top of page
  • Writer: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
    Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
  • Dec 11, 2025
  • 4 min read

Um daginn skrifaði ég færslu þar sem ég taldi upp þær fimm skáldsögur jólabókaflóðsins sem mér finnst hvað mest spennandi. Ég ætla hins vegar hér með að lýsa því yfir að flóð ársins er sannkallað ljóðabókaflóð, í ljósi þess að í ár koma út langtum fleiri spennandi ljóðabækur heldur en skáldsögur. Ljóðabókaútgáfa ársins hefur verið gífurlega frjó og mér finnst ljóð, og þá sérstaklega ljóð ungra skálda, vera að eiga ákveðið móment. Ein birtingarmynd þess er sú að um daginn prýddu tvö ung ljóðskáld (Anna Rós og Þórdís Dröfn) sem báðar sendu frá sér sínar fyrstu bækur í haust forsíðu bókablaðs Heimildarinnar. Ég man ekki eftir mörgum öðrum sambærilegum dæmum frá síðustu 10-15 árum, oftar en ekki hafa fyrstu bækur ljóðskálda fengið litla sem enga athygli í jólabókaflóðinu og þótti mér því gaman að sjá þetta. Hér kemur listi yfir þær fimm ljóðabækur sem mér þóttu bestar af þeim sem ég hef lesið í ár. Einhver gæti rekið augun í það að hér komast eingöngu bækur eftir konur á lista en það er ekkert skrýtið því ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að kvenskáld hafa algjörlega verið í fararbroddi íslenskrar ljóðlistar undanfarin ár. Listinn er ekki í neinni sérstakri röð.



Draugamandarínur eftir Birgittu Björg Guðmarsdóttur


Draugamandarínur er fyrsta ljóðabók Birgittu Bjargar sem vakti mikla athygli fyrir skáldsögu sína Moldin heit í fyrra en sú bók hlaut Fjöruverðlaunin og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ég skrifaði ritdóm um Draugamandarínur í tímaritið Són og hér kemur úrdráttur úr honum:


Draugamandarínur er vægast sagt óvenjulegt verk og er langt síðan undirritaður hefur lesið svo ögrandi og frumlega ljóðabók orta á íslenskri tungu. Leita þyrfti í framúrstefnulegustu verk Kristínar Eiríksdóttur eða Sjóns til að finna eitthvað í líkingu við Draugamandarínur en þó er rétt að taka það fram að ljóðheimur Birgittu Bjargar er algjörlega einstakur hvað varðar stíl og efnistök. Bókin er byggð upp af ónefndum, númeruðum ljóðum og er eins konar konseptverk þar sem ekki er að finna eiginlegan söguþráð. Ljóðin eru í senn holdleg, heimspekileg og hrollvekjandi og eru sögð frá sjónarhorni ónefnds ljóðmælanda sem lýsir tilvistarlegum vangaveltum sínum er hún rífur í sundur mandarínu og uppgötvar undir berki hennar ekki bara sætt aldinkjöt, heldur heilan heim. Mandarínan verður þannig að sterkri táknmynd í verkinu sem stendur í senn fyrir nautnir, leyndardóma og grótesku holdsins.


 

Síðasta sumar lífsins eftir Þórdísi Dröfn Andrésdóttur


Sigurhandrit Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar í ár var Síðasta sumar lífsins eftir Þórdísi Dröfn Andrésdóttur sem er fyrsta bók höfundar. Rétt er að taka það fram að ég sat í dómnefnd verðlaunanna og er því kannski ekki alveg hlutlaus hvað bókina varðar en ég var mjög hrifinn af henni og það er ekki oft sem ég hef lesið jafn heilsteypta og útpælda frumraun. Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars:


Síðasta sumar lífsins, er ljóðsaga sem segir frá tveimur elskendum sem eru staddir á ónefndri sólríkri eyju. Handritið er ljúfsár og tregafull lýsing á endalokum í víðum skilningi; endalokum tímans, ástarinnar, lífsins og sumarsins sem hverfur frá birtu yfir í óvissu myrkurs. Hvorki elskendurnir tveir né eyjan sem þeir dvelja á eru nokkru sinni nefnd á nafn svo reynsluheimurinn sem ljóðin lýsa verður almennur á meðan ljóðmyndirnar eru bæði sértækar og óvenjulegar, allt frá þekktu minni þar sem fiskur verður táknmynd guðs, yfir til kirsuberjasteina í öskubakka.


