top of page
  • Writer: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
    Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
  • Nov 3, 2024
  • 4 min read


Jólabókaflóðið 2024 fer heldur rólega af stað, enda þurfa skáldin nú að keppast um athygli við hamfarastjórnmál og kosningar bæði hérlendis og Vestanhafs. Það stefnir hins vegar í einstaklega spennandi bókajól þetta árið og því langaði mig að tileinka þessu bloggi þeim fimm skáldsögum sem ég er hvað spenntastur fyrir að lesa. Þar sem ég er gagnrýnandi er rétt að taka það fram að þetta val er algjörlega byggt á mínum eigin persónulegu væntingum og er fullkomlega hlutdrægt. Flestum þessara höfunda er ég raunar það kunnugur að ég myndi veigra mér við að skrifa gagnrýni um bækur þeirra enda stendur það ekki til á þessum tímapunkti.



Friðsemd eftir Brynju Hjálmsdóttur



Friðsemd er fyrsta skáldsaga Brynju Hjálmsdóttur sem hefur vakið mikla athygli fyrir ljóðabækur sínar, Okfruman og Kona lítur við. Brynja er góð vinkona mín frá því í ritlist í Háskólanum og ég hef fengið að fylgjast með henni springa út sem höfundur á síðustu árum.


Á káputexta segir:


Friðsemd hefur alla tíð verið með nefið ofan í erótískum spennusögum, sem Fatima, besta vinkona hennar, framleiðir á færibandi. Hennar eigið hversdagslíf er allt annað en spennandi. Þegar besta vinkonan deyr af grunsamlegum slysförum heldur Friðsemd í háskaför og áður en hún veit af er líf hennar orðið ískyggilega reyfarakennt.


Hvílíkur húkkur! Ég hef ekki lesið bókina en heyrði Brynju lesa upp úr henni á útgáfuhófinu þar sem ég tryggði mér að sjálfsögðu eintak. Brynja er náttúrlega eitt fyndnasta og frumlegasta skáld Íslands þannig ég held að lesendur megi búast við stórfurðulegri og bráðskemmtilegri bók. Í það minnsta hlakka ég mikið til að lesa Friðsemd.



Gólem eftir Steinar Braga



Steinar Bragi er geitin í íslenskum furðusögum, það þarf ekkert að ræða frekar. Enda er hann mögulega eini íslenski höfundurinn sem skrifar hreinræktaðan hrylling og vísindaskáldskap og fær samt að sitja við sama borð og fagurbókmenntahöfundar. Síðustu tvær bækur Steinars, Truflunin og Dáin heimsveldi voru gjörsamlega truflaðar (pun intended) og mesta furða að enginn kvikmyndaleikstjóri sé búinn að pikka þær upp til aðlögunar því þær eru með því allra besta sci-fi sem komið hefur út á íslenskri tungu.


Ég veit ekkert meira um Gólem annað en það sem stendur á káputexta en það er líka alveg nóg fyrir mig:


Grípandi saga úr myrkum framtíðarheimi. Ung kona vinnur fyrir valdamikið fyrirtæki við að lengja líf ríkasta fólks heims. Dag einn er tilvist fyrirtækisins ógnað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.



Breiðþotur eftir Tómas Ævar Ólafsson



Tómas Ævar er annar skáldvinur minn úr ritlistinni sem hefur nú sent frá sér sína fyrstu skáldsögu sem ber titilinn Breiðþotur en hann hefur áður gefið út ljóðabókina Umframframleiðsla. Tómas og Brynja héldu sameiginlegt útgáfuhóf á Loft Hostel í síðustu viku sem var einstaklega skemmtilegt en þótt þau séu bæði með svipaðan bakgrunn er ljóst að bækur þeirra eru eins ólíkar og hugsast getur.


