Í tilefni þess að dagur íslenskrar tungu var í gær og veturinn er mættur af fullum krafti langar mig að birta hérna fyrsta kaflann í skáldsögunni minni sem ég er búinn að vera að vinna að núna í nokkur ár. Þessi fyrsti kafli var upphaflega skrifaður sem smásaga/nóvella og hefur verið tilbúinn í meira en fimm ár. Eins og ég lýsti í næstsíðasta bloggi þá hef ég verið að ströggla svolítið með þetta verk en ég er byrjaður að vinna aftur í handritinu og held að það gæti jafnvel verið mér hvatning að birta þennan fyrsta kafla hér og sjá hver viðbrögðin við því (ef einhver) verða. Þið megið allavega endilega láta mig vita hvað ykkur finnst og hvort þið viljið lesa meira. Ég veit ekkert hvort ég er að brjóta eitthvað bókmenntalegt faux pas með því að birta hérna kafla úr verki í vinnslu en ef svo er þá verður bara að hafa það.
ÞSH, 17. nóvember 2025.
Listi yfir ómögulega liti
Colour itself is a degree of darkness
Johann Wolfgang von Goethe
Sem barn gerði hún lista yfir liti. Hvort það var flótti frá félagslegum aðstæðum eða einfaldlega hennar leið til að ná skipulagi á umheiminn er ómögulegt að segja. Listarnir voru einfaldir til að byrja með og endurspegluðu gjarnan hennar nánasta umhverfi; litina á kjólunum hennar (guldoppóttur, lillablár, jólarauður), mismunandi blæbrigði himinsins (sólblár, regngrár, nætursvartur) og klæðninguna á húsunum í götunni (grár, steingrár, bláhvítur). Eftir því sem Glódís eltist urðu listarnir óræðari, hættu að endurspegla ytri veruleikann og færðu sig inn á sífellt huglægari slóðir. Hún gerði lista yfir litina á tilfinningum (gleði var gul, reiði svört, hamingja græn), liti talna (þrír var blá, sjö rauð, átta fjólublá) og liti á ósýnilegum hlutum (vindurinn var silfraður, eilífðin fjólublá, hugsanir svarthvítar).
Væri Glódís spurð hvaðan hún fékk þennan áhuga á litum og hvaðan þessi áráttukennda þörf fyrir að gera lista stafaði, vísaði hún gjarnan í eina af sínum fyrstu minningum úr barnæsku þegar hún fór með pabba sínum á myndlistarsýningu á Kjarvalsstöðum. Hún hefur sennilega ekki verið mikið eldri en fjögurra ára, pabba hennar hafði verið boðið á opnun sýningarinnar og þar sem þetta var helgin hans hafði hann ekki átt annarra kosta völ en að taka hana með sér. Hann hafði skilið Glódísi eftir í leikherberginu með hinum krökkunum á meðan hann fékk sér vínglas og blandaði geði við fólkið. Glódís var rólegt barn og hann hafði búist við því að hún myndi gleyma sér í sínum eigin heimi við að klubba og lita en fjölmenni gerði hana órólega og þegar hann kom til baka var hana hvergi að sjá. Hann þræddi innviði safnsins, alla leið út á Klambratún; svo örvæntingarfullur í leit sinni að sumir héldu að um væri að ræða gjörning á vegum listamannsins. Starfsmaður safnsins fann Glódísi að lokum inni í einu listaverkinu, myrkraklefa sem var innsiglaður með þykkum, svörtum tjöldum.
Hún hafði setið á grúfu upp við vegginn og hlustað á verkið, svo hugfangin að hún hafði hvorki tekið eftir röddunum sem kölluðu nafn hennar né fótunum sem strukust upp við hana. Í miðju klefans heyrðist yfirveguð kvenmannsrödd þylja upp lista af litum, suma þeirra þekkti Glódís en aðra hafði hún aldrei heyrt nefnda áður. Himinblár, eyðimerkurgulur, kúkabrúnn, mosagrænn, beinhvítur... Glódís sat í myrkrinu með hnén uppi við bringu og við hvert orð sem röddin mælti fylltist hugur hennar af myndum og litbrigðum.
