumflutt á ljóðakvöldi hátíðarinnar sem haldið var á Loft Hostel. Ljóðið sem um ræðir ber titilinn 2024: Mæling og mætti kannski túlka sem eftirmála við bókina mína Gangverk sem kom út 2019. Já, ég veit, enn eitt hjartaljóðið, þetta er þó aðeins meira absúrd heldur en lunginn af Gangverk. Ég vona að ritstjórar tímaritsins fyrirgefi mér það (ef þeir lesa þetta blogg þeas.) að gerast svo kræfur að birta ljóðið í heild sinni hér að neðan.




Játningar spíttskálds

Önnur útgáfa ársins er svo smásaga eftir undirritaðan sem kom út í vikunni á veftímaritinu Stelkur en það eru nokkur persónuleg tíðindi því þetta er fyrsta smásagan (og tæknilega fyrsti prósinn) sem ég gef út í 7 ár! Síðasta smásaga sem ég gaf út var nefnilega smásaga sem birtist í TMM í lok árs 2018. Stelkur er ofboðslega spennandi verkefni sem þau Þórdís Helgadóttir og Kári Tulinius standa að, veftímarit sem sérhæfir sig í birtingu smásagna í lengri kantinum, fjórar smásögur koma út á hverjum ársfjórðungi og hægt er að lesa allt arkífið þeirra frítt á stelkur.is. Sagan mín ber heitið Sjö hafnanir Steingríms Sturlu og kviknaði algjörlega óvænt í mikilli bugun eftir andvökunótt í janúarskammdeginu þegar ég þurfti að mæta til vinnu eldsnemma á laugardagsmorgni til að sitja yfir inntökuprófum í Listaháskólanum. Sagan mín fjallar um seinheppna skáldið Steingrím Sturlu og raunir hans á einum degi þar sem nánast allt í lífi hans fer úrskeiðis. Eflaust munu einhverjir reyna að lesa þessa smásögu sem sjálfsævisögulega, enda hef ég verið frekar opinn með baráttu mína við pennann (sbr. Skáldaskúffuna #5) og ég get alveg viðurkennt að ég dró innblástur frá mörgum raunverulegum atvikum sem hent hafa mig og fólk sem ég þekki við skrif sögunnar. Steingrímur Sturla er hins vegar ekki sjálfsævisögulegur karakter, hann er ákveðin erkitýpa sem er samansettur úr ýmsum persónuleikum sem ég hef kynnst í íslensku bókmenntalífi með dassi af verstu útgáfunni af sjálfum mér sirka 2016. Örvæntingafullur bóhem sem ætlast til mikils af umheiminum en lítils af sjálfum sér; skáldlegt dramb í bland við mikið óöryggi. Í stuttu máli: 101 fuccpoet af verstu gerð. Ég hafði allavega mjög gaman af því að skrifa þessa sögu og vonandi hefur fólk líka gaman af því að lesa hana.


Næstu skref

Mars stefnir í að verða gjörsamlega ruglaður mánuður, ég er að fara í kórbúðir um helgina með Klið í Skálholti, syngja á tvennum tónleikum á vegum FÍH eftir nokkrar vikur, skipuleggja og halda sviðslistaþing í LHÍ í lok mánaðar og margt fleira. Inn á milli langar mig svo líka að skrifa meira, kannski aðra smásögu eða halda áfram með skáldsöguna, en það verður þó bara að koma í ljós hvernig það gengur. Svo þarf ég líka að koma fjármálunum í lag því ég er orðinn alveg jafn auralaus og Steingrímur Sturla, þannig ef lesendur vita um einhver gigg fyrir 33 ára gamalt ungskáld þá megið þið endilega hnippa í mig. Svo eru allavega tveir spennandi bókmenntahlutir á döfinni, þar af ein útgáfa en ég er með grein í hinu flotta tímariti Myndlist á Íslandi sem kemur út síðar í mánuðinum, mín fyrsta útgefna grein um myndlist. Svo er ein svolítið spennandi tilkynning í vændum sem ég má ekki greina frá alveg strax en mun eflaust skrifa um hér þegar að því kemur. Annars ætla ég bara að reyna að halda mér á floti í þessum ólgusjó lífsins, enda er mars grimmastur mánaða. Eða var það apríl? Skiptir ekki máli!


ÞSH, 7. mars 2025


P.S. Ef þú klikkaðir á þetta blogg í gegnum Facebook í von um það að fá eitthvað djúsí slúður um árshátíð LHÍ á Selfossi þá lentir þú því miður í skáldlegri smellubeitu. Ég get hins vegar vottað fyrir það að árshátíðin var mjög skemmtileg, ég fór t.d. í hjólið á bar í nýja miðbænum þar sem bjórinn á forsíðumyndinni var unninn.

 
 
 

Comments


bottom of page