Á káputexta segir um Breiðþotur:


Gagnaleki skekur heimsbyggðina. Þeir sem lýsa yfir ábyrgð krefjast róttækra aðgerða í loftlagsmálum. Áhrifa lekans gætir hjá krökkunum í Þorpinu. Verið er að undirbúa Þorpið undir næsta gagnaleka, þann sem mun afhjúpa öll leyndarmálin. Breiðþotur er grípandi saga um vináttu og söknuð, tæknihyggju og uppgang öfgaafla.


Ég heyrði Tómas lesa upp úr bókinni á útgáfunni og var mjög hrifinn. Breiðþotur virðist vera útpæld skáldsaga stútfull af hugmyndafræði og pælingum um samtímann. Enn fremur virðist hún hafa einhvern alþjóðlegan tón sem finnst aðeins hjá höfundum sem eru vel lesnir í því sem er að gerast í erlendum nútímaskáldskap og minnti mig á Pedro Gunnlaug Garcia, annan frábæran íslenskan höfund.



Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur



Eva Rún Snorradóttir er einn af áhugaverðustu listamönnum sinnar kynslóðar. Hún starfar jöfnum höndum sem sviðslistamaður og rithöfundur og hefur ítrekað sent frá sér verk sem ögra viðteknum venjum og eru í senn ískyggilega næm og óborganlega fyndin. Eldri konur virðist ætla að tikka í bæði þessi box en ég heyrði Evu Rún lesa upp úr handriti bókarinnar á ljóðakvöldi Queer Situations, bókmenntahátíðar sem hún og Halla Þórlaug skipulögðu. Ég held að ég geti með sanni sagt að þessi upplestur var einn sá fyndnasti sem ég hef nokkurn tíma heyrt á bókmenntaviðburði, enda var allur salurinn grenjandi af hlátri undir lok hans. Ég er því einstaklega spenntur að lesa Eldri konur og er viss um að bókin muni koma mér á óvart.

Á káputexta bókarinnar segir:


Ung kona gefur rapport af þráhyggju sinni fyrir eldri konum og rekur líf sitt frá barnæsku til fullorðinsára gegnum frásagnir af konum sem hafa heltekið hana. Eldri konur er röntgenmynd af ástandi. Við kynnumst konunni með ólíkum brotum af sögu hennar, uppvexti í flóknum heimilisaðstæðum, mismunandi vinnustöðum, vináttu, ástum, sigrum og ósigrum.



Mikilvægt rusl eftir Halldór Armand



Halldór Armand hefur heldur betur stimplað sig inn í bókmenntalífið sem einn sterkasti skáldsagna- og pistlahöfundur þúsaldarkynslóðarinnar. Mikilvægt rusl er hans fimmta skáldsaga og er fyrsta bók Halldórs sem er sjálfútgefin, áhugavert útspil sem verður spennandi að sjá hvernig gengur. Síðasta bók Halldórs, skáldsagan Bróðir, kom út 2020 og er að mínu mati ein besta íslenska skáldsaga þessa áratugar. Ég er því einkar spenntur að lesa Mikilvægt rusl þótt ljóst sé að hún er töluvert frábrugðin síðustu bókum höfundar. Ég heyrði Halldór lesa upp úr Mikilvægt rusl á útgáfuhófinu sem haldið var í Góða hirðinum í síðasta mánuði og af því sem ég heyrði er bókin bæði spennandi og húmorísk. Hún gerist árið 2008 í hruninu sem mér finnst mjög spennandi því núna er loksins liðinn nógu langur tími til að hægt sé að skrifa sannfærandi sögulegar skáldsögur um þetta tímabil og Halldór hefur sýnt það með fyrri bókum sínum að hann er einstaklega lunkinn í því að lýsa tíðaranda.


Á káputexta bókarinnar segir:


Daginn sem forsætisráðherra Íslands biður Guð að blessa þjóðina finnur öskukallinn Gómur Barðdal afskorið mannsnef í ruslatunnu við glæsihýsi í Þingholtunum. Skömmu síðar er frændi hans, seinheppna skáldið Geir Norðann, ráðinn sem ljóðakennari inn á þetta sama heimili. Hver á þetta nef? Hvernig endaði það í ruslatunnu?