 

Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur


Hvalbak er önnur ljóðabók Maó Alheimsdóttur sem hefur vakið töluverða athygli í íslenskum bókmenntaheimi, meðal annars með skáldsögu sinni Veðurfregnir og jarðarfarir. Hvalbak er mjög sterkt og vel skrifað verk sem fjallar um samband manna og jökla í kynngimögnuðu líkingamáli. Ég skrifaði einnig dóm um þessa bók í tímaritið Són þar sem ég sagði meðal annars:


Hvalbak er gífurlega vel heppnað verk, kraftmikil ljóðabók sem fjallar um samband manns og náttúru á nýstárlegan hátt. Hér er ljóðmálinu beitt af fagmennsku og leikgleði og það er einkar gaman að sjá höfund sem hefur íslensku ekki að móðurmáli notfæra sér þjóðararfinn okkar, íslenskuna, á svo frumlegan og skapandi máta. Þrátt fyrir síendurteknar fregnir af hnignandi stöðu íslenskunnar þá er ljóst að tungumálið okkar er í góðum höndum á meðan skáld á borð við Maó Alheimsdóttur munda pennann.


 

Postulín eftir Sunnu Dís Másdóttur


Sunna Dís hefur auðvitað fyrir löngu sannað sig sem eitt eftirtektarverðasta skáld okkar og styrkir það enn betur með sinni annarri ljóðabók, Postulín, sem kom út í haust. Postulín er sterk og áleitin bók sem fjallar um konu sem býr á safni og lendir í þeim harmi að missa fóstur. Bókin nálgast þetta erfiða viðfangsefni af næmni, virðingu og fegurð en bókin hlaut nýlega tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og í umsögn dómnefndar hennar segir meðal annars:


Sögusvið bókarinnar er safn í smábæ þar sem fjallið vakir yfir íbúum og draugar fortíðar eru alltumlykjandi. Kona og fjall renna að lokum saman í eitt þegar dregin er upp mynd af snjóflóði samhliða því þegar ljóðmælandi upplifir fósturmissi. Undurfagur texti um sorg, missi og grimmd dauðans sem lætur í ljós einstaka næmni höfundar.


 

Fyrir vísindin eftir Önnu Rós Árnadóttur


Anna Rós Árnadóttir átti mjög sterka innkomu inn í íslensku ljóðasenuna nýlega og hlaut til dæmis Ljóðstaf Jóns úr Vör í byrjun árs fyrir ljóðið Skeljar sem er að finna í fyrstu bók hennar Fyrir vísindin. Um er að ræða konseptverk eða ljóðsögu sem fjallar um unga vísindakonu sem er að sögn „of næm“ fyrir lífið. Í ritdómi mínum um bókina í tímaritinu Són skrifaði ég:


Fyrir vísindin eftir Önnu Rós Árnadóttur er spennandi ljóðabók sem tekst á við ljóðformið á skemmtilegan hátt. Ljóðin eru ekki alveg jafn tilraunakennd og maður hefði mátt búast við af skáldskap sem fjallar um vísindarannsóknir því höfundur heldur sig að mestu leyti við hefðbundna frásagnartækni. En ljóðmál Önnu Rósar á þó óneitanlega hrós skilið fyrir að vera bæði vandað og nákvæmt og minnir lesendur á það sem vísindin eiga sammerkt með ljóðlistinni; þær eru hvort um sig greinar sem glíma við hið sértæka í veröldinni og geta flakkað áreynslulaust á milli stærstu og smæstu eininga tilverunnar.


 

Þetta er svo sannarlega ekki tæmandi listi yfir ljóðabækur ársins 2025 en af öðrum frábærum bókum sem komið hafa út í ár mætti einnig nefna:


Fimm ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl

Þyngsta frumefnið eftir Jón Kalman Stefánsson

Mara kemur í heimsókn eftir Natöshu S.