Beinhvítur; hún sá fyrir sér hvíta strönd þakta beinum. Mosagrænn; hún stóð við stórt og oddmjótt fjall þakið mosa frá rótum að tindi. Himinblár; hún horfði upp í himinn sem var líka spegilslétt vatn, vatnsflöturinn gáraðist þegar ský sigldi eftir því og hún fylgdist með bylgjunni hverfa út fyrir sjóndeildarhringinn. Það var ekki fyrr en gripið var um axlir Glódísar og áhyggjufull rödd hljómaði í eyrum hennar að hún rankaði við sér, í myrkraklefanum hafði hún gjörsamlega gleymt stað og stund.
Um tíu ára aldur byrjaði Glódís að halda dagbók sem hún tók með sér hvert sem hún fór. Í dagbókina skrifaði hún allt sem á daga hennar dreif, hugsanir sínar, tilfinningar og auðvitað listana. Hún hélt sig að mestu leyti út af fyrir sig en hafði vingast við nokkrar bekkjarsystur sínar sem hún hitti stundum eftir skóla. Þær skiptust á að fara heim til hvorrar annarrar, léku sér í tölvuleikjum og horfðu á raunveruleikaþætti í sjónvarpinu. Glódís, sem vanalega dró skýra línu á milli síns innra og ytra lífs, hafði meira að segja treyst stelpunum fyrir nafni stráksins sem hún var skotin í. Hann hét Sindri og hafði komið í skólann í þriðja bekk. Glódís hafði aldrei talað við hann en reyndi alltaf að sitja eins nálægt honum og hún þorði til að finna lyktina af honum. Flestir strákar á hennar aldri lyktuðu eins og hor og íþróttaskór en Sindri ilmaði eins og hafið.
Einn daginn þegar Glódís settist við borðið sitt eftir frímínútur tók hún eftir því að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Skólataskan hennar lá opin á hliðinni og innihaldið flæddi út á gólf eins og garnir. Glódís heyrði pískur og kæfð hlátrasköll frá hinum enda stofunnar og þegar hún leit þangað sá hún hvar hópur bekkjarfélaga hennar stóð í hnappi í kringum eitt borðið. Athyglin var öll á strák sem sat á stól og las hægt upp úr bók sem hann hélt á. Dagbókinni hennar. Glódís hljóp í áttina að borðinu og þröngvaði sér í gegnum þvöguna þar til hún stóð andspænis stráknum. Hann var stór og luralegur gaur með óeftirminnilegt nafn, eitt af þessum grunnskólahrekkjusvínum sem í krafti kúgunar geta náð undirtökum í heilu bekkjunum þrátt fyrir að skorta bæði vitsmuni og leiðtogahæfileika. Vanalega hélt Glódís sig frá slíkum hrottum en óttinn við að fá sín dýpstu leyndarmál opinberuð gaf henni einhvern nýtilkominn kraft.
„Komdu með hana“, heimtaði hún. Strákurinn glotti bara og sagði blákalt nei.
„Ég er að lesa“, bætti hann við og hélt áfram að fletta blaðsíðunum með aulalegum ánægjusvip.
„Ég vissi ekki að þú kynnir að lesa“, sagði hún en hafði vart sleppt orðinu þegar hún fann fyrir þungu höggi í magann.
„Halt’enni“, sagði hrottinn og einhver færði hendur hennar fyrir aftan bak. Glódís fann reiðina breytast frá dökkbláum himni yfir í svart rigningarský og reyndi að slíta sig lausa. Vinkonur hennar höfðu bæst í hópinn, hún horfði á þær biðjandi en þær litu bara flóttalega undan. Hún fann tár leka niður kinnina og velti því fyrir sér hvort það væri glært eða hvort reiðin hefði litað það grátt.
