Now, some guys, they just give up livin'
And start dying little by little, piece by piece
Some guys come home from work and wash up
Then go racin' in the street
-Bruce Springsteen, Racing in the Street
Ég bý í nýbyggingu á Mýrargötu, 45 fermetra íbúð á þriðju hæð fjölbýlishúss, þaðan sem ég hef fullkomið útsýni yfir byggingarsvæði sem vindurinn gnauðar um og fjögurra stjörnu hótel. Ég þarf að ganga í gegnum hótelinnganginn til þess að komast að íbúðinni minni vegna þess að verktakarnir hafa enn ekki klárað að helluleggja við aðalinnganginn og þegar ég fer til og frá vinnu mæti ég iðulega starfsmönnum hótelsins sem sitja í portinu ofan á kössum af byggingarefni og reykja. Ég „á“ þessa íbúð, eða í það minnsta er nafn mitt á tugmilljón króna láninu sem bankinn veitti mér til að kaupa hana, þó svo að ég sé enn tæknilega séð ekki orðinn fullgildur eigandi hennar. En nóg um það. Á svo gott sem hverri nóttu sem ég hef gist í þessari íbúð, sem eru orðnar þónokkrar frá því ég flutti inn í mars 2024, heyri ég vélagný sem hefst einhvern tíma í kringum miðnætti; drunur í sprengihreyflum og ískur í dekkjum sem sleikja malbikið á nokkuðhundruð kílómetra hraða á klukkustund. Þetta eru mennirnir (ég ætla að gefa mér að þetta séu mestmegnis karlmenn) sem kjósa að nýta þessar síðustu stundir dagsins til þess að keppa í spyrnu úti á Granda.
Hingað til hefur þetta ekki truflað mig, ég á auðvelt með að sofa í gegnum alls kyns hávaða, ef ég á annað borð sofna, en mér finnst eitthvað ljóðrænt við þetta. Raunar svo ljóðrænt að ég birti stutt myndskeið í story á Instagram með sömu yfirskrift og varð titill þessa pistils (ég læt myndskeiðið fylgja með hér að neðan). Myndskeiðið var auðvitað, eins og flest allt sem ég pósta á Instagram, sett fram í ákveðnum hálfkæringi til þess að fiska viðbrögð fylgjenda minna, en ég kemst ekki hjá þeirri hugsun að eitthvað við þessa upplifun risti dýpra. Kannski er það þó bara minn rómantíski og tilgerðarlegi hugur sem reynir að finna dýpri merkingu í handahófskenndu áreiti og búa til persónulega narratívu þar sem engin er fyrir. Löngu áður en ég flutti hingað á Mýrargötu skrifaði ég nefnilega ljóð sem innihélt eftirfarandi ljóðlínur (ég læt líka upprunalega ljóðið fylgja með í heild hér að neðan):
ef ég væri frumlegra skáld
myndi ég líkja tilfinningunni við eitthvað óvænt og sértækt
kríur að hausti að búa sig undir langflugið til Suður-Íshafsins
einmana jöklasóley í blindbyl uppi á hálendi
eða mótorhjól um miðja nótt, tætandi upp malbikið á bílaplaninu hjá Byko á Granda
Ég verð að viðurkenna að mér fannst eithvað skemmtilega skáldlegt við það að þessar ljóðlínur mínar frá 2021/2022 skyldu raungerast þegar ég flutti í mína fyrstu íbúð, eins og ég hefði hreinlega manifestað þær inn í veruleikann. En auðvitað er það hápunktur drambsins að hugsa svona, líklegasta skýringin er sú að ég hafi einhvern tíma heyrt þessar sömu drunur berast frá Grandanum þegar ég bjó síðast í Vesturbænum, á Bræðraborgarstíg 2014-2019. Að þær hafi smeygt sér inn í undirmeðvitund mína og svo fundið sér leið út í ljóði nokkrum árum síðar. Að eina ástæðan fyrir því að ég eigna þessum spyrnudrunum einhverja ljóðræna merkinu í lífi mínu sé sú að ég hlusta á þær einmitt þegar ég er að reyna að sofna, sem er sá tími sólarhringsins þegar maður er berskjaldaðastur fyrir órökréttum og ljóðrænum hugsunum.
Eða hvað? Hvað fær menn til þess að keppa í spyrnu niðri á Granda nótt eftir nótt? Eru þeir að reyna að sanna eitthvað fyrir sjálfum sér og öðrum? Eða hafa þeir kannski bara einlægan áhuga á hraðskreiðum bílum? Eru þeir ef til vill að leita að sömu tilfinningu og ég upplifi þegar ég keyri út úr bænum á sólríku hausteftirmiðdegi, stíg bensíngjöfina í botn og öskursyng alla Darkness on the Edge of Town plötuna með Bruce Springsteen á leiðinni í bústaðinn? Hver veit. Kannski spyrna þessir menn, einmitt fyrir mig. Kannski keyra þeir hring eftir hring á sínum öskrandi tryllitækjum; niður Hringbraut með skarpri hægribeygju í gegnum hringtorgið hjá Ánanaustum, beint í gegnum næsta hringtorg og inn á Fiskislóð þar sem allar óseldu og ólesnu bækurnar mínar standa og rykfalla í vöruskemmu Forlagsins. Kannski spyrna þeir vitandi það að í nýbyggingu á Mýrargötu liggur skáld á fertugsaldri í hálfu rúmi og hlustar á vélagnýinn. Því eins og skáldvinur minn Lommi sagði: „Hvað er lífið annað en spyrna við moldina.“ Kannski þess vegna ligg ég andvaka á hverri nóttu, hlusta á menn keppa í spyrnu úti á Granda og hugleiði minn eigin dauðleika. Því ég veit að ég þarf að spyrna á móti.
ÞSH, 5. október 2024.
sjávarföll
ef ég væri frumlegra skáld myndi ég líkja tilfinningunni við eitthvað
óvænt og sértækt
kríur að hausti að búa sig undir langflugið
til Suður-Íshafsins
einmana jöklasóley í blindbyl uppi á hálendi
eða mótorhjól um miðja nótt, tætandi upp malbikið
á bílaplaninu hjá Byko á Granda
en það eina sem hún minnir mig á eru sjávarföllin
sem koma og fara eins og þeim sýnist
skola stundum hlutum á land
upplituðum fiskikörum og veðruðum stígvélum
eins og áminningu
um allt það sem við þykjumst ekki sjá
en þurfum að takast á við
skola stundum hlutum á haf út
molnandi ígulkerjum og rotnandi fuglshræjum
eins og áminningu
um allt það sem við getum ekki horft fram hjá
en verðum að leggja til hliðar
ligg í hálfu rúmi og hlusta
fjarar inn, fjarar út
(úr Manndómur, Mál og menning, 2022)