Félagsland eftir Völu Hauksdóttur

Eignatal eftir Francescu Cricelli

 

ÞSH, 11. desember 2025

 
 
 

Í fyrra skrifaði ég bloggpóst þar sem ég taldi upp fimm mest spennandi skáldsögur jólabókaflóðsins 2024. Í tilefni þess að í dag er dagur íslenskrar tungu er því við hæfi að endurtaka leikinn og hér er því listi yfir þau fimm skáldverk sem ég er spenntastur að lesa þessi jólin. Rétt er að taka það fram að þetta val er fullkomlega hlutdrægt en samt sem áður hávísindalegt, enda byggt á áralöngum bókmenntarannsóknum mínum sem lesandi, gagnrýnandi og höfundur. Bækurnar eru ekki í neinni sérstakri röð.


 

Huldukonan eftir Fríðu Ísberg


Huldukonan er fimmta útgefna bók Fríðu Ísberg og önnur skáldsaga hennar á eftir Merkingu sem kom út 2021 og sló í gegn á heimsvísu. Fríðu er ég búinn að þekkja lengi og hef fylgst með henni þróast úr Reykjavíkurskáldi yfir í stórskáld á heimsmælikvarða. Það eru alltaf mikil tíðindi þegar Fríða vinkona mín sendir frá sér bók og ég efast ekki um að Huldukonan verði nein undantekning á því. Bókin er íslensk örlagasaga sem fjallar um fjölskyldu á Vestfjörðum en káputexti bókarinnar segir svo:


Konurnar í Lohr fjölskyldunni skilja ekki að Sigvaldi þeirra, með alla sína augljósu mannkosti, hafi aldrei gengið út. Ennfremur fá þær ekki skilið þá fráleitu ákvörðun hans að gerast einsetumaður í eyðivík. Dag einn birtist Sigvaldi á dyraþrepi móður sinnar með mánaðargamla stúlku í fanginu og neitar að svara því hver sé móðir barnsins.


Mjög dularfullt og spennandi allt saman! Ég er búinn að lesa fyrstu 40 blaðsíður bókarinnar og strax orðinn heltekinn. Enda ekki laust við að ég tengi smá við þennan Sigvalda, einhleypa og myndarlega einsetumanninn sem enginn í fjölskyldunni skilur af hverju hafi aldrei gengið út. Nei ég segi svona.


 

Lausaletur eftir Þórdísi Helgadóttur


Lausaletur er önnur skáldsaga Þórdísar Helgadóttur sem sendi frá sér Armeló hittífyrra sem var ein áhugaverðasta skáldsaga jólabókaflóðsins 2023 og tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þórdís var með mér og Fríðu í árgangi í ritlistinni og það hefur einnig verið ótrúlegt að fylgjast með árangri hennar sem rithöfundi enda hefur einfaldlega allt sem ég hef lesið eftir hana verið frábært. Samkvæmt káputexta bókarinnar er um einhvers konar hversdagslega heimsendafrásögn að ræða og hljómar hún mjög spennandi:


Dularfullur faraldur herjar á heimsbyggðina og á prentsafninu hefur ekki sést gestur vikum saman. Björn og Írena drekka kaffi, endurraða í safnbúðinni og dytta að vélunum. Innra með þeim bærast langanir og eftirsjá. Þau vita ekki að einmitt þennan dag stendur borgin á heljarþröm, né að innan stundar muni óvæntur gestur birtast í anddyrinu.



Jötunsteinn eftir Andra Snæ Magnason


Andri Snær hefur verið einn af mínum uppáhalds íslensku höfundum síðan ég las Lovestar einhverntíma í menntaskóla. Andri Snær hefur ekki sent frá sér prósaverk síðan hann gaf út smásagnasafnið Sofðu ást mín 2016 og því gaman að fá loksins nýtt skáldverk eftir hann. Bókin er stutt nóvella og það er gaman að sjá loksins íslenska útgefendur gangast við þessu bókmenntaformi enda hefur það verið leiðinlegur ávani bókaútgefenda að rembast við að kalla öll verk sem eru lengri en smásögur skáldsögur. Nú er bara að vona að Andri Snær sendi aftur frá sér skáldsögu í fullri lengd. Á káputexta segir:


Þrjátíu ár eru síðan Andri Snær steig fram á ritvöllinn og skipaði sér í hóp eftirtektarverðustu höfunda landsins. Í þessari kröftugu nóvellu er Jötunsteini kastað inn í heita umræðu um fegurð í borg sem er smám saman að hjúpast svartri klæðningu og gráu þverliggjandi bárujárni. Skörp og ögrandi saga.