Hrottinn var aftur farinn að lesa upp úr bókinni og í þetta sinn las hann hátt og snjallt fyrir allan bekkinn með þvoglumæltri röddu:
„14. febrúar. Himinninn var rauður í morgun en breyttist svo í hafbláan. Stundum velti ég því fyrir mér hvort að tilfinningar mínar breytist í takt við veðrið eða hvort það sé öfugt.“
Hrottinn tók kúnstpásu á meðan krakkarnir hlógu. Glódís vissi hvað kæmi næst og hún þráði ekkert heitar en að geta liðast upp í loftið eins og hvít gufa en það var ekkert sem hún gat gert til að forða sér. Hrottinn hélt áfram:
„Ég er skotin í strák. Hann heitir Sindri og augun hans eru á litinn eins og himinninn þegar það er nýhætt að rigna.“
Lætin í hópnum fóru stigvaxandi, hún fann hungrið magnast og hláturinn fór frá prakkaralega grænum yfir í illkvittnislega gulan. Hún reyndi að losa sig en fangavörðurinn herti bara takið.
„Hann sat við hliðina á mér í mötuneytinu í gær og ég fann lyktina af honum, hún er blá og sölt, eins og hafið á sólríkum sumardegi.“
Krakkarnir ærðust af hlátri en Glódís tók eftir því að einn þeirra hló ekki. Sindri leit til hennar skömmustulegur á svip, eins og þetta væri allt saman honum að kenna. Augun í honum voru á litinn eins og himinninn í hellidembu. Glódís starði niður í gólf og óskaði þess að hún myndi breytast í poll. Svartan poll á biksvörtu malbiki.
Sindri hætti í bekknum stuttu síðar. Sagt var að foreldrar hans hefðu skilið og hann flutt með pabba sínum til Noregs. Það breytti engu, Glódís hafði aldrei þorað að tala við hann. Eftir atvikið með dagbókina hafði hún dregið sig út úr öllu félagslífi. Vinkonurnar höfðu stöku sinnum spurt eftir henni en hún fann alltaf einhverja afsökun til að hitta þær ekki og að lokum hættu þær alveg að hafa samband. Eftir það eyddi hún flestum frístundum í herberginu sínu, þar sem hún skrifaði sögur og ljóð í dagbókina sína og hélt áfram með listana sem urðu sífellt einrænni.
Í kringum fermingu fóru listarnir að taka á sig form ljóða. Þeir hættu að vera upptalning og fóru þess í stað að einblína á stöku liti og allar mögulegar túlkanir og blæbrigði þeirra. Helsti afrakstur þessa tímabils var ljóðabálkur sem bar titilinn Rauður:
horfi inní mig
finn þig streyma
um völundarhús æða minna
tel niður dagana
að komu þinni
brýtur sér leið út
blóðmáni á sturtubotninn
Það var um þetta leyti sem Glódís komst að því að litir eru ekki til í raunheimum. Allavega ekki í hlutlægum skilningi. Henni leið eins og þetta væri stærsta uppgötvun lífs hennar fram til þessa. Hún var stödd í náttúrufræði og þau voru að læra um ljós þegar kennarinn varpaði spurningu yfir bekkinn:
„Getur einhver sagt mér hvað litir eru?“
Bekkurinn þagði en Glódís sperrti eyrun.