Þar hafið þið það! Þær fimm skáldsögur sem ég hlakka hvað mest til að lesa í Jólabókaflóðinu 2024. Vissulega hefði ég getað talið upp margar fleiri en ég ákvað að halda við mig fimm og hver veit nema ég geri sambærilegan lista yfir ljóðabækur. Við sjáumst svo bara í næsta útgáfuhófi.


ÞSH, 3. nóvember 2024.

 
 
 
  • Writer: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
    Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
  • Oct 25, 2024
  • 9 min read

„Aldrei hefir verið samin svo ómerkileg bók, að hún hafi ekki kostað meira andlegt erfiði en stjórn heillar togaraútgerðar í tíu ár. Og aldrei hefir verið gefin út svo góð bók á Íslandi, að ritlaun höfundarins hafi numið meiru en einum þrítugusta hluta af árskaupi lélegs útgerðarstjóra.“

 

-Þórbergur Þórðarson, Bréf til Láru

 


Ég ætla að viðurkenna svolítið fyrir ykkur. Mér finnst leiðinlegt að skrifa. Ef ég ætti raunar að svara því á dýpra plani hvað mér finnst virkilega um skrif þá yrði ég að viðurkenna að það að skrifa hefur stundum reynst mér svo sálardrepandi að ég hef sennilega eytt meiri pening í sálfræðimeðferð til að vinna bug á þeim andlega skaða sem ritlist sem valdið mér heldur en ég hef grætt á öllum mínum skrifum samanlagt. Ég veit að ég er að taka full sterkt til orða en ég er samt tilbúinn að veðja andvirði eins mánaðar ritlauna að eitthvert ykkar sem les þetta hefur upplifað það sama. Sem færir okkur einmitt að umfjöllunarefni þessa pistils: Blessuðum ritlaununum.


Ég lofaði því í fyrirsögninni að útskýra af hverju ég sótti ekki um listamannalaun þetta árið en til þess að gera það þarf ég fyrst aðeins að fara yfir persónulega reynslu mína af ritlaunum. Ég vil byrja á því að árétta að allt sem hér kemur fram er eingöngu byggt á minni eigin reynslu af þessu umsóknarferli og eflaust eru margir aðrir listamenn sem hafa miklu betri eða verri sögur að segja. Allavega. Ég sótti um listamannalaun í launasjóð rithöfunda árlega á tímabilinu 2017-2023 og á þessu tímabili fékk ég aðeins einu sinni úthlutun; þriggja mánaða ritlaun árið 2019 sem ég nýtti til skrifa á tveimur verkum. Það gerir 12,5% árangurshlutfall, en umsóknir mínar voru alls 8 á þessum 7 árum. Nú vil ég ekki lesa of mikið í störf úthlutunarnefndarinnar, enda er algjörlega ómögulegt að vita hvað henni gengur fyrir þar eð nefndin áskilur sér þann rétt að rökstyðja aldrei val sitt, hvort sem umsókn er samþykkt eða hafnað. Umsækjandi getur þannig hvorki vitað hvað það er sem hann er að gera rétt né rangt. Guð má vita að ég er enginn sérfræðingur í að skrifa styrksumsóknir en ég hef þó gert þær ansi margar, bæði fyrir sjálfan mig og aðra sem hluta af vinnunni minni, og hafa margar þessara umsókna (til annarra sjóða en launasjóðs) verið samþykktar. Ég tel mig því vera alveg temmilega flinkan í að skrifa umsóknir auk þess sem ég hef reglulega fengið reynslumikið fólk, allt frá ritstjórum yfir í reynda kollega, til að lesa yfir umsóknir mínar til listamannalauna og setið fræðslufundi um umsóknargerð hjá Rithöfundasambandinu. Ég lá raunar svo lengi yfir síðustu umsókn minni um ritlaun að ég hélt að hún væri algjörlega skotheld en allt kom fyrir ekki. Í ljósi þessa tel ég mig geta fullyrt að það eru ekki gæði umsókna minna sem hafa orðið þeim að falli heldur einhver önnur ástæða.


