top of page
Writer's pictureÞorvaldur Sigurbjörn Helgason

Updated: Nov 18



Í tilefni þess að dagur íslenskrar tungu var í gær og veturinn er mættur af fullum krafti langar mig að birta hérna fyrsta kaflann í skáldsögunni minni sem ég er búinn að vera að vinna að núna í nokkur ár. Þessi fyrsti kafli var upphaflega skrifaður sem smásaga/nóvella og hefur verið tilbúinn í meira en fimm ár. Eins og ég lýsti í næstsíðasta bloggi þá hef ég verið að ströggla svolítið með þetta verk en ég er byrjaður að vinna aftur í handritinu og held að það gæti jafnvel verið mér hvatning að birta þennan fyrsta kafla hér og sjá hver viðbrögðin við því (ef einhver) verða. Þið megið allavega endilega láta mig vita hvað ykkur finnst og hvort þið viljið lesa meira. Ég veit ekkert hvort ég er að brjóta eitthvað bókmenntalegt faux pas með því að birta hérna kafla úr verki í vinnslu en ef svo er þá verður bara að hafa það.


ÞSH, 17. nóvember 2025.


 

Listi yfir ómögulega liti 


Colour itself is a degree of darkness

Johann Wolfgang von Goethe


 

Sem barn gerði hún lista yfir liti. Hvort það var flótti frá félagslegum aðstæðum eða einfaldlega hennar leið til að ná skipulagi á umheiminn er ómögulegt að segja. Listarnir voru einfaldir til að byrja með og endurspegluðu gjarnan hennar nánasta umhverfi; litina á kjólunum hennar (guldoppóttur, lillablár, jólarauður), mismunandi blæbrigði himinsins (sólblár, regngrár, nætursvartur) og klæðninguna á húsunum í götunni (grár, steingrár, bláhvítur). Eftir því sem Glódís eltist urðu listarnir óræðari, hættu að endurspegla ytri veruleikann og færðu sig inn á sífellt huglægari slóðir. Hún gerði lista yfir litina á tilfinningum (gleði var gul, reiði svört, hamingja græn), liti talna (þrír var blá, sjö rauð, átta fjólublá) og liti á ósýnilegum hlutum (vindurinn var silfraður, eilífðin fjólublá, hugsanir svarthvítar).

Væri Glódís spurð hvaðan hún fékk þennan áhuga á litum og hvaðan þessi áráttukennda þörf fyrir að gera lista stafaði, vísaði hún gjarnan í eina af sínum fyrstu minningum úr barnæsku þegar hún fór með pabba sínum á myndlistarsýningu á Kjarvalsstöðum. Hún hefur sennilega ekki verið mikið eldri en fjögurra ára, pabba hennar hafði verið boðið á opnun sýningarinnar og þar sem þetta var helgin hans hafði hann ekki átt annarra kosta völ en að taka hana með sér. Hann hafði skilið Glódísi eftir í leikherberginu með hinum krökkunum á meðan hann fékk sér vínglas og blandaði geði við fólkið. Glódís var rólegt barn og hann hafði búist við því að hún myndi gleyma sér í sínum eigin heimi við að klubba og lita en fjölmenni gerði hana órólega og þegar hann kom til baka var hana hvergi að sjá. Hann þræddi innviði safnsins, alla leið út á Klambratún; svo örvæntingarfullur í leit sinni að sumir héldu að um væri að ræða gjörning á vegum listamannsins. Starfsmaður safnsins fann Glódísi að lokum inni í einu listaverkinu, myrkraklefa sem var innsiglaður með þykkum, svörtum tjöldum.

Hún hafði setið á grúfu upp við vegginn og hlustað á verkið, svo hugfangin að hún hafði hvorki tekið eftir röddunum sem kölluðu nafn hennar né fótunum sem strukust upp við hana. Í miðju klefans heyrðist yfirveguð kvenmannsrödd þylja upp lista af litum, suma þeirra þekkti Glódís en aðra hafði hún aldrei heyrt nefnda áður. Himinblár, eyðimerkurgulur, kúkabrúnn, mosagrænn, beinhvítur... Glódís sat í myrkrinu með hnén uppi við bringu og við hvert orð sem röddin mælti fylltist hugur hennar af myndum og litbrigðum.

Beinhvítur; hún sá fyrir sér hvíta strönd þakta beinum. Mosagrænn; hún stóð við stórt og oddmjótt fjall þakið mosa frá rótum að tindi. Himinblár; hún horfði upp í himinn sem var líka spegilslétt vatn, vatnsflöturinn gáraðist þegar ský sigldi eftir því og hún fylgdist með bylgjunni hverfa út fyrir sjóndeildarhringinn. Það var ekki fyrr en gripið var um axlir Glódísar og áhyggjufull rödd hljómaði í eyrum hennar að hún rankaði við sér, í myrkraklefanum hafði hún gjörsamlega gleymt stað og stund.

            Um tíu ára aldur byrjaði Glódís að halda dagbók sem hún tók með sér hvert sem hún fór. Í dagbókina skrifaði hún allt sem á daga hennar dreif, hugsanir sínar, tilfinningar og auðvitað listana. Hún hélt sig að mestu leyti út af fyrir sig en hafði vingast við nokkrar bekkjarsystur sínar sem hún hitti stundum eftir skóla. Þær skiptust á að fara heim til hvorrar annarrar, léku sér í tölvuleikjum og horfðu á raunveruleikaþætti í sjónvarpinu. Glódís, sem vanalega dró skýra línu á milli síns innra og ytra lífs, hafði meira að segja treyst stelpunum fyrir nafni stráksins sem hún var skotin í. Hann hét Sindri og hafði komið í skólann í þriðja bekk. Glódís hafði aldrei talað við hann en reyndi alltaf að sitja eins nálægt honum og hún þorði til að finna lyktina af honum. Flestir strákar á hennar aldri lyktuðu eins og hor og íþróttaskór en Sindri ilmaði eins og hafið.

            Einn daginn þegar Glódís settist við borðið sitt eftir frímínútur tók hún eftir því að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Skólataskan hennar lá opin á hliðinni og innihaldið flæddi út á gólf eins og garnir. Glódís heyrði pískur og kæfð hlátrasköll frá hinum enda stofunnar og þegar hún leit þangað sá hún hvar hópur bekkjarfélaga hennar stóð í hnappi í kringum eitt borðið. Athyglin var öll á strák sem sat á stól og las hægt upp úr bók sem hann hélt á. Dagbókinni hennar. Glódís hljóp í áttina að borðinu og þröngvaði sér í gegnum þvöguna þar til hún stóð andspænis stráknum. Hann var stór og luralegur gaur með óeftirminnilegt nafn, eitt af þessum grunnskólahrekkjusvínum sem í krafti kúgunar geta náð undirtökum í heilu bekkjunum þrátt fyrir að skorta bæði vitsmuni og leiðtogahæfileika. Vanalega hélt Glódís sig frá slíkum hrottum en óttinn við að fá sín dýpstu leyndarmál opinberuð gaf henni einhvern nýtilkominn kraft.