„Allt sem augað sér er ljós. Ljósið sem við sjáum inniheldur rafsegulbylgjur á ákveðnu tíðnibili. Litirnir koma til vegna samspils á milli tíðni og bylgjulengdar ljóssins og því hvernig augun og heilinn skynja það.“
Hún leit út um gluggann á kennslustofunni, það var bjartur og kaldur vordagur með gluggaveðri sem breytti hversdagslegu útsýninu í fegursta landslagsmálverk. Grasi vaxin hæðin fyrir neðan skólann og Esjan í fjarskanum birtust í svo skýrum dráttum að þau virtust hálfóraunveruleg. Jafnvel þó hún gerði sér grein fyrir því að það væri ímyndun þá fannst henni eins og hún gæti séð orð kennarans holdgerast í öllu fyrir utan. Hún þyrfti bara að píra augun og þá gæti hún hreinlega séð bylgjurnar í hverjum sólargeisla og hverju strái. Um kvöldið lá Glódís andvaka í rúminu sínu og minntist orða kennarans:
„Heimurinn í kringum okkur er fullur af rafsegulbylgjum, allt frá röntgengeislum með bylgjulengd sem telur aðeins nokkra nanómetra yfir í útvarpsbylgjur með allt upp í 100 kílómetra bylgjulengd. En sýnilegar bylgjur, ljósið sem við sjáum, eru bara örlítill hluti rafsegulrófsins.“
Hún hugsaði um allt ljósið sem hún gat ekki séð, alla litina sem henni voru huldir. Hún reyndi að ímynda sér heiminn handan skynjunarinnar, veruleikann eins og hann er í raun og sanni, en það eina sem hún gat hugsað um voru takmarkanir hennar eigin skilningarvita. Í kjölfar þessarar uppgötvunar byrjaði Glódís að ímynda sér og búa til sína eigin liti. Eitt ljóða hennar frá þessum tíma bar titilinn Listi yfir ómögulega liti:
liturinn á myrkrinu
sem býr
innra með þér
liturinn á draumum
risafuranna í Kaliforníu
fornari og hægari en tíminn
liturinn á svartholinu
í miðju Vetrarbrautarinnar
óendanleikinn í tóminu
liturinn á augnablikinu
þegar þú veist
að þú ert hætt að elska
*
Glódís eignaðist sinn fyrsta trúnaðarvin í menntaskóla. Kolbrún hafði byrjað ári á eftir í MH en þrátt fyrir aldursmuninn þá smullu þær saman eins og tveir legókubbar. Samnemendur þeirra og kennarar ráku margir upp stór augu þegar þær byrjuðu að hanga saman því að utan frá voru þær eins og svart og hvítt, eða kannski réttara sagt svarthvítt og regboginn. Glódís; lágvaxin og smágerð, með sitt síða ljósrauða hár, iðulega klædd í litríkar blússur og síðar kápur sem hún verslaði á netinu. Kolbrún; hávaxin og bráðþroska, með stuttklippt hár sem hún litaði stundum neongrænt eða -blátt, gjarnan klædd í víðar hettupeysur og þröngar, rifnar gallabuxur. Saman fullkomnuðu þær hvor aðra og Glódísi leið eins og Kolbrún væri fyrsta manneskjan sem skildi hana. Hún var líka fyrsta manneskjan sem Glódís treysti nógu mikið til að sýna listana sína eftir atvikið með dagbókina. Í frímínútum fóru þær saman út að reykja og í götum fóru þær heim til Kolbrúnar í Hamrahlíðina þar sem þær lásu fyrir hvor aðra ljóð og horfðu á gamlar listrænar kvikmyndir.
Ásthildur, mamma Kolbrúnar, var blind og mæðgurnar bjuggu saman í íbúð á vegum Blindrafélagsins. Í fyrsta skiptið sem Glódís fór í heimsókn til mæðgnanna hafði Ásthildur boðið hana velkomna og spurt hana til nafns. Hún sagði nafnið sitt hátt og snjallt og passaði að beina orðum sínum til Ásthildar sem hafði bara hlegið og sagt:
„Ég er blind elskan, ekki heyrnarlaus.“
Síðan þá hafði Glódís alltaf verið svolítið feimin við hana og stundum leið henni eins og Ásthildur sæi hreinlega í gegnum sig, jafnvel þótt hún gæti ekkert séð. Herbergi Kolbrúnar lyktaði eins og blanda af fornbókabúð og reykelsisverslun. Á veggjunum héngu gömul hljómsveitaplaköt með böndum sem Glódís hafði aldrei heyrt minnst á; Fleet Foxes, Arcade Fire og Boygenius. Eitt sinn þegar þær lágu saman í mosagrænum flauelssófa Kolbrúnar og hlustuðu á tónlist barst talið að strákum. Kolbrún spurði Glódísi hvort hún væri skotin í einhverjum en hún þagði bara. Það voru mörg ár síðan hún hafði hugsað um Sindra en á þessu augnabliki fylltist hugur hennar af djúpblárri mýkt. Liturinn af feimnum og sorgmæddum augum sem horfðu á hana frá hinum enda skólastofunnar.