Kannski finnst úthlutunarnefndinni ég einfaldlega ekki vera nógu duglegur höfundur, ég hef jú aðeins gefið út tvær bækur á þessu sjö ára tímabili og báðar þeirra voru ljóðabækur, sem eins og allir vita teljast varla með sem „alvöru“ bækur í íslensku bókmenntahírarkíunni. Kannski finnst nefndinni ég heldur ekki hafa unnið til nógu margra verðlauna, þessi eina úthlutun sem ég fékk 2019 kom jú beint í kjölfar þess að ég hlaut Nýræktarstyrk fyrir handritið að annarri ljóðabók minni Gangverk sem bendir sterklega til þess að nefndinni hafi þótt ég efnilegur þá. Ef til vill hefur skortur á sambærilegum verðlaunum undanfarin ár verið nefndinni varnagli. Eða kannski er nefndin að taka mið af fyrri umsóknum mínum og telur máske litlar líkur á því að ég muni uppfylla loforð mín í núverandi umsókn í ljósi þess hversu fá af umsóttum verkum mínum hafa komið út. En hversu líklegt er aftur á móti að maður klári og gefi út verk þegar engin eru launin? Kannski er líklegasta skýringin þó sú að þetta hafi í raun ekkert með mig og gæði mín sem listamanns eða umsækjanda að gera. Kannski voru einfaldlega bara aðrir með betri hugmyndir og betri umsóknir. Punkturinn er allavega sá að á meðan nefndin þegir um úrskurði sína þá er algjörlega ómögulegt að spekúlera um ásetning hennar.


Það finnst engum rithöfundi skemmtilegt að skrifa, ég held að allir geti verið sammála um að það að skrifa er kvöl og pína!

Skáldsagan endalausa

Sem færir okkur að stöðunni í dag. Í tæp tvö ár er ég búinn að vera að vinna að skáldsögu sem ég hef tvisvar sótt um listamannalaun fyrir. Vinnutitilinn er Listi yfir ómögulega liti og hún byggir á smásögu sem ég skrifaði 2018-19 og lengdi svo yfir í skáldsögu sem ég skrifaði fyrsta uppkastið að sumarið 2023 í rithöfundaresidensíu í Košice, Slóvakíu. Mér þykir mjög vænt um þessa sögu og mig langar mjög mikið til að klára hana en ég hef enga hugmynd um hvenær mér gefst tími til þess eða hvort mér muni takast það yfir höfuð. Bókin er núna á sirka þriðja uppkasti og ég veit nákvæmlega hvað ég þarf að gera til þess að klára hana en ég fæ mig einfaldlega ekki til þess eða gef mér ekki tíma í það. Fyrsta uppkast bókarinnar var skrifað á tímabili þegar ég vann sem frílans textamaður eftir að ég missti vinnuna á Fréttablaðinu. Í janúar á þessu ári byrjaði ég svo aftur í fullri vinnu við sviðslistadeild Listaháskólans, sem ég nota bene dýrka og finnst raunar miklu skemmtilegri en nokkur skrifvinna sem ég hef sinnt. Með fram þeirri vinnu, tónlistarnámi í FÍH, kórstörfum, aukavinnu sem gagnrýnandi, líkamsrækt, félagslífi og almennu stússi þá gefst mér augljóslega ekki mikill tími til að sinna skáldsagnaskrifum. Þegar ég sest niður til þess að vinna í skáldsögunni, sem er í mesta lagi nokkra klukkutíma á viku, þá upplifi ég raunar svo mikla pressu að NÚNA ÞURFI ÉG SKO AÐ SKRIFA að ég vil frekar nýta þann litla tíma sem ég hef aflögu til að skrifa eitthvað skemmtilegt eins og ljóð eða blogg. Til að enda þessar pælingar mínar þá ætla ég mér sannarlega að klára þessa bók einn daginn, en hvort hún kemur út eftir 1 ár eða 10 er ómögulegt að segja. Raunar vona ég innilega að það verði sem fyrst því bókin er spáskáldsaga (e. speculative fiction) sem gerist í náinni framtíð og það væri því frekar vandræðalegt ef árið þegar bókin á að gerast myndi renna upp áður en hún loks kemur út. Ég er auk þess búinn að taka loforð af sjálfum mér að ég ætla a) ekki að gefa út aðra ljóðabók og b) ekki að sækja aftur um listamannalaun fyrr en þessi blessaða skáldsaga er tilbúin til útgáfu. Þið þurfið því að bíða eitthvað eftir því að lesa þessa bók, en á meðan getið þið lesið þetta blogg og svo eru ýmsir ritdómar eftir mig að fara að koma út í haust. Kannski mun ég birta fyrsta kaflann úr skáldsögunni hér á blogginu ef áhugi er fyrir hendi, það gæti jafnvel verið mér smá hvatning. Hann er nefnilega upphaflega smásaga sem hefur verið tilbúin síðan 2019. Hver veit.