„Komdu með hana“, heimtaði hún. Strákurinn glotti bara og sagði blákalt nei.

„Ég er að lesa“, bætti hann við og hélt áfram að fletta blaðsíðunum með aulalegum ánægjusvip.

„Ég vissi ekki að þú kynnir að lesa“, sagði hún en hafði vart sleppt orðinu þegar hún fann fyrir þungu höggi í magann.

„Halt’enni“, sagði hrottinn og einhver færði hendur hennar fyrir aftan bak. Glódís fann reiðina breytast frá dökkbláum himni yfir í svart rigningarský og reyndi að slíta sig lausa. Vinkonur hennar höfðu bæst í hópinn, hún horfði á þær biðjandi en þær litu bara flóttalega undan. Hún fann tár leka niður kinnina og velti því fyrir sér hvort það væri glært eða hvort reiðin hefði litað það grátt.

Hrottinn var aftur farinn að lesa upp úr bókinni og í þetta sinn las hann hátt og snjallt fyrir allan bekkinn með þvoglumæltri röddu:

„14. febrúar. Himinninn var rauður í morgun en breyttist svo í hafbláan. Stundum velti ég því fyrir mér hvort að tilfinningar mínar breytist í takt við veðrið eða hvort það sé öfugt.“

Hrottinn tók kúnstpásu á meðan krakkarnir hlógu. Glódís vissi hvað kæmi næst og hún þráði ekkert heitar en að geta liðast upp í loftið eins og hvít gufa en það var ekkert sem hún gat gert til að forða sér. Hrottinn hélt áfram:

„Ég er skotin í strák. Hann heitir Sindri og augun hans eru á litinn eins og himinninn þegar það er nýhætt að rigna.“

Lætin í hópnum fóru stigvaxandi, hún fann hungrið magnast og hláturinn fór frá prakkaralega grænum yfir í illkvittnislega gulan. Hún reyndi að losa sig en fangavörðurinn herti bara takið.

„Hann sat við hliðina á mér í mötuneytinu í gær og ég fann lyktina af honum, hún er blá og sölt, eins og hafið á sólríkum sumardegi.“

Krakkarnir ærðust af hlátri en Glódís tók eftir því að einn þeirra hló ekki. Sindri leit til hennar skömmustulegur á svip, eins og þetta væri allt saman honum að kenna. Augun í honum voru á litinn eins og himinninn í hellidembu. Glódís starði niður í gólf og óskaði þess að hún myndi breytast í poll. Svartan poll á biksvörtu malbiki.

Sindri hætti í bekknum stuttu síðar. Sagt var að foreldrar hans hefðu skilið og hann flutt með pabba sínum til Noregs. Það breytti engu, Glódís hafði aldrei þorað að tala við hann. Eftir atvikið með dagbókina hafði hún dregið sig út úr öllu félagslífi. Vinkonurnar höfðu stöku sinnum spurt eftir henni en hún fann alltaf einhverja afsökun til að hitta þær ekki og að lokum hættu þær alveg að hafa samband. Eftir það eyddi hún flestum frístundum í herberginu sínu, þar sem hún skrifaði sögur og ljóð í dagbókina sína og hélt áfram með listana sem urðu sífellt einrænni.

Í kringum fermingu fóru listarnir að taka á sig form ljóða. Þeir hættu að vera upptalning og fóru þess í stað að einblína á stöku liti og allar mögulegar túlkanir og blæbrigði þeirra. Helsti afrakstur þessa tímabils var ljóðabálkur sem bar titilinn Rauður:

 

horfi inní mig

finn þig streyma

um völundarhús æða minna


tel niður dagana

að komu þinni


brýtur sér leið út

blóðmáni á sturtubotninn

 

Það var um þetta leyti sem Glódís komst að því að litir eru ekki til í raunheimum. Allavega ekki í hlutlægum skilningi. Henni leið eins og þetta væri stærsta uppgötvun lífs hennar fram til þessa. Hún var stödd í náttúrufræði og þau voru að læra um ljós þegar kennarinn varpaði spurningu yfir bekkinn:

„Getur einhver sagt mér hvað litir eru?“

Bekkurinn þagði en Glódís sperrti eyrun.

„Allt sem augað sér er ljós. Ljósið sem við sjáum inniheldur rafsegulbylgjur á ákveðnu tíðnibili. Litirnir koma til vegna samspils á milli tíðni og bylgjulengdar ljóssins og því hvernig augun og heilinn skynja það.“

Hún leit út um gluggann á kennslustofunni, það var bjartur og kaldur vordagur með gluggaveðri sem breytti hversdagslegu útsýninu í fegursta landslagsmálverk. Grasi vaxin hæðin fyrir neðan skólann og Esjan í fjarskanum birtust í svo skýrum dráttum að þau virtust hálfóraunveruleg. Jafnvel þó hún gerði sér grein fyrir því að það væri ímyndun þá fannst henni eins og hún gæti séð orð kennarans holdgerast í öllu fyrir utan. Hún þyrfti bara að píra augun og þá gæti hún hreinlega séð bylgjurnar í hverjum sólargeisla og hverju strái. Um kvöldið lá Glódís andvaka í rúminu sínu og minntist orða kennarans:

„Heimurinn í kringum okkur er fullur af rafsegulbylgjum, allt frá röntgengeislum með bylgjulengd sem telur aðeins nokkra nanómetra yfir í útvarpsbylgjur með allt upp í 100 kílómetra bylgjulengd. En sýnilegar bylgjur, ljósið sem við sjáum, eru bara örlítill hluti rafsegulrófsins.“

Hún hugsaði um allt ljósið sem hún gat ekki séð, alla litina sem henni voru huldir. Hún reyndi að ímynda sér heiminn handan skynjunarinnar, veruleikann eins og hann er í raun og sanni, en það eina sem hún gat hugsað um voru takmarkanir hennar eigin skilningarvita. Í kjölfar þessarar uppgötvunar byrjaði Glódís að ímynda sér og búa til sína eigin liti. Eitt ljóða hennar frá þessum tíma bar titilinn Listi yfir ómögulega liti:


liturinn á myrkrinu

sem býr

innra með þér


liturinn á draumum

risafuranna í Kaliforníu

fornari og hægari en tíminn


liturinn á svartholinu

í miðju Vetrarbrautarinnar

óendanleikinn í tóminu


liturinn á augnablikinu

þegar þú veist

að þú ert hætt að elska

 