„Kommon, finnst þér enginn sætur í skólanum?“
Glódís hrökk upp úr blámanum og horfði í augu Kolbrúnar, þau voru á litinn eins og mold og smágerðar freknurnar í kringum nefið voru eins og sandkorn sem lekið höfðu niður úr augun hennar.
„Ég meika ekki stráka. Þeir eru allir eitthvað svo ... grænir.“
„Grænir?“ spurði Kolbrún.
„Æ, þú veist. Klístraðir, eins og hor,“ svaraði hún og Kolbrún hló.
„Ertu þá meira fyrir stelpur?“
Glódís fann roða færast yfir í kinnarnar, hún hristi höfuðið og leit undan. Í sannleika sagt hafði hún aldrei velt því fyrir sér hvort hún væri hrifin af stelpum en eitthvað við spurninguna fékk hana til að fara hjá sér. Auk þess voru augu Kolbrúnar eins og bráðið súkkulaði og hún kunni ekki við að horfa í þau of lengi. Kolbrún rauf þögnina og hækkaði í græjunum.
„Ég elska þetta lag!“
Grípandi fiðlustef með taktfastri bassalínu fyllti herbergið og mjúk karlmannsrödd hóf upp raustina:
„I’d rather dance with you, than talk with you...“
Einn daginn fór Glódís með Kolbrúnu í heimsókn til ömmu hennar Jóku sem las bæði í lófa og spil og gat að eigin sögn séð „inn í þennan heim, þann næsta og allt þar á milli.“ Amma Kolbrúnar hét Járngerður en var alltaf kölluð Jóka. Hún bjó í gömlu timburhúsi í grjótaþorpinu sem hafði staðið meira og minna óbreytt áratugum saman. Þegar þær stigu inn um dyragættina mætti þeim þung blanda af sígarettureyk og brenndu kaffi og Glódísi leið hálfpartinn eins og hún hefði stigið í gegnum tímavél. Dauf ljósapera lýsti upp viðarklædda veggi sem þaktir voru málverkum með einkennilegum formum og fígúrum í skærum pastellitum. Glódís gleymdi sér við eitt málverkanna og starði inn í marglitan spíral, myndin snerist fyrir augum hennar og bak við spíralinn tók hún að greina útlínur glottandi andlits sem hún áttaði sig ekki á hvort væri vinalegt eða illkvittið. Hún hrökk upp úr leiðslunni þegar Kolbrún mælti nafn hennar og gekk á eftir henni inn í stofuna. Jóka sat í ruggustól klædd í fjólubláan flauelsslopp, með rúllur í hárinu og sígarettu í annarri hendinni.
„Hæ, amma mín.“
Kolbrún gekk yfir til Jóku og kyssti hana á kinnina.
„Sæl, elskan. Ertu með gest með þér?“
Kolbrún kynnti Glódísi og Jóka bauð stelpunum upp á kaffi. Glódís drakk ekki kaffi en þáði samt boðið og Kolbrún fór fram í eldhús til að hella upp á. Jóka pírði augun á hana í nokkur löng augnablik áður en hún tók til máls.
„Komdu aðeins nær svo ég geti séð þig betur.“
Hún fikraði sig nær Jóku sem greip utan um hönd hennar. Kræklóttir fingurnir voru sterkari en þeir litu út fyrir að vera og köld, strekkt húðin minnti á snákaskinn.
„Þú ert með furðulegustu áru sem ég hef nokkurn tíma séð, stelpa.“
Glódís vissi ekki hvernig hún átti að svara þessu svo hún sagði bara það fyrsta sem kom upp í hugann.
„Hvernig er hún á litinn?“
Jóka tók langan smók af sígarettunni áður en hún svaraði.
„Það er nefnilega málið, ég hef aldrei séð þennan lit áður.“
Það var hádegishlé og þær Kolbrún sátu hlið við hlið í sófa í Norðurkjallara sem lyktaði eins og sviti og súrt jógúrt. Þær voru að horfa á myndband í síma Kolbrúnar af mótmælum sem höfðu nýlega átt sér stað í Osló. Myndbandið, sem var búið að ganga eins og eldur í sinu um netið, sýndi hvar þrjú ungmenni stilltu sér upp fyrir framan aðaldyrnar á norska þinginu, helltu yfir sig heilum bensínbrúsa og drógu því næst fram zippokveikjara sem þau notuðu til að kveikja í sér. Í síðustu sekúndum myndbandsins sást hvernig skelfing greip um sig meðal viðstaddra og skerandi rödd heyrðist kalla eftir slökkvitæki á norsku áður en skjárinn varð svartur.