Sporvagn og stúlkur í miðbæ Košice.

Að hata eða elska

Ég sagði í upphafi þessa pistil að mér fyndist leiðinlegt að skrifa og mig langar rifja upp eitt skondið atvik sem varpar ljósi á það. Sumarið 2023 ferðaðist ég mjög mikið en auk þess að dvelja í mánuð í Košice dvaldi ég tvær vikur í Berlín og sótti þar námskeið í skapandi skrifum hjá UdK háskólanum (Universität der Künste Berlin) sem var einkar skemmtilegt og fróðlegt. Námskeiðið var kennt af tveimur ungum konum sem heita Annika Haas og Anna M. Szaflarski og bar heitið Floating Texts: Unlearning to Write sem mér fannst einkar viðeigandi á þessu tímabili þegar ég var í mikilli sjálfsskoðun hvað varðar sjálfan mig og mín skrif. Anna þessi er kanadískur rithöfundur og mjög skemmtileg týpa og í einum tímanum ræddum við þátttakendur og leiðbeinendur saman um afstöðu okkar til skrifa. Ég var í einhverjum mótþróa og sagði eitthvað eins og „Það finnst engum rithöfundi skemmtilegt að skrifa, ég held að allir geti verið sammála um að það að skrifa er kvöl og pína!“ Sem Anna svaraði þá: „Þetta er nú ekki alveg rétt hjá þér, Þorvaldur. Ég hef fylgst með þér skrifa hérna á þessu námskeiði og ég sé alveg að þér finnst það gaman.“ Til að vitna í eitt fremsta skáld þúsaldarkynslóðarinnar, Auðunn Blöndal, þá var ég svo sannarlega tekinn þarna. Ég þurfti allavega að éta hattinn minn og viðurkenna fyrir Önnu, Anniku og samnemendum mínum að mér fyndist kannski ekkert svo slæmt að skrifa. Þátttaka mín á þessu námskeiði benti allavega sterklega til þess að mér fyndist það að minnsta kosti bærilegt og í besta falli bara nokkuð skemmtilegt.

 

En hvernig stendur þá á því að ég hef svo oft koxað á skrifum? Hvers vegna hef ég bugast á svo mörgum handritum að umsóknarsíðan mín hjá Rannís minnir á spjaldskrá bókasafnsins í Alexandríu? Við því er ekkert einfalt svar en kvíði og frestunarárátta, eru þar ofarlega á lista. Eins og flestir, ef ekki allir, rithöfundar hef ég gengið í gegnum mörg tímabil í mínum skrifum. Það hafa komið tímabil þar sem ég elska að skrifa, þar sem orðin flæða eins og vatn úr krananum, og það hafa komið tímabil þar sem ég hata að skrifa, þar sem orðin þarf að kreista út eins og pissið á manni með bólginn blöðruhálskirtil. Það er einfaldlega ströggl að skrifa, eins og tilvitnunin í Bréf til Láru Þórbergs hér að ofan sýnir glöggt. En kannski þarf maður samt ekki að taka þessu öllu svona persónulega. Ein besta lexían sem ég lærði á mínum tveimur árum sem blaðamaður var nefnilega sú að það skiptir ekki endilega svo miklu máli hvernig manni líður með skrifin sín, svo lengi sem maður bara sinnir þeim. Skrif eru hvorki merkilegri né ómerkilegri en hver önnur vinna og vinna er ekkert endilega eitthvað sem maður þarf að elska, maður þarf bara að framkvæmda hana (þótt það vissulega hjálpi að finnast hún skemmtileg). Kannski mætti endurorða þetta svo að ég elska að skrifa en hata að endurskrifa.