Vegur allrar veraldar eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur


Vegur allrar veraldar er framhald skáldsögunnar Hamingja þessa heims sem Sigríður Hagalín sendi frá sér árið 2022. Sú bók var ein áhugaverðasta sögulega skáldsaga sem ég hef lesið í langan tíma og get ég ekki beðið eftir því að lesa framhaldið. Ég var örlítið ósáttur við blálokin á þeirri bók og hlakka til að sjá hvernig Sigríður vinnur áfram með framhaldið og þá sérstaklega þann hluta frásagnarinnar sem gerist í nútímanum. Bókin er eftir sem áður byggð á sögunni um Ólöfu ríku af Skarði, sem er sögð vera efnaðasta kona Íslandssögunnar og var mikill höfðingi á 15. öld. Á káputexta bókarinnar segir:


Haustið 1479 kemur kona norður yfir Kjöl og teymir hest undir gömlum manni. Sveinn döggskór, hirðskáld Ólafar ríku, er kominn í Reynistaðarklaustur til að deyja. En ekki fyrr en hann hefur skrásett sannleikann um atburðina í Rifi, þegar Englendingar drápu Björn Þorleifsson, hirðstjóra konungs og eiginmann Ólafar. Vígið kveikti ófriðarbál.


 

Kómeta eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson


Kómeta er fyrsta skáldsaga Aðalsteins Emils Aðalsteinssonar sem hefur áður sent frá sér nokkur smásagnasöfn. Ég las fyrstu bók Aðalsteins, 500 dagar af regni, fyrir nokkrum árum en það var á ári sem ég las 100 bækur þannig ég man ekki mikið meira eftir henni annað en að mér fannst hún nokkuð góð. Kómeta er söguleg skáldsaga sem gerist á 16. öld (ég hef alltaf verið svolítill sökker fyrir sögulegum skáldsögum) og fjallar meðal annars um „kraftaverk lífsins, stríðið gegn gleymskunni, leitina að ljósi í heimi þar sem dauði, illska og fáfræði ráða oft ríkjum“. Það hljómar eins og nokkuð góð tvenna að hafa með sér í bústaðinn, bækur Sigríðar Hagalín og Aðalsteins Emils. Ég er allavega mjög spenntur að lesa þær báðar. Á káputexta Kómetu segir svo:


Kolnismeyjamessa árið 1536. Aldrað skáld sem dvelur í íslensku klaustri finnur reifabarn við klausturhliðið, bjargar lífi þess og byrjar að rita bréf til þeirra sem dauðinn hefur tekið frá honum. Upphefst þá frásögn sem spannar breitt svið og berst frá Íslandi á tímum siðaskipta, hertöku og skefjalausrar grimmdar til logheitrar Andalúsíu og öngstræta Granadaborgar. Einnig er greint frá afstöðu fugla til dauðans, brottflutningum Mára og sorginni sem situr eins og fleinn í hjartanu.



ÞSH, 16. nóvember 2025.


 
 
 
  • Writer: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
    Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
  • Nov 2, 2025
  • 5 min read
Þórdís Dröfn Andrésdóttir ásamt dómnefndinni, Heiðu Björk Hilmisdóttur, borgarstjóra, og fulltrúa menningarmálaráðuneytisins.
Þórdís Dröfn Andrésdóttir ásamt dómnefndinni, Heiðu Björk Hilmisdóttur, borgarstjóra, og fulltrúa menningarmálaráðuneytisins.