Glódís fann hvernig munnur hennar var orðinn skraufþurr og hendur hennar titruðu eins og ósvarað símtal.
„Afhverju voru þau að þessu?“
Kolbrún yppti öxlum.
„Loftslagsmótmæli eða eitthvað.“
Glódís leit upp og mætti augum slánalegs og krullhærðs stráks með langleitt andlit sem stóð nokkrum metrum álengdar.
„Voruði að horfa á myndbandið? Þetta er svo fökkað dæmi, maður.“
Hann hafði greinilega verið að fylgjast með þeim og brosti aulalega til Glódísar.
„Hæ, Nonni.“
Kolbrún stóð upp, togaði hettupeysuna sína niður og gekk til stráksins. Þau skiptust á nokkrum setningum í hálfum hljóðum og að endingu lét hann Kolbrúnu hafa lítinn pakka sem hún stakk samstundis inn á sig.
„Hvað var þetta?“ spurði Glódís þegar hún settist aftur niður.
Kolbrún seildist inn á kápuna sína og dró fram upprúllaðan plastpoka fullan af einhvers konar þurrkuðum jurtum.
„Bara smá náttúrulyf,“ svaraði hún og beit í vörina.
Sólin var hátt á lofti þegar þær beygðu inn hjá Rauðhólum. Kolbrún lagði deilibílnum við hliðina á rútu sem hópur asískra túrista streymdi út úr. Einn þeirra, eldri maður með gleraugu og hvítan hatt, stoppaði fyrir framan bílinn, brosti til þeirra og smellti mynd af þeim. Kolbrún sendi honum fingurinn en maðurinn hélt bara áfram að brosa og veifaði til þeirra áður en hann steig upp í rútuna.
„Fokking túristar.“
Kolbrún hristi hausinn og dró fram plastpokann.
„Reykjum við þetta?“ spurði Glódís og Kolbrún skellti upp úr.
„Nei, þetta eru sveppir! Maður borðar þá.“
Glódís fann roða færast yfir í kinnarnar.
„Ég vissi það alveg,“ muldraði hún og blés lokki frá enninu.
„Hey, þú þarft ekkert að gera þetta frekar en þú vilt.“
Glódís leit í augu Kolbrúnar og svo á plastpokann sem lá í kjöltu hennar. Hún hrifsaði pokann til sín, stakk hendinni ofan í hann og áður en Kolbrún náði að andmæla var hún búin að gleypa heila lúku. Það brakaði í sveppunum þegar hún tuggði og munnur hennar fylltist af beisku og þurru jurtabragði, eins og hún væri að tyggja mold.
„Róleg, þú þarft ekki að klára þetta!“
Kolbrún greip pokann aftur og hellti handfylli af sveppum í lófann á sér.
„Góða ferð“, sagði hún og skellti þeim upp í sig.
Þær fundu lúpínubeð nokkra vegalengd frá fjölmennustu túristahópunum. Breiddu úr úlpunum sínum ofan á jörðina og lögðust niður. Sólin var hátt á lofti og geislarnir teiknuðu gylltar útlínur á rauða klettana.
„Hvenær byrjum við að finna fyrir þessu?“
Kolbrún brosti og greip utan um hönd hennar.
„Ekki hafa áhyggjur, það kemur bara þegar það kemur.“
Glódís brosti til baka, hún hafði ekki tekið eftir því fyrr en nú að augun í Kolbrúnu voru ekki bara brún heldur greypt með litlum skærrauðum rákum. Rákirnar dönsuðu yfir lithimnuna eins og litlir ormar eða saffranþræðir.