*

 

Glódís eignaðist sinn fyrsta trúnaðarvin í menntaskóla. Kolbrún hafði byrjað ári á eftir í MH en þrátt fyrir aldursmuninn þá smullu þær saman eins og tveir legókubbar. Samnemendur þeirra og kennarar ráku margir upp stór augu þegar þær byrjuðu að hanga saman því að utan frá voru þær eins og svart og hvítt, eða kannski réttara sagt svarthvítt og regboginn. Glódís; lágvaxin og smágerð, með sitt síða ljósrauða hár, iðulega klædd í litríkar blússur og síðar kápur sem hún verslaði á netinu. Kolbrún; hávaxin og bráðþroska, með stuttklippt hár sem hún litaði stundum neongrænt eða -blátt, gjarnan klædd í víðar hettupeysur og þröngar, rifnar gallabuxur. Saman fullkomnuðu þær hvor aðra og Glódísi leið eins og Kolbrún væri fyrsta manneskjan sem skildi hana. Hún var líka fyrsta manneskjan sem Glódís treysti nógu mikið til að sýna listana sína eftir atvikið með dagbókina. Í frímínútum fóru þær saman út að reykja og í götum fóru þær heim til Kolbrúnar í Hamrahlíðina þar sem þær lásu fyrir hvor aðra ljóð og horfðu á gamlar listrænar kvikmyndir.

Ásthildur, mamma Kolbrúnar, var blind og mæðgurnar bjuggu saman í íbúð á vegum Blindrafélagsins. Í fyrsta skiptið sem Glódís fór í heimsókn til mæðgnanna hafði Ásthildur boðið hana velkomna og spurt hana til nafns. Hún sagði nafnið sitt hátt og snjallt og passaði að beina orðum sínum til Ásthildar sem hafði bara hlegið og sagt:

„Ég er blind elskan, ekki heyrnarlaus.“

Síðan þá hafði Glódís alltaf verið svolítið feimin við hana og stundum leið henni eins og Ásthildur sæi hreinlega í gegnum sig, jafnvel þótt hún gæti ekkert séð. Herbergi Kolbrúnar lyktaði eins og blanda af fornbókabúð og reykelsisverslun. Á veggjunum héngu gömul hljómsveitaplaköt með böndum sem Glódís hafði aldrei heyrt minnst á; Fleet Foxes, Arcade Fire og Boygenius. Eitt sinn þegar þær lágu saman í mosagrænum flauelssófa Kolbrúnar og hlustuðu á tónlist barst talið að strákum. Kolbrún spurði Glódísi hvort hún væri skotin í einhverjum en hún þagði bara. Það voru mörg ár síðan hún hafði hugsað um Sindra en á þessu augnabliki fylltist hugur hennar af djúpblárri mýkt. Liturinn af feimnum og sorgmæddum augum sem horfðu á hana frá hinum enda skólastofunnar.

„Kommon, finnst þér enginn sætur í skólanum?“

Glódís hrökk upp úr blámanum og horfði í augu Kolbrúnar, þau voru á litinn eins og mold og smágerðar freknurnar í kringum nefið voru eins og sandkorn sem lekið höfðu niður úr augun hennar.

„Ég meika ekki stráka. Þeir eru allir eitthvað svo ... grænir.“

„Grænir?“ spurði Kolbrún.

„Æ, þú veist. Klístraðir, eins og hor,“ svaraði hún og Kolbrún hló.

„Ertu þá meira fyrir stelpur?“

Glódís fann roða færast yfir í kinnarnar, hún hristi höfuðið og leit undan. Í sannleika sagt hafði hún aldrei velt því fyrir sér hvort hún væri hrifin af stelpum en eitthvað við spurninguna fékk hana til að fara hjá sér. Auk þess voru augu Kolbrúnar eins og bráðið súkkulaði og hún kunni ekki við að horfa í þau of lengi. Kolbrún rauf þögnina og hækkaði í græjunum.

„Ég elska þetta lag!“

Grípandi fiðlustef með taktfastri bassalínu fyllti herbergið og mjúk karlmannsrödd hóf upp raustina:

„I’d rather dance with you, than talk with you...“

 

Einn daginn fór Glódís með Kolbrúnu í heimsókn til ömmu hennar Jóku sem las bæði í lófa og spil og gat að eigin sögn séð „inn í þennan heim, þann næsta og allt þar á milli.“ Amma Kolbrúnar hét Járngerður en var alltaf kölluð Jóka. Hún bjó í gömlu timburhúsi í grjótaþorpinu sem hafði staðið meira og minna óbreytt áratugum saman. Þegar þær stigu inn um dyragættina mætti þeim þung blanda af sígarettureyk og brenndu kaffi og Glódísi leið hálfpartinn eins og hún hefði stigið í gegnum tímavél. Dauf ljósapera lýsti upp viðarklædda veggi sem þaktir voru málverkum með einkennilegum formum og fígúrum í skærum pastellitum. Glódís gleymdi sér við eitt málverkanna og starði inn í marglitan spíral, myndin snerist fyrir augum hennar og bak við spíralinn tók hún að greina útlínur glottandi andlits sem hún áttaði sig ekki á hvort væri vinalegt eða illkvittið. Hún hrökk upp úr leiðslunni þegar Kolbrún mælti nafn hennar og gekk á eftir henni inn í stofuna. Jóka sat í ruggustól klædd í fjólubláan flauelsslopp, með rúllur í hárinu og sígarettu í annarri hendinni.

„Hæ, amma mín.“

Kolbrún gekk yfir til Jóku og kyssti hana á kinnina.

„Sæl, elskan. Ertu með gest með þér?“

Kolbrún kynnti Glódísi og Jóka bauð stelpunum upp á kaffi. Glódís drakk ekki kaffi en þáði samt boðið og Kolbrún fór fram í eldhús til að hella upp á. Jóka pírði augun á hana í nokkur löng augnablik áður en hún tók til máls.

„Komdu aðeins nær svo ég geti séð þig betur.“

Hún fikraði sig nær Jóku sem greip utan um hönd hennar. Kræklóttir fingurnir voru sterkari en þeir litu út fyrir að vera og köld, strekkt húðin minnti á snákaskinn.

„Þú ert með furðulegustu áru sem ég hef nokkurn tíma séð, stelpa.“

Glódís vissi ekki hvernig hún átti að svara þessu svo hún sagði bara það fyrsta sem kom upp í hugann.

