top of page
Search

Skáldaskúffan #10 – Erum við á vonda staðnum?

  • Writer: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
    Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
  • May 1
  • 6 min read


Það er kafli úr Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason sem hefur ásótt mig allt frá því ég las hann fyrst. Ég las bókina fram og aftur fyrir nokkrum árum þegar ég gerði útvarpsþætti byggða á henni fyrir Rás 1 en ég man ekki eftir því að hafa komið þessu tiltekna broti fyrir í þáttunum. Kaflinn ber heitið „Kannski verður allt í lagi“ og í þessu broti veltir höfundur fyrir sér forgengileika náttúrunnar, því hversu hratt landslag getur breyst og hversu fljótt mannfólkið er að aðlagast breyttum aðstæðum:

 

Fólk lifir í sínum heimi, það venst sínu umhverfi og getur ekki eytt tilfinningum í söknuð vegna alls sem hefur breyst. Við höfum hæfileika til að sjá fegurð í forgengileika og eyðileggingu, heillumst af rústum og fornminjum. Það er til fólk sem býr í eyðimörkum og finnur fegurð og dýpt í auðninni, rétt eins og fólk getur búið á ísbreiðum heimskautanna þar sem tré eða blóm hafa varla sést.

(Andri Snær Magnason, Um tímann og vatnið, bls. 251)

 

Um tímann og vatnið kom út haustið 2019 og síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar, bókstaflega. Síðustu ár annars áratugar 21. aldarinnar voru ef til vill niðurlagið á því friðar- og jafnréttisskeiði sem fólk af minni kynslóð, þúsaldarkynslóðinni, ólst upp við. Árið 2020 kom Covid og setti allt úr skorðum, 2021 náðu Talibanar aftur völdum í Afganistan, 2022 hófst innrás Rússa í Úkraínu, 2023 þjóðarmorð Ísraels á Gaza og 2024 var Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna í annað sinn (til að nefna aðeins nokkrar alþjóðlegar hörmungar). Það er kannski ekki skrýtið að Z-kynslóðin sem allir bundu svo miklar vonir við sé svo ringluð; farin að ganga um vopnuð hnífum og búin að taka karlrembu og kynjahlutverk feðraveldisins aftur upp á sína arma, kannski átti hún aldrei séns í ölduróti samtímans. Ég vil ekki hljóma bölsýnn en það er tilfinning margra af minni kynslóð að vonin sem við ólumst upp við sé að mörgu leyti dáin. Það er ekki þar með sagt að þúsaldarkynslóðin hafi verið laus við öldurót samtímans, við erum jú kynslóðin sem horfði á nokkurþúsund manns deyja í beinni útsendingu þegar við vorum í grunnskóla og kynslóðin sem hlustaði á forsætisráðherra biðja Guð að blessa Ísland þegar við vorum í mennta- og háskóla. En það var óneitanlega meiri von í loftinu á árunum í kjölfar þessara hörmunga heldur en nú (ef þið eruð ósammála mér megið þið endilega láta í ykkur heyra). Sviðslistamaðurinn Birnir Jón Sigurðsson orðaði þessa tilfinningu fullkomlega í Örvæntingarpistlaröð sinni „Hvað varð um gæskuna?“ sem flutt var í Víðsjá á dögunum:


Ef menningin á öðrum áratug þessarar aldar var Obama, #metoo, Angela Merkel, veganismi, Gréta Thunberg, réttlætisriddarar og Parísarsáttmálinn, þá er menningin nú á þriðja áratugnum kjötát, incels, trad wives, ræktin og fasismi.

(Birnir Jón Sigurðsson, „Hvað varð um gæskuna?“, Víðsjá, RÚV, 2025)


Á síðustu fimm árum hefur átt sér stað ein allsherjar pólitísk og menningarleg tískusveifla, svokallað „vibe shift“, og tilfinningarnar sem ráða ríkjum í vestrænni menningu núorðið eru öðrum fremur ringulreið, afstæðishyggja, íhaldssemi, grimmd og einstrengingsleg einstaklingshyggja. Það er ekki lengur í tísku að vera meðvitaður eða láta sig hluti varða, við eigum að vera köld, sterk og einsleit. Ungt fólk tekur gagnrýnislaust upp íhaldssamar skoðanir fyrri kynslóða og fullorðið fólk virðist hafa meiri áhyggjur af þeim sem líta öðruvísi út en þau, svo sem innflytjendum og trans fólki, heldur en aðförum að lýðræðinu og endurkomu fasismans. Það sem virtist dystópískt og fjarlægt fyrir aðeins örfáum árum er orðið daglegt brauð og stundum þegar maður opnar fréttamiðlana blasa við svo furðulegar fyrirsagnir að það er eins og maður sé staddur í einhverju myrku Grimms-ævintýri: Vondi kóngurinn vill sölsa undir sig Grænland, úlfarnir eru komnir aftur á kreik í Evrópu og Rauði Krossinn ráðleggur fólki að búa sig undir heimsendi. Það er kannski ekki nema von að maður spyrji sig eins og Eleanor í sjónvarpsþáttunum The Good Place (ekki lesa lengra ef þið viljið forðast spoiler) þegar hún fattar loks að handanheimurinn sem hún er stödd í er ekki sá sem hún hélt að hann væri: „Við erum á vonda staðnum, ekki satt?“ The Good Place, fyrir þau sem ekki vita, eru heimspekilegir gamanþættir sem voru sýndir á árunum 2016-2020 og segja frá Eleanor Shellstrop (leikin af Kristen Bell), konu sem vaknar upp í handanheimi sem við fyrstu sýn virðist vera himnaríki en er þegar nánar er að gáð eins konar helvíti sérhannað til þess að blekkja þau sem í því dvelja.