„Kolbrún, það er eitthvað í augunum þínum.“
Kolbrún svaraði ekki en sjónhimnan víkkaði. Glódís færði sig nær andliti hennar, fann hlýjuna streyma á móti sér og allt í einu langaði hana ekkert frekar en að sökkva inn í þessa hlýju. Varir Kolbrúnar brögðuðust eins og fuglasöngur. Hún leyfði sér að sökkva, vafði sér inn í hlýjuna eins og í rautt flauel. Henni leið eins og kossinn hefði varað í eilífð en sennilega liðu bara nokkur augnablik þar til hún heyrði Kolbrúnu hvísla:
„Ekki.“
En Glódís var ekki tilbúin að hætta, hún vildi ekki slíta sig frá fuglasöngnum og hlýjunni og það var ekki fyrr en Kolbrún ýtti henni frá sér að hún áttaði sig.
„Ég sagði ekki! Díses.“
Kolbrún hristi höfuðið.
„Ég er ekki hrifin af stelpum og svo ertu líka besta vinkona mín.“
Augu Kolbrúnar voru orðin eins og stirðnaður trjábolur og enn á ný vildi Glódís fátt heitar en að geta horfið ofan í jörðina.
„Þú þarft ekkert að skammast þín. Án djóks, þetta er ekkert mál, ég fíla bara ekki stelpur. Ekki svona.“
Kolbrún brosti hughreystandi en vorkunn var það síðasta sem Glódís vildi á þessu augnabliki. Hún fann fyrir ótalmörgum spurningum og tilfinningum í kollinum en það sem hún vildi mest af öllu var einfaldlega að komast burt.
„Ég verð að fara.“
Glódís stóð upp og gekk í burtu. Hún heyrði Kolbrúnu kalla eitthvað á eftir sér en var þegar byrjuð að hlaupa.
Hún hrasaði í mölinni. Stóð upp og dustaði rykið af hnjánum sem skörtuðu nú sitthvorum rauðum hálfmánanum. Hún vissi ekki hversu langur tími var liðinn síðan hún tók sveppina. Kolbrún hafði reynt að fylgja henni fyrst um sinn en gefist upp þegar það var augljóst að hún vildi vera ein. Hún horfði í kringum sig, rauðbrúnn jarðvegurinn glitraði, hún pírði augun og sá að glitrið stafaði frá litlum gullmolum sem lágu á víð og dreif í moldinni. Hún vissi að þetta væru dropar sólargeisla og áttaði sig samstundis á því að þetta hafði alltaf verið svona. Hún greip handfylli af jarðvegi, moldin var rök og mjúk, lófar hennar fullir af rauðgylltri birtu. Hún sleppti moldinni og dustaði af höndunum. Rákirnar í lófum hennar voru uppþornaðir árfarvegir. Af hverju hafði hún ekki tekið eftir þessu fyrr? Heimurinn í kringum hana var ein stór fjársjóðskista og þegar hún leit upp blasti uppsprettan við. Glóði efst á himninum, demantur úr eldi, umkringdur kórónu af fljótandi gulli sem flæddi um himininn í stríðum straumum áður en þeir þéttust í dropa af fíngerðu gullregni. Hún horfði í demantinn, í miðju hans snerist hringiða, uppsprettan sjálf. Eftir því sem hún horfði lengur greindu augu hennar sífellt fleiri liti og form sem streymdu yfir himinhvolfið. Hún hafði aldrei séð svona marga liti, svo margir að ógjörningur var að greina þá í sundur. Hún starði í hringiðuna og eftir nokkur augnablik fór henni að svíða. Litlir hvítir punktar tóku að birtast fyrir augum hennar, fyrst um sinn á stærð við sandkorn en svo stækkuðu þeir og tóku að dansa yfir sjónhimnuna eins og lirfur í kjöti.
Það var þá sem Glódís áttaði sig á því að sólin er ekki gul, heldur hvít. Sólin er allir litir. En hún gat ekki litið undan. Punktarnir héldu áfram að stækka svo nú var sjónsvið hennar nánast þakið hvítum blettum. Hún heyrði einhvern kalla nafn sitt úr fjarska en hún svaraði ekki heldur hélt bara áfram að stara í brennandi ljósið.