„Hvernig er hún á litinn?“

Jóka tók langan smók af sígarettunni áður en hún svaraði.

„Það er nefnilega málið, ég hef aldrei séð þennan lit áður.“

 

Það var hádegishlé og þær Kolbrún sátu hlið við hlið í sófa í Norðurkjallara sem lyktaði eins og sviti og súrt jógúrt. Þær voru að horfa á myndband í síma Kolbrúnar af mótmælum sem höfðu nýlega átt sér stað í Osló. Myndbandið, sem var búið að ganga eins og eldur í sinu um netið, sýndi hvar þrjú ungmenni stilltu sér upp fyrir framan aðaldyrnar á norska þinginu, helltu yfir sig heilum bensínbrúsa og drógu því næst fram zippokveikjara sem þau notuðu til að kveikja í sér. Í síðustu sekúndum myndbandsins sást hvernig skelfing greip um sig meðal viðstaddra og skerandi rödd heyrðist kalla eftir slökkvitæki á norsku áður en skjárinn varð svartur.

Glódís fann hvernig munnur hennar var orðinn skraufþurr og hendur hennar titruðu eins og ósvarað símtal.

„Afhverju voru þau að þessu?“

Kolbrún yppti öxlum.

„Loftslagsmótmæli eða eitthvað.“

Glódís leit upp og mætti augum slánalegs og krullhærðs stráks með langleitt andlit sem stóð nokkrum metrum álengdar.

„Voruði að horfa á myndbandið? Þetta er svo fökkað dæmi, maður.“

Hann hafði greinilega verið að fylgjast með þeim og brosti aulalega til Glódísar.

„Hæ, Nonni.“

Kolbrún stóð upp, togaði hettupeysuna sína niður og gekk til stráksins. Þau skiptust á nokkrum setningum í hálfum hljóðum og að endingu lét hann Kolbrúnu hafa lítinn pakka sem hún stakk samstundis inn á sig.

„Hvað var þetta?“ spurði Glódís þegar hún settist aftur niður.

Kolbrún seildist inn á kápuna sína og dró fram upprúllaðan plastpoka fullan af einhvers konar þurrkuðum jurtum.

„Bara smá náttúrulyf,“ svaraði hún og beit í vörina.

 

Sólin var hátt á lofti þegar þær beygðu inn hjá Rauðhólum. Kolbrún lagði deilibílnum við hliðina á rútu sem hópur asískra túrista streymdi út úr. Einn þeirra, eldri maður með gleraugu og hvítan hatt, stoppaði fyrir framan bílinn, brosti til þeirra og smellti mynd af þeim. Kolbrún sendi honum fingurinn en maðurinn hélt bara áfram að brosa og veifaði til þeirra áður en hann steig upp í rútuna.

„Fokking túristar.“

Kolbrún hristi hausinn og dró fram plastpokann.

„Reykjum við þetta?“ spurði Glódís og Kolbrún skellti upp úr.

„Nei, þetta eru sveppir! Maður borðar þá.“

Glódís fann roða færast yfir í kinnarnar.

„Ég vissi það alveg,“ muldraði hún og blés lokki frá enninu.

„Hey, þú þarft ekkert að gera þetta frekar en þú vilt.“

Glódís leit í augu Kolbrúnar og svo á plastpokann sem lá í kjöltu hennar. Hún hrifsaði pokann til sín, stakk hendinni ofan í hann og áður en Kolbrún náði að andmæla var hún búin að gleypa heila lúku. Það brakaði í sveppunum þegar hún tuggði og munnur hennar fylltist af beisku og þurru jurtabragði, eins og hún væri að tyggja mold.

„Róleg, þú þarft ekki að klára þetta!“

Kolbrún greip pokann aftur og hellti handfylli af sveppum í lófann á sér.

„Góða ferð“, sagði hún og skellti þeim upp í sig.

 

Þær fundu lúpínubeð nokkra vegalengd frá fjölmennustu túristahópunum. Breiddu úr úlpunum sínum ofan á jörðina og lögðust niður. Sólin var hátt á lofti og geislarnir teiknuðu gylltar útlínur á rauða klettana.

„Hvenær byrjum við að finna fyrir þessu?“

Kolbrún brosti og greip utan um hönd hennar.

„Ekki hafa áhyggjur, það kemur bara þegar það kemur.“

Glódís brosti til baka, hún hafði ekki tekið eftir því fyrr en nú að augun í Kolbrúnu voru ekki bara brún heldur greypt með litlum skærrauðum rákum. Rákirnar dönsuðu yfir lithimnuna eins og litlir ormar eða saffranþræðir.

„Kolbrún, það er eitthvað í augunum þínum.“

Kolbrún svaraði ekki en sjónhimnan víkkaði. Glódís færði sig nær andliti hennar, fann hlýjuna streyma á móti sér og allt í einu langaði hana ekkert frekar en að sökkva inn í þessa hlýju. Varir Kolbrúnar brögðuðust eins og fuglasöngur. Hún leyfði sér að sökkva, vafði sér inn í hlýjuna eins og í rautt flauel. Henni leið eins og kossinn hefði varað í eilífð en sennilega liðu bara nokkur augnablik þar til hún heyrði Kolbrúnu hvísla:

„Ekki.“

En Glódís var ekki tilbúin að hætta, hún vildi ekki slíta sig frá fuglasöngnum og hlýjunni og það var ekki fyrr en Kolbrún ýtti henni frá sér að hún áttaði sig.

„Ég sagði ekki! Díses.“

Kolbrún hristi höfuðið.

„Ég er ekki hrifin af stelpum og svo ertu líka besta vinkona mín.“

Augu Kolbrúnar voru orðin eins og stirðnaður trjábolur og enn á ný vildi Glódís fátt heitar en að geta horfið ofan í jörðina.

„Þú þarft ekkert að skammast þín. Án djóks, þetta er ekkert mál, ég fíla bara ekki stelpur. Ekki svona.“

Kolbrún brosti hughreystandi en vorkunn var það síðasta sem Glódís vildi á þessu augnabliki. Hún fann fyrir ótalmörgum spurningum og tilfinningum í kollinum en það sem hún vildi mest af öllu var einfaldlega að komast burt.

„Ég verð að fara.“

Glódís stóð upp og gekk í burtu. Hún heyrði Kolbrúnu kalla eitthvað á eftir sér en var þegar byrjuð að hlaupa.