Það var einstaklega gaman að fá að vera formaður dómnefndar Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar annað árið í röð. Verðlaunin voru veitt í Höfða í byrjun þessarar viku og hlaut skáldið Þórdís Dröfn Andrésdóttir þau fyrir bók sína Síðasta sumar lífsins sem kom út sama dag hjá Benedikt bókaútgáfu. Í ár voru rúmlega 100 handrit send inn í keppnina sem er ríflega tvöföldun frá því í fyrra og það var vandasamt verk að velja úr þessum fjölda handrita sem mörg hver voru mjög sterk. Með mér í dómnefnd sátu Brynhildur Björnsdóttir og Soffía Bjarnadóttir og á endanum náðum við saman um Síðasta sumar lífsins. Handrit Þórdísar var eitt það fyrsta sem greip mig af þessum 100 handritum sem bárust í keppnina og það var eins og staðfesting á því að við höfum valið hárrétt þegar ég heyrði ávarp hennar við afhendinguna þar sem hún sagði meðal annars:


Ef bókin hefði ekki hlotið þessi verðlaun er ég viss um að ég hefði ekki gefið hana út, mig vantaði einmitt gott spark í rassinn til þess að taka fyrsta skrefið í átt að því sem mig hefur lengi grunað að mér sé ætlað að gera, að helga lífi mínu bókmenntum og íslenskri tungu.

Síðasta sumar lífsins er ljúfsár ljóðsaga sem segir frá tveimur elskendum sem eru staddir á ónefndri sólríkri eyju. Þórdís segist hafa skrifað ljóðin á tíma í lífi hennar þegar samtíminn hafi virst henni gjörsamlega óskiljanlegur.


Mér fannst eins og heimurinn hefði tekið á sig óþekkjanlega mynd og að miklar breytingar ættu sér stað í einhverrri veröld fyrir utan mig, en gætu einn daginn náð til mín.

Þetta sést bersýnilega í ljóðum Þórdísar sem ná í senn að vera tær og heimspekileg á sama tíma og þau vísa út fyrir sig til þeirra pólitísku átaka sem einkenna líf nútímamannsins. Þórdís endaði ávarp sitt á að segja „bækur eru mýksta en stærsta vald okkar tíma“ sem er eitthvað sem ég er hjartanlega sammála.


Ég hlakka til að sjá hvaða viðtökur Síðasta sumar lífsins fær í jólabókaflóðinu enda er þetta bæði einstök og sumpart óvenjuleg ljóðabók. Hér að neðan má svo lesa ávarpið sem ég flutti á verðlaunaafhendingunni og umsögn dómnefndar um verðlaunaverkið.


ÞSH, 2. nóvember 2025.



Borgarstjóri, verðlaunahafi og góðir gestir,


Við lifum furðulega tíma; börn búa við verri efnahagsaðstæður en foreldrar þeirra gerðu, yngri kynslóðir eru að verða íhaldssamari en þær eldri og réttindin sem félagsleg barátta fyrri alda skilaði okkur hafa eitt af öðru verið dregin í efa. Á sama tíma er jörðin að hlýna, hafið að súrna og átök víða í heimi. Ef finna ætti heiti yfir þá öld sem lifum þá mætti eflaust kalla hana „Öld kvíðans“, eins og samnefnt ljóð W.H. Auden, svo útbreiddur er hann orðinn í okkar heimi, hvort sem átt er við loftslagskvíða, afkomukvíða, stríðskvíða, framtíðarkvíða, eða bara gamla góða kvíðann með greini sem læsir sig í hjartað þegar maður á síst von á því.


Í einu ljóði bókarinnar sem hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár segir „það er orðið of seint að kvíða fyrir framtíðinni / hún er löngu liðin“. Eflaust gætu margir í dag samsinnt þessu. Framtíðin sem okkur var lofað; hin línulega þróun í átt að betri heimi, réttlátara samfélagi og friðsælli tímum reyndist vera tálsýn. Tæknin sem átti að sameina okkur einangraði fólk í sínum eigin bergmálshelli, auðurinn sem átti að gera okkur rík safnaðist á hendur fárra og hugmyndirnar sem áttu að gera okkur frjáls snerust upp í andhverfu sína. Við sjáum óveðursskýin hrannast upp á sjóndeildarhringnum en hér á litlu eyjunni okkar lifum við þó enn við töluverða friðsæld. Það gæti breyst, enda fengum við fregnir af því í síðustu viku að áður óséð rándýr, moskítóflugan, hafi nýlega numið hér land.


