Skáldaskúffan #9 – Úrið hans Magnúsar
- Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
- Mar 25
- 3 min read

Lífið fer í hringi og um daginn fékk ég þær skemmtilegu fréttir að ég hefði hlotið 1. verðlaun í ljóðasamkeppni Júlíönu bókmenntahátíðarinnar í Stykkishólmi, sömu verðlaun og ég hlaut árið 2018. Verðlaunaljóðið, Úrið hans Magnúsar, er samið í minningu tveggja manna; móðurafa míns séra Lárusar Þorvaldar Guðmundssonar sem lést í júní 2024 og afabróður míns Magnúsar Guðmundssonar sem lést úr berklum á Sauðárkróki 1941 aðeins 21 árs gamall. Ljóðið er innblásið af forláta Michelsen vasaúri Magnúsar sem hann fékk í fermingargjöf sem afi gaf mér nokkrum árum áður en hann lést sjálfur, en fjallar líka um 90s sjónvarpsþættina Úrið hans Bernharðs, lífið, dauðann og dularfullt eðli tímans. Það má lesa hér að neðan.
ÞSH, 25. mars 2025.
Úrið hans Magnúsar
Hvað eruð þið að gera í nútímanum, sem var okkar framtíð, spyrja hin dauðu ...
Jenny Erpenbeck
Fyrir LÞG (1933-2024)
og MG (1920-1941)
I.
tíminn líður furðulega síðan þú fórst
tíu dagar í dag
tuttugu ár í gær
vildi að ég gæti stoppað tímann eins og Bernharð
en sennilega er það of seint
lítill strákur og gamall maður sitja í opnum báti
stoppa í miðjum firðinum og kasta út
þeir segja ekki orð við hvorn annan
allt sumarið
fiskarnir sperra eyrun
ég er tólf ára
ligg í rúminu með mömmu
fingur snerta hnúð í hálsi
hún grætur hljótt
ég veit það verður allt í lagi
á Sauðárkróki liggur ungur maður í lokaðri kistu
hann hét Magnús, alveg eins og bróðir sinn
sem lést í spænsku veikinni
fjölskyldan á Ísafirði
hlustar á jarðarförina í útvarpinu
úrið fá þau sent í pósti
ég er þrettán ára
skelli skólatöskunni á gólfið og sest í sófann
flakka á milli stöðva
tónlistarmyndbönd, sápuóperur og Úrið hans Bernharðs
mamma liggur í hægindastólnum á baðsloppnum
lækka í sjónvarpinu svo hún vakni ekki
ungur guðfræðinemi opnar dyrnar á herberginu sínu
brotinn gluggi og tómar brennivínsflöskur
á rúminu svört fótspor frá Hamri og Jökli
á meðan þjóðskáldin drukku framtíðina frá sér
var hann að smíða hús í Kópavogi
samt er honum hent út af vistinni
ég er tuttugu og fimm ára
heimsæki mömmu á spítalann
bólgan eftir aðgerðina svo mikil
að ég get ekki horft í augu hennar
brotna niður í bílnum fyrir utan
sendiráðsprestur gengur inn á spítala
sér sjúkraliða flytja barn á milli deilda
í hitakassanum glittir í tvö nakin augu
þú þekktir mig
endurtekur hann allar götur síðar
ég er þrjátíu og tveggja ára
bruna með mömmu og bróður upp í Kópavog
þegar við komum ertu farinn
geri krossmark yfir ennið þitt, enn volgt
segi brandara til að létta á stemningunni
en sé strax eftir því
II.
tíminn líður furðulega síðan þú fórst
níutíu dagar í dag
hundrað ár í gær
vildi að ég gæti stoppað tímann eins og Bernharð
en sennilega er það of snemmt
hvernig sérðu fyrir þér árið?
eins og köku í Trivial Pursuit
hver mánuður ein sneið
eins og slönguspil
dagarnir skjótast upp stigann og ofan í skoltinn
eða eins og hengimann
hver stafur, hver sekúnda, einu skrefi nær fallinu
sem barn óttaðist ég veldisvöxt áranna
stóð stuggur af ártalinu 2008
fannst of langt liðið frá nútímanum
en það sem ég hef lært
er að tíminn er ekki til
tíminn er tálsýn
hvernig er annars hægt að útskýra það
af hverju við, hin lifandi, fáum svo lítið af honum
en þið, hin dauðu, svo mikið
eigum við þá ekki að fara að koma okkur?
spurðir þú í einni af síðustu heimsóknunum
samt tók það þig tvo mánuði að koma þér
svo margt sem ég hefði viljað vita
svo margar sögur, svo margar spurningar
í staðinn sit ég uppi með bækurnar, hempurnar
og úrið hans Magnúsar
stundum trekki ég það upp
leyfi tímanum að líða
Comments