 

Hún hrasaði í mölinni. Stóð upp og dustaði rykið af hnjánum sem skörtuðu nú sitthvorum rauðum hálfmánanum. Hún vissi ekki hversu langur tími var liðinn síðan hún tók sveppina. Kolbrún hafði reynt að fylgja henni fyrst um sinn en gefist upp þegar það var augljóst að hún vildi vera ein. Hún horfði í kringum sig, rauðbrúnn jarðvegurinn glitraði, hún pírði augun og sá að glitrið stafaði frá litlum gullmolum sem lágu á víð og dreif í moldinni. Hún vissi að þetta væru dropar sólargeisla og áttaði sig samstundis á því að þetta hafði alltaf verið svona. Hún greip handfylli af jarðvegi, moldin var rök og mjúk, lófar hennar fullir af rauðgylltri birtu. Hún sleppti moldinni og dustaði af höndunum. Rákirnar í lófum hennar voru uppþornaðir árfarvegir. Af hverju hafði hún ekki tekið eftir þessu fyrr? Heimurinn í kringum hana var ein stór fjársjóðskista og þegar hún leit upp blasti uppsprettan við. Glóði efst á himninum, demantur úr eldi, umkringdur kórónu af fljótandi gulli sem flæddi um himininn í stríðum straumum áður en þeir þéttust í dropa af fíngerðu gullregni. Hún horfði í demantinn, í miðju hans snerist hringiða, uppsprettan sjálf. Eftir því sem hún horfði lengur greindu augu hennar sífellt fleiri liti og form sem streymdu yfir himinhvolfið. Hún hafði aldrei séð svona marga liti, svo margir að ógjörningur var að greina þá í sundur. Hún starði í hringiðuna og eftir nokkur augnablik fór henni að svíða. Litlir hvítir punktar tóku að birtast fyrir augum hennar, fyrst um sinn á stærð við sandkorn en svo stækkuðu þeir og tóku að dansa yfir sjónhimnuna eins og lirfur í kjöti.

Það var þá sem Glódís áttaði sig á því að sólin er ekki gul, heldur hvít. Sólin er allir litir. En hún gat ekki litið undan. Punktarnir héldu áfram að stækka svo nú var sjónsvið hennar nánast þakið hvítum blettum. Hún heyrði einhvern kalla nafn sitt úr fjarska en hún svaraði ekki heldur hélt bara áfram að stara í brennandi ljósið.

71 views0 comments


Jólabókaflóðið 2024 fer heldur rólega af stað, enda þurfa skáldin nú að keppast um athygli við hamfarastjórnmál og kosningar bæði hérlendis og Vestanhafs. Það stefnir hins vegar í einstaklega spennandi bókajól þetta árið og því langaði mig að tileinka þessu bloggi þeim fimm skáldsögum sem ég er hvað spenntastur fyrir að lesa. Þar sem ég er gagnrýnandi er rétt að taka það fram að þetta val er algjörlega byggt á mínum eigin persónulegu væntingum og er fullkomlega hlutdrægt. Flestum þessara höfunda er ég raunar það kunnugur að ég myndi veigra mér við að skrifa gagnrýni um bækur þeirra enda stendur það ekki til á þessum tímapunkti.


 

Friðsemd eftir Brynju Hjálmsdóttur



Friðsemd er fyrsta skáldsaga Brynju Hjálmsdóttur sem hefur vakið mikla athygli fyrir ljóðabækur sínar, Okfruman og Kona lítur við. Brynja er góð vinkona mín frá því í ritlist í Háskólanum og ég hef fengið að fylgjast með henni springa út sem höfundur á síðustu árum.


Á káputexta segir:


Friðsemd hefur alla tíð verið með nefið ofan í erótískum spennusögum, sem Fatima, besta vinkona hennar, framleiðir á færibandi. Hennar eigið hversdagslíf er allt annað en spennandi. Þegar besta vinkonan deyr af grunsamlegum slysförum heldur Friðsemd í háskaför og áður en hún veit af er líf hennar orðið ískyggilega reyfarakennt.


Hvílíkur húkkur! Ég hef ekki lesið bókina en heyrði Brynju lesa upp úr henni á útgáfuhófinu þar sem ég tryggði mér að sjálfsögðu eintak. Brynja er náttúrlega eitt fyndnasta og frumlegasta skáld Íslands þannig ég held að lesendur megi búast við stórfurðulegri og bráðskemmtilegri bók. Í það minnsta hlakka ég mikið til að lesa Friðsemd.


 

Gólem eftir Steinar Braga



Steinar Bragi er geitin í íslenskum furðusögum, það þarf ekkert að ræða frekar. Enda er hann mögulega eini íslenski höfundurinn sem skrifar hreinræktaðan hrylling og vísindaskáldskap og fær samt að sitja við sama borð og fagurbókmenntahöfundar. Síðustu tvær bækur Steinars, Truflunin og Dáin heimsveldi voru gjörsamlega truflaðar (pun intended) og mesta furða að enginn kvikmyndaleikstjóri sé búinn að pikka þær upp til aðlögunar því þær eru með því allra besta sci-fi sem komið hefur út á íslenskri tungu.


Ég veit ekkert meira um Gólem annað en það sem stendur á káputexta en það er líka alveg nóg fyrir mig:


Grípandi saga úr myrkum framtíðarheimi. Ung kona vinnur fyrir valdamikið fyrirtæki við að lengja líf ríkasta fólks heims. Dag einn er tilvist fyrirtækisins ógnað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.


 

Breiðþotur eftir Tómas Ævar Ólafsson



Tómas Ævar er annar skáldvinur minn úr ritlistinni sem hefur nú sent frá sér sína fyrstu skáldsögu sem ber titilinn Breiðþotur en hann hefur áður gefið út ljóðabókina Umframframleiðsla. Tómas og Brynja héldu sameiginlegt útgáfuhóf á Loft Hostel í síðustu viku sem var einstaklega skemmtilegt en þótt þau séu bæði með svipaðan bakgrunn er ljóst að bækur þeirra eru eins ólíkar og hugsast getur.


Á káputexta segir um Breiðþotur:


Gagnaleki skekur heimsbyggðina. Þeir sem lýsa yfir ábyrgð krefjast róttækra aðgerða í loftlagsmálum. Áhrifa lekans gætir hjá krökkunum í Þorpinu. Verið er að undirbúa Þorpið undir næsta gagnaleka, þann sem mun afhjúpa öll leyndarmálin. Breiðþotur er grípandi saga um vináttu og söknuð, tæknihyggju og uppgang öfgaafla.