 

Ég hef líka svolítið verið að ströggla við það að kalla mig rithöfund í ljósi þess að það er bara einn angi af því sem ég geri. Ég er nokkuð viss um að ég muni aldrei verða einhliða rithöfundur í fullu starfi, svona maður sem gefur út bók á 1-2 ára fresti, er á ritlaunum stærstan hluta ársins og eyðir bróðurparti vinnudagsins einn á kontórnum. Ég held að ég sé hreinlega ekki gerður fyrir svoleiðis vinnu. Ég hef allavega fundið það á þessum tæpa áratug sem ég hef verið starfandi í menningargeiranum að ég þrífst langbest í vinnu þar sem ég fæ að sinna alls konar ólíkum verkefnum og vinna með alls konar ólíku fólki að sameiginlegu markmiði. Stundum finnst mér gaman að loka mig af í nokkrar vikur/mánuði og vinna ákaft í einrúmi en það er algjör undantekning. Af þessu má ef til vill ráða að starf rithöfundarins, sem snýst í miklum mæli um það að loka sig af og eyða löngum tíma með sínum eigin hugsunum, henti mér ekkert sérstaklega vel. En rithöfundar eru auðvitað eins ólíkir og þeir eru margir og ég þekki marga rithöfunda sem eru miklar félagsverur þannig kannski er þetta bara spurning um að finna sitt jafnvægi. Mig hefur heldur aldrei langað til þess að festa mig við eina grein eða einn miðil, ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ólíkum listgreinum og samspili þeirra sem sést bæði á því hvaða leið ég fór í menntun og hvaða störf ég hef unnið. Ég er með BA í sviðshöfundanámi frá LHÍ, MA í ritlist frá HÍ og stunda núna söngnám við Tónlistarskóla FÍH með fram vinnu. Síðustu 5-6 ár hef ég svo starfað til skiptis við bókmenntir, blaðamennsku, myndlist, tónlist og sviðslistir. Ég held að ég þrífist langbest sem einhvers konar listrænt kamelljón (eins tilgerðarlega og það hljómar) sem fær að vinna þvert á ólíkar greinar við bæði skipulagningu og sköpun. Sem er einmitt það sem ég er að gera núna! Svo er það hitt sem má varla nefna fyrir framan fólkið sem talar sýknt og heilagt um að „láta drauma sína rætast“, það er nefnilega ekkert sem segir að maður þurfi að vera rithöfundur. Það má líka bara alveg vera ljóðskáld, gagnrýnandi eða fúskaður bloggari. Það er engin skrifandi maður skuldugur að gefa út skáldsögu, jafnvel þótt íslenski jólabókamarkaðurinn haldi áfram að predika ofríki skáldsögunnar. Ég hef alltaf fyrst og fremst litið á mig sem ljóðskáld og hugga mig oft við það að mörg bestu skáld bókmenntasögunnar skrifuðu aldrei eina einustu skáldsögu. Svo var ég líka að enda við að lesa mjög forvitnilegt blogg þar sem skrifandi fólki er eindregið ráðið frá því að gefa út bækur. En kannski eru þetta bara allt afsakanir til þess gerðar að fresta því sem ég veit að ég þarf og vil gera, sem er að klára helvítis skáldsöguna!

