top of page
_DSF5753.jpg
_DSF5783.jpg

Stöðufundur

Samsýning og bókverk, Gerðarsafn, 2022

Stöðufundur er verkefni sem veitir innsýn inn í hugarheim og væntingar tíu listamanna sem eru í fararbroddi sinnar kynslóðar. Listamennirnir samanstanda af fimm myndlistarmönnum og fimm rithöfundum sem eru ólíkir innbyrðis en eiga það sameiginlegt að hafa í verkum sínum fjallað um samtímann og stöðu ungs fólks í nútímasamfélagi. Stöðufundur er þó hvorki samtímaspegill né sögulegt yfirlit heldur kannski frekar eins og GIF-skrá sem spilast aftur og aftur og aftur til eilífðarnóns.

 

Sérstaða sýningarinnar liggur fremur í fókus hennar á persónulega upplifun listamannanna á sinni eigin fortíð, nútíð og framtíð og listrænni miðlun þess. Þá veitir samþætting listgreinanna tveggja, myndlistar og ritlistar, einstakt tækifæri til að eiga í samtali á þverfaglegum grundvelli og skapar listrænan skurðpunkt sem sýningin hverfist um.

 

Stöðufundur fór fram í Gerðarsafni 2. apríl – 29. maí 2022. Samhliða opnuninni var gefin út bókverk í takmörkuðu upplagi með verkum rithöfundanna og listamannanna ásamt inngangstextum frá sýningarstjórum. Bókverkið var hannað af Helgu Dögg Ólafsdóttur og gefið út í 300 handnúmeruðum eintökum sem innihalda sérstakt prentverk eftir Guðlaugu Míu Eyþórsdóttur.

 

„Neysluhyggja, mörk efniskenndar og líkamleika, yfirvofandi loftslagsvá, eftirsjá, þrá okkar eftir viðurkenningu og tengingu við aðra, auk andlegrar vellíðunar eru ákveðin leiðarstef bókarinnar og sýningarinnar sem fylgir henni heim í hlað.“

-Úr texta Kristínu Aðalsteinsdóttur, sýningarstjóra.

 

Sýningarstjórar: Kristína Aðalsteinsdóttir og Þorvaldur S. Helgason.

Myndlistarmenn: Auður Ómarsdóttir, Björk Viggósdóttir, Fritz Hendrik IV, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Páll Haukur.

Rithöfundar: Bergur Ebbi, Fríða Ísberg, Halldór Armand, Jakub Stachowiak, Kristín Eiríksdóttir.

Sjá myndir af sýningu og bókverki hér að neðan.

bottom of page