Ég heyrði Tómas lesa upp úr bókinni á útgáfunni og var mjög hrifinn. Breiðþotur virðist vera útpæld skáldsaga stútfull af hugmyndafræði og pælingum um samtímann. Enn fremur virðist hún hafa einhvern alþjóðlegan tón sem finnst aðeins hjá höfundum sem eru vel lesnir í því sem er að gerast í erlendum nútímaskáldskap og minnti mig á Pedro Gunnlaug Garcia, annan frábæran íslenskan höfund.


 

Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur



Eva Rún Snorradóttir er einn af áhugaverðustu listamönnum sinnar kynslóðar. Hún starfar jöfnum höndum sem sviðslistamaður og rithöfundur og hefur ítrekað sent frá sér verk sem ögra viðteknum venjum og eru í senn ískyggilega næm og óborganlega fyndin. Eldri konur virðist ætla að tikka í bæði þessi box en ég heyrði Evu Rún lesa upp úr handriti bókarinnar á ljóðakvöldi Queer Situations, bókmenntahátíðar sem hún og Halla Þórlaug skipulögðu. Ég held að ég geti með sanni sagt að þessi upplestur var einn sá fyndnasti sem ég hef nokkurn tíma heyrt á bókmenntaviðburði, enda var allur salurinn grenjandi af hlátri undir lok hans. Ég er því einstaklega spenntur að lesa Eldri konur og er viss um að bókin muni koma mér á óvart.

Á káputexta bókarinnar segir:


Ung kona gefur rapport af þráhyggju sinni fyrir eldri konum og rekur líf sitt frá barnæsku til fullorðinsára gegnum frásagnir af konum sem hafa heltekið hana. Eldri konur er röntgenmynd af ástandi. Við kynnumst konunni með ólíkum brotum af sögu hennar, uppvexti í flóknum heimilisaðstæðum, mismunandi vinnustöðum, vináttu, ástum, sigrum og ósigrum.


 

Mikilvægt rusl eftir Halldór Armand



Halldór Armand hefur heldur betur stimplað sig inn í bókmenntalífið sem einn sterkasti skáldsagna- og pistlahöfundur þúsaldarkynslóðarinnar. Mikilvægt rusl er hans fimmta skáldsaga og er fyrsta bók Halldórs sem er sjálfútgefin, áhugavert útspil sem verður spennandi að sjá hvernig gengur. Síðasta bók Halldórs, skáldsagan Bróðir, kom út 2020 og er að mínu mati ein besta íslenska skáldsaga þessa áratugar. Ég er því einkar spenntur að lesa Mikilvægt rusl þótt ljóst sé að hún er töluvert frábrugðin síðustu bókum höfundar. Ég heyrði Halldór lesa upp úr Mikilvægt rusl á útgáfuhófinu sem haldið var í Góða hirðinum í síðasta mánuði og af því sem ég heyrði er bókin bæði spennandi og húmorísk. Hún gerist árið 2008 í hruninu sem mér finnst mjög spennandi því núna er loksins liðinn nógu langur tími til að hægt sé að skrifa sannfærandi sögulegar skáldsögur um þetta tímabil og Halldór hefur sýnt það með fyrri bókum sínum að hann er einstaklega lunkinn í því að lýsa tíðaranda.


Á káputexta bókarinnar segir:


Daginn sem forsætisráðherra Íslands biður Guð að blessa þjóðina finnur öskukallinn Gómur Barðdal afskorið mannsnef í ruslatunnu við glæsihýsi í Þingholtunum. Skömmu síðar er frændi hans, seinheppna skáldið Geir Norðann, ráðinn sem ljóðakennari inn á þetta sama heimili. Hver á þetta nef? Hvernig endaði það í ruslatunnu?


 

Þar hafið þið það! Þær fimm skáldsögur sem ég hlakka hvað mest til að lesa í Jólabókaflóðinu 2024. Vissulega hefði ég getað talið upp margar fleiri en ég ákvað að halda við mig fimm og hver veit nema ég geri sambærilegan lista yfir ljóðabækur. Við sjáumst svo bara í næsta útgáfuhófi.


ÞSH, 3. nóvember 2024.

141 views0 comments
Writer's pictureÞorvaldur Sigurbjörn Helgason

„Aldrei hefir verið samin svo ómerkileg bók, að hún hafi ekki kostað meira andlegt erfiði en stjórn heillar togaraútgerðar í tíu ár. Og aldrei hefir verið gefin út svo góð bók á Íslandi, að ritlaun höfundarins hafi numið meiru en einum þrítugusta hluta af árskaupi lélegs útgerðarstjóra.“

 

-Þórbergur Þórðarson, Bréf til Láru

 


Ég ætla að viðurkenna svolítið fyrir ykkur. Mér finnst leiðinlegt að skrifa. Ef ég ætti raunar að svara því á dýpra plani hvað mér finnst virkilega um skrif þá yrði ég að viðurkenna að það að skrifa hefur stundum reynst mér svo sálardrepandi að ég hef sennilega eytt meiri pening í sálfræðimeðferð til að vinna bug á þeim andlega skaða sem ritlist sem valdið mér heldur en ég hef grætt á öllum mínum skrifum samanlagt. Ég veit að ég er að taka full sterkt til orða en ég er samt tilbúinn að veðja andvirði eins mánaðar ritlauna að eitthvert ykkar sem les þetta hefur upplifað það sama. Sem færir okkur einmitt að umfjöllunarefni þessa pistils: Blessuðum ritlaununum.


Ég lofaði því í fyrirsögninni að útskýra af hverju ég sótti ekki um listamannalaun þetta árið en til þess að gera það þarf ég fyrst aðeins að fara yfir persónulega reynslu mína af ritlaunum. Ég vil byrja á því að árétta að allt sem hér kemur fram er eingöngu byggt á minni eigin reynslu af þessu umsóknarferli og eflaust eru margir aðrir listamenn sem hafa miklu betri eða verri sögur að segja. Allavega. Ég sótti um listamannalaun í launasjóð rithöfunda árlega á tímabilinu 2017-2023 og á þessu tímabili fékk ég aðeins einu sinni úthlutun; þriggja mánaða ritlaun árið 2019 sem ég nýtti til skrifa á tveimur verkum. Það gerir 12,5% árangurshlutfall, en umsóknir mínar voru alls 8 á þessum 7 árum. Nú vil ég ekki lesa of mikið í störf úthlutunarnefndarinnar, enda er algjörlega ómögulegt að vita hvað henni gengur fyrir þar eð nefndin áskilur sér þann rétt að rökstyðja aldrei val sitt, hvort sem umsókn er samþykkt eða hafnað. Umsækjandi getur þannig hvorki vitað hvað það er sem hann er að gera rétt né rangt. Guð má vita að ég er enginn sérfræðingur í að skrifa styrksumsóknir en ég hef þó gert þær ansi margar, bæði fyrir sjálfan mig og aðra sem hluta af vinnunni minni, og hafa margar þessara umsókna (til annarra sjóða en launasjóðs) verið samþykktar. Ég tel mig því vera alveg temmilega flinkan í að skrifa umsóknir auk þess sem ég hef reglulega fengið reynslumikið fólk, allt frá ritstjórum yfir í reynda kollega, til að lesa yfir umsóknir mínar til listamannalauna og setið fræðslufundi um umsóknargerð hjá Rithöfundasambandinu. Ég lá raunar svo lengi yfir síðustu umsókn minni um ritlaun að ég hélt að hún væri algjörlega skotheld en allt kom fyrir ekki. Í ljósi þessa tel ég mig geta fullyrt að það eru ekki gæði umsókna minna sem hafa orðið þeim að falli heldur einhver önnur ástæða.