 

Til að ljúka þessari langloku og svara spurningunni í fyrirsögn endanlega þá sótti ég ekki um listamannalaun 2024 einfaldlega af því mig langaði ekki til þess og af því ég hef ekki þörf fyrir þau (það væri einfaldlega launalækkun fyrir mig að fara yfir á ritlaun, þrátt fyrir að laun mín hjá LHÍ séu ekki beint há). En til að svara spurningunni um hvort ég sé fyrst og fremst rithöfundur, skáld, verkefnastjóri eða bara almennur fúskari, þarf ég aðeins lengri umhugsunarfrest.

 

ÞSH, 25. október 2024.

 
 
 
  • Writer: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
    Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
  • Oct 18, 2024
  • 4 min read

Verðlaunahafinn ásamt fulltrúa borgarstjóra og dómnefnd. F.v. Védís Ragnheiðardóttir, Pawel Bartoszek, Margrét Lóa Jónsdóttir, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason og Þórdís Gísladóttir. Mynd/Reykjavíkurborg

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar voru veitt í gær í Ásmundarsafni við Sigtún. Ég fékk það skemmtilega hlutverk að sitja í dómnefndinni í ár sem formaður og ég vona að ég sé ekki að brjóta einhvern trúnað með því að segja að ég er alveg einstaklega ánægður með handritið sem við völdum, Pólstjarnan fylgir okkur heim eftir Margréti Lóu Jónsdóttur. Það var auk þess mjög skemmtileg og forvitnileg reynsla að sitja í dómnefnd svona stórra verðlauna en ég hafði bara einu sinni áður setið í dómnefnd fyrir ljóðaverðlaun sem voru töluvert minni í sniðum. Bók Margrétar er einstaklega vel unnin, ljóðin eru lýrísk, pólitísk og persónuleg en á sama tíma lyfta þau sér einhvern veginn upp yfir allt dægurþras og prívatlíf. Að því leytinu til minna þau að sumu leyti á það besta úr pólskri ljóðlist eftirstríðsáranna, skáld eins og Ewu Lipsku og Adam Zagajewski (sem ég hef áður fjallað um hér). Það sem heillaði mig líka sérstaklega við bókina er hinn sterki þráður vonar sem liggur í gegnum hana og ögrar þeim harmi sem er viðfangsefni ljóðanna. Í ávarpi sínu sagði Margrét Lóa meðal annars:


,,Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.“ Þessi orð skáldsins eiga vel við á okkar dögum. „Við lifum á uggvænlegum tímum þar sem vonin er bráðnauðsynlegt afl. Vonin er veraldarundur og það er ljóðið líka. Ljóðið er rödd okkar innra sjálfs. Söngur í einrúmi í trylltri en um leið fagurri veröld, svo ég vísi nú aftur í Reykjavíkurskáldið okkar góða, Tómas Guðmundsson. Í mínum huga er ljóðið rödd sem á að fá að hljóma.“


Ég er náttúrlega alls ekki hlutlaus en ég spái þessari bók góðu gengi í flóðinu og á komandi árum. Við afhendinguna var ég beðinn um að flytja ávarp fyrir hönd dómnefndar sem mig langar að birta hér ásamt einni opnu úr verðlaunabókinni.


ÞSH, 18. október 2024.





Kæri verðlaunahafi og góðir gestir,


Við lifum í síbreytilegum og óvissum heimi. Ég held að við sem erum saman komin hér getum öll tekið undir það, þrátt fyrir að vera á ólíkum aldri og frá ólíkum bakgrunni. Heimurinn sem við fæddumst inn í er eins og fjarlæg minning, bæði bókstaflega og hugmyndafræðilega, og í ölduróti samtímans virðist jafnvel stundum sem veröldin sem við vöknum til á morgnana sé allt önnur en veröldin sem við leggjumst til svefns í á kvöldin.


