Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar voru veitt í gær í Ásmundarsafni við Sigtún. Ég fékk það skemmtilega hlutverk að sitja í dómnefndinni í ár sem formaður og ég vona að ég sé ekki að brjóta einhvern trúnað með því að segja að ég er alveg einstaklega ánægður með handritið sem við völdum, Pólstjarnan fylgir okkur heim eftir Margréti Lóu Jónsdóttur. Það var auk þess mjög skemmtileg og forvitnileg reynsla að sitja í dómnefnd svona stórra verðlauna en ég hafði bara einu sinni áður setið í dómnefnd fyrir ljóðaverðlaun sem voru töluvert minni í sniðum. Bók Margrétar er einstaklega vel unnin, ljóðin eru lýrísk, pólitísk og persónuleg en á sama tíma lyfta þau sér einhvern veginn upp yfir allt dægurþras og prívatlíf. Að því leytinu til minna þau að sumu leyti á það besta úr pólskri ljóðlist eftirstríðsáranna, skáld eins og Ewu Lipsku og Adam Zagajewski (sem ég hef áður fjallað um hér). Það sem heillaði mig líka sérstaklega við bókina er hinn sterki þráður vonar sem liggur í gegnum hana og ögrar þeim harmi sem er viðfangsefni ljóðanna. Í ávarpi sínu sagði Margrét Lóa meðal annars:
,,Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.“ Þessi orð skáldsins eiga vel við á okkar dögum. „Við lifum á uggvænlegum tímum þar sem vonin er bráðnauðsynlegt afl. Vonin er veraldarundur og það er ljóðið líka. Ljóðið er rödd okkar innra sjálfs. Söngur í einrúmi í trylltri en um leið fagurri veröld, svo ég vísi nú aftur í Reykjavíkurskáldið okkar góða, Tómas Guðmundsson. Í mínum huga er ljóðið rödd sem á að fá að hljóma.“
Ég er náttúrlega alls ekki hlutlaus en ég spái þessari bók góðu gengi í flóðinu og á komandi árum. Við afhendinguna var ég beðinn um að flytja ávarp fyrir hönd dómnefndar sem mig langar að birta hér ásamt einni opnu úr verðlaunabókinni.
ÞSH, 18. október 2024.
Kæri verðlaunahafi og góðir gestir,
Við lifum í síbreytilegum og óvissum heimi. Ég held að við sem erum saman komin hér getum öll tekið undir það, þrátt fyrir að vera á ólíkum aldri og frá ólíkum bakgrunni. Heimurinn sem við fæddumst inn í er eins og fjarlæg minning, bæði bókstaflega og hugmyndafræðilega, og í ölduróti samtímans virðist jafnvel stundum sem veröldin sem við vöknum til á morgnana sé allt önnur en veröldin sem við leggjumst til svefns í á kvöldin.
Í slíkum veruleika er gífurleg þörf á einhvers konar festu, en hún er ekki auðfáanleg. Ein af festunum í mínu lífi og eflaust margra annarra Íslendinga er ljóðlistin. Ljóðið breytist hægt, ef það breytist yfir höfuð, í það minnsta er hlutverk þess í dag nánast það sama og það hefur verið frá upphafi bókmenntasögunnar. Hlutverk ljóðsins er, meðal annars, að segja sögur, að vera manneskjunni leiðarvísir í síbreytilegum heimi og að vera vitnisburður um líf hennar andspænis örlögunum.
Önnur festa, sem er kannski ekki svo fyrirferðamikil í lífi okkar nútímafólks en hefur verið það í gegnum mannkynssöguna, er Pólstjarnan; leiðarstjarnan sem í aldanna rás hefur vísað fólki veginn um ókunnar slóðir. Komum aftur að henni síðar.
Við erum hér saman komin til þess að fagna skáldi og ljóðabók sem í dag hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að gegna hlutverki formanns dómnefndar og var þar af leiðandi hluti af teyminu sem valdi vinningshandritið. Hvað mig sjálfan varðar var valið sáraeinfalt, ég vissi það raunar strax og ég las handritið að þar væri á ferðinni sigurvegarinn. Vissulega var öllum steinum velt við á leiðinni og hin handritin rædd í þaula en fyrir mitt leiti var engin raunveruleg samkeppni. Vinningshandrit Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar árið 2024 er Pólstjarnan fylgir okkur heim eftir Margréti Lóu Jónsdóttur. Margrét Lóa er auðvitað enginn nýgræðingur í ljóðlist og á að baki ritferil sem spannar hátt í fjóra áratugi og fjölda bóka. Það er því löngu orðið tímabært að hún hljóti viðurkenningu fyrir list sína og einkar skemmtilegt að hún skuli hljóta hana í nafnlausri samkeppni sem sýnir og sannar að skáldskapur hennar stendur fullkomlega á eigin fótum sem sönn og tær ljóðlist. Fyrir hönd dómnefndar óska ég Margréti Lóu innilega til hamingju með verðlaunin og mig langar að enda þetta á því að lesa umsögn dómnefndar um vinningshandritið:
Ljóðmælandi situr á útikaffihúsi og hugsar um lífið og tilveruna. Minningar leita á hana; minningar um látna ástvini, ljúfsár augnablik úr æsku og ferðalög á fjarlægar slóðir. Úr þessum minningum verður til ljóðrænt vitundarstreymi sem er í senn kjarnyrt og margrætt. Pólstjarnan fylgir okkur heim er vandað og vel uppbyggt handrit með skýrum boga. Um er að ræða samfellda frásögn sem skiptist í mörg stutt, ónefnd ljóð sem saman mynda samhljóm er minnir á sinfóníu eða óhlutbundið kvikmyndaverk. Ljóðmálið er tært og grípandi og í gegnum handritið má finna magnaðar ljóðmyndir sem sitja lengi í huga lesanda að lestri loknum. Höfundur fetar fimlega einstigið á milli hins pólitíska og persónulega, án þess þó að vera prédikandi og þrátt fyrir að hér sé ort um flóttafólk, stríð og dauða þá liggur í gegnum handritið þráður vonar sem er ekki bara viðeigandi fyrir þá tíma sem við lifum, heldur ef til vill nauðsynlegur. Táknmynd handritsins er Pólstjarnan, leiðarstjarnan sem í aldanna rás hefur vísað mannkyninu veginn um ókunn höf og lönd. Á sama hátt og Pólstjarnan vísaði sæförum veginn á öldum áður, vísar hún lesendum veginn í gegnum handrit sem við fyrstu sýn virðist ólínulegt en er þó jafn víðáttumikið og kunnuglegt og stjörnuhimininn. Pólstjarnan fylgir okkur heim er magnaður ljóðaseiður um lífið, dauðann, tímann innra með okkur og veraldarundrið vonina.