Kannski finnst úthlutunarnefndinni ég einfaldlega ekki vera nógu duglegur höfundur, ég hef jú aðeins gefið út tvær bækur á þessu sjö ára tímabili og báðar þeirra voru ljóðabækur, sem eins og allir vita teljast varla með sem „alvöru“ bækur í íslensku bókmenntahírarkíunni. Kannski finnst nefndinni ég heldur ekki hafa unnið til nógu margra verðlauna, þessi eina úthlutun sem ég fékk 2019 kom jú beint í kjölfar þess að ég hlaut Nýræktarstyrk fyrir handritið að annarri ljóðabók minni Gangverk sem bendir sterklega til þess að nefndinni hafi þótt ég efnilegur þá. Ef til vill hefur skortur á sambærilegum verðlaunum undanfarin ár verið nefndinni varnagli. Eða kannski er nefndin að taka mið af fyrri umsóknum mínum og telur máske litlar líkur á því að ég muni uppfylla loforð mín í núverandi umsókn í ljósi þess hversu fá af umsóttum verkum mínum hafa komið út. En hversu líklegt er aftur á móti að maður klári og gefi út verk þegar engin eru launin? Kannski er líklegasta skýringin þó sú að þetta hafi í raun ekkert með mig og gæði mín sem listamanns eða umsækjanda að gera. Kannski voru einfaldlega bara aðrir með betri hugmyndir og betri umsóknir. Punkturinn er allavega sá að á meðan nefndin þegir um úrskurði sína þá er algjörlega ómögulegt að spekúlera um ásetning hennar.


Það finnst engum rithöfundi skemmtilegt að skrifa, ég held að allir geti verið sammála um að það að skrifa er kvöl og pína!

Skáldsagan endalausa

Sem færir okkur að stöðunni í dag. Í tæp tvö ár er ég búinn að vera að vinna að skáldsögu sem ég hef tvisvar sótt um listamannalaun fyrir. Vinnutitilinn er Listi yfir ómögulega liti og hún byggir á smásögu sem ég skrifaði 2018-19 og lengdi svo yfir í skáldsögu sem ég skrifaði fyrsta uppkastið að sumarið 2023 í rithöfundaresidensíu í Košice, Slóvakíu. Mér þykir mjög vænt um þessa sögu og mig langar mjög mikið til að klára hana en ég hef enga hugmynd um hvenær mér gefst tími til þess eða hvort mér muni takast það yfir höfuð. Bókin er núna á sirka þriðja uppkasti og ég veit nákvæmlega hvað ég þarf að gera til þess að klára hana en ég fæ mig einfaldlega ekki til þess eða gef mér ekki tíma í það. Fyrsta uppkast bókarinnar var skrifað á tímabili þegar ég vann sem frílans textamaður eftir að ég missti vinnuna á Fréttablaðinu. Í janúar á þessu ári byrjaði ég svo aftur í fullri vinnu við sviðslistadeild Listaháskólans, sem ég nota bene dýrka og finnst raunar miklu skemmtilegri en nokkur skrifvinna sem ég hef sinnt. Með fram þeirri vinnu, tónlistarnámi í FÍH, kórstörfum, aukavinnu sem gagnrýnandi, líkamsrækt, félagslífi og almennu stússi þá gefst mér augljóslega ekki mikill tími til að sinna skáldsagnaskrifum. Þegar ég sest niður til þess að vinna í skáldsögunni, sem er í mesta lagi nokkra klukkutíma á viku, þá upplifi ég raunar svo mikla pressu að NÚNA ÞURFI ÉG SKO AÐ SKRIFA að ég vil frekar nýta þann litla tíma sem ég hef aflögu til að skrifa eitthvað skemmtilegt eins og ljóð eða blogg. Til að enda þessar pælingar mínar þá ætla ég mér sannarlega að klára þessa bók einn daginn, en hvort hún kemur út eftir 1 ár eða 10 er ómögulegt að segja. Raunar vona ég innilega að það verði sem fyrst því bókin er spáskáldsaga (e. speculative fiction) sem gerist í náinni framtíð og það væri því frekar vandræðalegt ef árið þegar bókin á að gerast myndi renna upp áður en hún loks kemur út. Ég er auk þess búinn að taka loforð af sjálfum mér að ég ætla a) ekki að gefa út aðra ljóðabók og b) ekki að sækja aftur um listamannalaun fyrr en þessi blessaða skáldsaga er tilbúin til útgáfu. Þið þurfið því að bíða eitthvað eftir því að lesa þessa bók, en á meðan getið þið lesið þetta blogg og svo eru ýmsir ritdómar eftir mig að fara að koma út í haust. Kannski mun ég birta fyrsta kaflann úr skáldsögunni hér á blogginu ef áhugi er fyrir hendi, það gæti jafnvel verið mér smá hvatning. Hann er nefnilega upphaflega smásaga sem hefur verið tilbúin síðan 2019. Hver veit.


Sporvagn og stúlkur í miðbæ Košice.