Kæru gestir, þið eruð að sjálfssögðu ekki hingað komin til að hlusta á mig predika heldur erum við saman komin til að fagna skáldi og ljóðabók sem í dag hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2025. Handritið sem hlýtur verðlaunin í ár heitir Síðasta sumar lífsins og er eftir Þórdísi Dröfn Andrésdóttur. Bókin kemur út í dag á vegum Benedikts bókaútgáfu og er fyrsta útgefna verk höfundar. Af innganginum gætuð þið haldið að um sé að ræða einkar pólitískt verk en svo er ekki beinlínis. Bókin er augljóslega afurð þess pólitíska veruleika sem hún sprettur úr en líkt og með flest góð listaverk þá vísa ljóðin bæði út fyrir sig til hins almenna og inn fyrir sig til hins sértæka. Síðasta sumar lífsins er tær og tregafull ljóðsaga, bók sem er einföld á yfirborðinu en margræð undir niðri með miklum undirtexta. Í umsögn dómnefndar um vinningshandritið segir:


Sigurhandrit Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar 2025, Síðasta sumar lífsins, er ljóðsaga sem segir frá tveimur elskendum sem eru staddir á ónefndri sólríkri eyju. Handritið er ljúfsár og tregafull lýsing á endalokum í víðum skilningi; endalokum tímans, ástarinnar, lífsins og sumarsins sem hverfur frá birtu yfir í óvissu myrkurs. Hvorki elskendurnir tveir né eyjan sem þeir dvelja á eru nokkru sinni nefnd á nafn svo reynsluheimurinn sem ljóðin lýsa verður almennur á meðan ljóðmyndirnar eru bæði sértækar og óvenjulegar, allt frá þekktu minni þar sem fiskur verður táknmynd Guðs, yfir til kirsuberjasteina í öskubakka.


Umfjöllunarefni ljóðanna í Síðasta sumar lífsins eru þau sömu og skáld hafa fengist við frá örófi alda; ástin, dauðinn, náttúran, svo eitthvað sé nefnt, en höfundur tekst á við þessi þemu af tilfinningalegri dýpt, næmni og frumleika. Um ljóðin blása tregafullir vindar sem vekja upp hugrenningatengsl við nostalgíu, endalok ástar og þá sorg sem fylgir því að fullorðnast og skilja við heim bernskunnar. Einnig finnur lesandinn fyrir mýkt og fegurð í hinu smáa sem opnar á stærri spurningar um tímann sem bæði sleikir og sýkir sárin, eins og segir í textanum. Þótt söguheimur verksins sé afmarkaður þá vísa ljóðin út fyrir sig í átt að stærri veruleika með tilvísunum í náttúruhamfarir, átök og loftslagsbreytingar. Þrátt fyrir að frásögn verksins sé ívið kyrrlát þá liggur í gegnum ljóðin undiralda sorgar og við sjóndeildarhringinn vofir óútskýrð hætta sem ógnar hinu eilífa sumri eyjunnar. Þannig verður verkið að eins konar myndlíkingu fyrir líf nútímamannsins á Vesturlöndum, líf sem þrátt fyrir að hafa aldrei verið þægilegra og friðsælla er á sama tíma markerað af djúpstæðum ótta og óveðursskýjum sem hrannast upp á himni. „Heima er hvar sem er“, segir í ljóðtextanum og hér hvílir söknuður eftir því sem er að líða, ekki því sem var, heldur því sem er að renna okkur úr greipum hér og nú og spurningar vakna um það hvað og hvar er heima. Síðasta sumar lífsins er þannig eins og friðsæl og ljúfsár landslagsmynd af logninu á undan storminum, rétt áður en allt breytist fyrir fullt og allt.


Kæru gestir, þótt það sé fátt til að gleðjast yfir í heimsmálunum þá er margt til að fagna í bókmenntunum. Það er sjaldan sem maður sér höfund stíga fram með svo sterka frumraun og það er svo sannarlega eitthvað til að gleðjast yfir. Fyrir hönd dómnefndar Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar óska ég Þórdísi Dröfn innilega til hamingju með verðlaunin og á sama tíma langar mig að þakka Bókmenntaborginni og Reykjavíkurborg fyrir gott samstarf.

 
 
 
bottom of page