Í slíkum veruleika er gífurleg þörf á einhvers konar festu, en hún er ekki auðfáanleg. Ein af festunum í mínu lífi og eflaust margra annarra Íslendinga er ljóðlistin. Ljóðið breytist hægt, ef það breytist yfir höfuð, í það minnsta er hlutverk þess í dag nánast það sama og það hefur verið frá upphafi bókmenntasögunnar. Hlutverk ljóðsins er, meðal annars, að segja sögur, að vera manneskjunni leiðarvísir í síbreytilegum heimi og að vera vitnisburður um líf hennar andspænis örlögunum.


Önnur festa, sem er kannski ekki svo fyrirferðamikil í lífi okkar nútímafólks en hefur verið það í gegnum mannkynssöguna, er Pólstjarnan; leiðarstjarnan sem í aldanna rás hefur vísað fólki veginn um ókunnar slóðir. Komum aftur að henni síðar.


Við erum hér saman komin til þess að fagna skáldi og ljóðabók sem í dag hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að gegna hlutverki formanns dómnefndar og var þar af leiðandi hluti af teyminu sem valdi vinningshandritið. Hvað mig sjálfan varðar var valið sáraeinfalt, ég vissi það raunar strax og ég las handritið að þar væri á ferðinni sigurvegarinn. Vissulega var öllum steinum velt við á leiðinni og hin handritin rædd í þaula en fyrir mitt leiti var engin raunveruleg samkeppni. Vinningshandrit Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar árið 2024 er Pólstjarnan fylgir okkur heim eftir Margréti Lóu Jónsdóttur. Margrét Lóa er auðvitað enginn nýgræðingur í ljóðlist og á að baki ritferil sem spannar hátt í fjóra áratugi og fjölda bóka. Það er því löngu orðið tímabært að hún hljóti viðurkenningu fyrir list sína og einkar skemmtilegt að hún skuli hljóta hana í nafnlausri samkeppni sem sýnir og sannar að skáldskapur hennar stendur fullkomlega á eigin fótum sem sönn og tær ljóðlist. Fyrir hönd dómnefndar óska ég Margréti Lóu innilega til hamingju með verðlaunin og mig langar að enda þetta á því að lesa umsögn dómnefndar um vinningshandritið:


Ljóðmælandi situr á útikaffihúsi og hugsar um lífið og tilveruna. Minningar leita á hana; minningar um látna ástvini, ljúfsár augnablik úr æsku og ferðalög á fjarlægar slóðir. Úr þessum minningum verður til ljóðrænt vitundarstreymi sem er í senn kjarnyrt og margrætt. Pólstjarnan fylgir okkur heim er vandað og vel uppbyggt handrit með skýrum boga. Um er að ræða samfellda frásögn sem skiptist í mörg stutt, ónefnd ljóð sem saman mynda samhljóm er minnir á sinfóníu eða óhlutbundið kvikmyndaverk. Ljóðmálið er tært og grípandi og í gegnum handritið má finna magnaðar ljóðmyndir sem sitja lengi í huga lesanda að lestri loknum. Höfundur fetar fimlega einstigið á milli hins pólitíska og persónulega, án þess þó að vera prédikandi og þrátt fyrir að hér sé ort um flóttafólk, stríð og dauða þá liggur í gegnum handritið þráður vonar sem er ekki bara viðeigandi fyrir þá tíma sem við lifum, heldur ef til vill nauðsynlegur. Táknmynd handritsins er Pólstjarnan, leiðarstjarnan sem í aldanna rás hefur vísað mannkyninu veginn um ókunn höf og lönd. Á sama hátt og Pólstjarnan vísaði sæförum veginn á öldum áður, vísar hún lesendum veginn í gegnum handrit sem við fyrstu sýn virðist ólínulegt en er þó jafn víðáttumikið og kunnuglegt og stjörnuhimininn. Pólstjarnan fylgir okkur heim er magnaður ljóðaseiður um lífið, dauðann, tímann innra með okkur og veraldarundrið vonina.



Úr Pólstjarnan fylgir okkur heim eftir Margréti Lóu Jónsdóttur.

 
 
 
bottom of page