Að hata eða elska

Ég sagði í upphafi þessa pistil að mér fyndist leiðinlegt að skrifa og mig langar rifja upp eitt skondið atvik sem varpar ljósi á það. Sumarið 2023 ferðaðist ég mjög mikið en auk þess að dvelja í mánuð í Košice dvaldi ég tvær vikur í Berlín og sótti þar námskeið í skapandi skrifum hjá UdK háskólanum (Universität der Künste Berlin) sem var einkar skemmtilegt og fróðlegt. Námskeiðið var kennt af tveimur ungum konum sem heita Annika Haas og Anna M. Szaflarski og bar heitið Floating Texts: Unlearning to Write sem mér fannst einkar viðeigandi á þessu tímabili þegar ég var í mikilli sjálfsskoðun hvað varðar sjálfan mig og mín skrif. Anna þessi er kanadískur rithöfundur og mjög skemmtileg týpa og í einum tímanum ræddum við þátttakendur og leiðbeinendur saman um afstöðu okkar til skrifa. Ég var í einhverjum mótþróa og sagði eitthvað eins og „Það finnst engum rithöfundi skemmtilegt að skrifa, ég held að allir geti verið sammála um að það að skrifa er kvöl og pína!“ Sem Anna svaraði þá: „Þetta er nú ekki alveg rétt hjá þér, Þorvaldur. Ég hef fylgst með þér skrifa hérna á þessu námskeiði og ég sé alveg að þér finnst það gaman.“ Til að vitna í eitt fremsta skáld þúsaldarkynslóðarinnar, Auðunn Blöndal, þá var ég svo sannarlega tekinn þarna. Ég þurfti allavega að éta hattinn minn og viðurkenna fyrir Önnu, Anniku og samnemendum mínum að mér fyndist kannski ekkert svo slæmt að skrifa. Þátttaka mín á þessu námskeiði benti allavega sterklega til þess að mér fyndist það að minnsta kosti bærilegt og í besta falli bara nokkuð skemmtilegt.

 

En hvernig stendur þá á því að ég hef svo oft koxað á skrifum? Hvers vegna hef ég bugast á svo mörgum handritum að umsóknarsíðan mín hjá Rannís minnir á spjaldskrá bókasafnsins í Alexandríu? Við því er ekkert einfalt svar en kvíði og frestunarárátta, eru þar ofarlega á lista. Eins og flestir, ef ekki allir, rithöfundar hef ég gengið í gegnum mörg tímabil í mínum skrifum. Það hafa komið tímabil þar sem ég elska að skrifa, þar sem orðin flæða eins og vatn úr krananum, og það hafa komið tímabil þar sem ég hata að skrifa, þar sem orðin þarf að kreista út eins og pissið á manni með bólginn blöðruhálskirtil. Það er einfaldlega ströggl að skrifa, eins og tilvitnunin í Bréf til Láru Þórbergs hér að ofan sýnir glöggt. En kannski þarf maður samt ekki að taka þessu öllu svona persónulega. Ein besta lexían sem ég lærði á mínum tveimur árum sem blaðamaður var nefnilega sú að það skiptir ekki endilega svo miklu máli hvernig manni líður með skrifin sín, svo lengi sem maður bara sinnir þeim. Skrif eru hvorki merkilegri né ómerkilegri en hver önnur vinna og vinna er ekkert endilega eitthvað sem maður þarf að elska, maður þarf bara að framkvæmda hana (þótt það vissulega hjálpi að finnast hún skemmtileg). Kannski mætti endurorða þetta svo að ég elska að skrifa en hata að endurskrifa.

 

Ég hef líka svolítið verið að ströggla við það að kalla mig rithöfund í ljósi þess að það er bara einn angi af því sem ég geri. Ég er nokkuð viss um að ég muni aldrei verða einhliða rithöfundur í fullu starfi, svona maður sem gefur út bók á 1-2 ára fresti, er á ritlaunum stærstan hluta ársins og eyðir bróðurparti vinnudagsins einn á kontórnum. Ég held að ég sé hreinlega ekki gerður fyrir svoleiðis vinnu. Ég hef allavega fundið það á þessum tæpa áratug sem ég hef verið starfandi í menningargeiranum að ég þrífst langbest í vinnu þar sem ég fæ að sinna alls konar ólíkum verkefnum og vinna með alls konar ólíku fólki að sameiginlegu markmiði. Stundum finnst mér gaman að loka mig af í nokkrar vikur/mánuði og vinna ákaft í einrúmi en það er algjör undantekning. Af þessu má ef til vill ráða að starf rithöfundarins, sem snýst í miklum mæli um það að loka sig af og eyða löngum tíma með sínum eigin hugsunum, henti mér ekkert sérstaklega vel. En rithöfundar eru auðvitað eins ólíkir og þeir eru margir og ég þekki marga rithöfunda sem eru miklar félagsverur þannig kannski er þetta bara spurning um að finna sitt jafnvægi. Mig hefur heldur aldrei langað til þess að festa mig við eina grein eða einn miðil, ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ólíkum listgreinum og samspili þeirra sem sést bæði á því hvaða leið ég fór í menntun og hvaða störf ég hef unnið. Ég er með BA í sviðshöfundanámi frá LHÍ, MA í ritlist frá HÍ og stunda núna söngnám við Tónlistarskóla FÍH með fram vinnu. Síðustu 5-6 ár hef ég svo starfað til skiptis við bókmenntir, blaðamennsku, myndlist, tónlist og sviðslistir. Ég held að ég þrífist langbest sem einhvers konar listrænt kamelljón (eins tilgerðarlega og það hljómar) sem fær að vinna þvert á ólíkar greinar við bæði skipulagningu og sköpun. Sem er einmitt það sem ég er að gera núna! Svo er það hitt sem má varla nefna fyrir framan fólkið sem talar sýknt og heilagt um að „láta drauma sína rætast“, það er nefnilega ekkert sem segir að maður þurfi að vera rithöfundur. Það má líka bara alveg vera ljóðskáld, gagnrýnandi eða fúskaður bloggari. Það er engin skrifandi maður skuldugur að gefa út skáldsögu, jafnvel þótt íslenski jólabókamarkaðurinn haldi áfram að predika ofríki skáldsögunnar. Ég hef alltaf fyrst og fremst litið á mig sem ljóðskáld og hugga mig oft við það að mörg bestu skáld bókmenntasögunnar skrifuðu aldrei eina einustu skáldsögu. Svo var ég líka að enda við að lesa mjög forvitnilegt blogg þar sem skrifandi fólki er eindregið ráðið frá því að gefa út bækur. En kannski eru þetta bara allt afsakanir til þess gerðar að fresta því sem ég veit að ég þarf og vil gera, sem er að klára helvítis skáldsöguna!

 

Til að ljúka þessari langloku og svara spurningunni í fyrirsögn endanlega þá sótti ég ekki um listamannalaun 2024 einfaldlega af því mig langaði ekki til þess og af því ég hef ekki þörf fyrir þau (það væri einfaldlega launalækkun fyrir mig að fara yfir á ritlaun, þrátt fyrir að laun mín hjá LHÍ séu ekki beint há). En til að svara spurningunni um hvort ég sé fyrst og fremst rithöfundur, skáld, verkefnastjóri eða bara almennur fúskari, þarf ég aðeins lengri umhugsunarfrest.

 

ÞSH, 25. október 2024.

182 views0 comments
1
2
bottom of page