En hvað gerir maður þegar maður finnur sig á vonda staðnum? Hvernig bregst maður við? Þetta er spurning sem öllum er hollt að spyrja sig, jafnvel þótt að allt sé ókei; við lendum jú öll einhvern tímann á slæmum stað í lífinu og þá er betra að vera undir það búinn. En eru hlutirnir eitthvað sérstaklega slæmir í nútímanum? Margir vilja meina að við höfum aldrei haft það betra en akkúrat núna; aldrei lifað lengur og aldrei átt meiri pening. Þessi uggur og ótti sem einkennir samtímann er þó ekki úr lausu lofti gripinn, víða um Vesturlönd keppast alræðisöfl við að brjóta á bak lýðræði og mannréttindi og svo er það auðvitað blessuð loftslagsváin sem vofir yfir öllu eins og hvítgenglarnir í Krúnuleikunum en gleymist stundum algjörlega í samfélagsumræðunni. Síðasta ár var, líkt og árin níu þar á undan, það heitasta síðan mælingar hófust og jafnframt það fyrsta til að brjóta 1,5 gráðu múrinn svo ljóst er að Parísarsáttmálinn sem undirritaður var fyrir áratug stendur ekki styrkum fótum. En hvað skal gera andspænis öllu þessu vonleysi og hvernig skal berjast á móti bölsýni í veröld sem hefur yfirgefið vonina?


Ég finn það á sjálfum mér að ég hef minni og minni þolinmæði fyrir neikvæðum fréttum, ég lít ósjálfrátt í hina áttina eða hætti að hlusta þegar loftslagshamfarir og þjóðarmorð ber á góma. Sumt er einfaldlega of stórt og of sárt til að hægt sé að horfast beint í augu við það. Þessi frestunarárátta gengur þó ekki til langs tíma og á endanum þurfum við að horfast í augu við hlutina hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Leitum aftur í bók Andra Snæs, Um tímann og vatnið:

 

Þar sem jökulinn bar við loft ríkin fegurðin enn. Heimurinn þarf ekki að verða ljótur þótt hann breytist, þótt okkur fjölgi eða fækki. Ég finn að ef ég stilli hugann þá verður allt í lagi að lokum, jafnvel þótt allt fari á versta veg. Ég fer hikandi með hugann á þennan stað, finn hvað það er stutt í níhilismann; skeytingarleysið. Það er dáleiðandi, allt verður afstætt. Hugsunin er seiðandi eins og sírenusöngur, freistandi að sleppa tökunum, alheimurinn er milljarða ljósára að stærð og við erum bara lítill neisti í ármilljarða samhengi, í raun ekkert nema enn eitt öskulagið í jarðsögunni.

(Andri Snær Magnason, Um tímann og vatnið, bls. 257.)

 

Ef til vill er ákveðin uppgjöf fólgin í því að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt. Sleppa bara tökunum og leyfa lífinu að ganga veg allrar veraldar. Hjól heimsins halda jú áfram að snúast hvort sem við streitumst gegn þeim eður ei. Það eru ábyggilega sumir sem finnst þetta viðhorf vera heigulsháttur. En mig langar að færa rök fyrir því með því benda á nokkuð sem hefur reynst mér haldreipi í ólgusjó lífsins og bjargræði gegn vonleysinu. Það er nefnilega raunverulegur lækningarmáttur fólginn í því að leita fegurðar í heimi sem upphefur ljótleikann, mýktar í heimi sem upphefur grimmdina, árvekni í heimi sem upphefur sinnuleysið. Eða eins og Sigurður Pálsson orti í einum af sínum síðustu ljóðum: „Hvað sem hver segir er fegurðin ekki skraut heldur kjarni lífsins“. Eitt stærsta verkefni skálda og rithöfunda í kjölfar heimsstyrjaldanna tveggja sem skóku heimsbyggðina á síðustu öld var að finna aftur fegurðina í heimi sem hafði brotið hana rækilega á bak aftur með hörmungum stríðsins og helfararinnar. Þetta sést greinilega í verkum pólskra skálda á borð við Czesław Miłosz, Tadeusz Różewicz og Adam Zagajewski. Ljóð Różewicz, „Hirðið ekki um okkur“, fangar fullkomlega þá aftengingu sem þau er lifðu þessa hamfaratíma hljóta að hafa upplifað við það sem verður eingöngu lýst sem gengisfall mennskunnar:

 

Gleymið okkur

gleymið okkar kynslóð

lifið eins og menn

gleymið okkur

 

við öfunduðum jurtir og steina

jafnvel hunda


(þýðing Einar Bragi og Jón Óskar, úr Erlend nútímaljóð, 1958)

 

Sem mótvægi við þessu má svo lesa ljóð Adams Zagajewski, „Reyndu að lofa hinn afskræmda heim“, sem varð heimsfrægt er það birtist í fyrsta tölublaði New Yorker tímaritsins í kjölfar árásarinnar á tvíburaturnana 11. september 2001.

 

Þú verður að lofa hinn afskræmda heim.

Þú fylgdist með glæstum snekkjum og skipum;

eitt þeirra átti langa ferð framundan,

á meðan óminni saltsins beið hinna.

Þú hefur séð veglausa ferð flóttamannanna,

þú hefur heyrt glaðværan söng böðlanna.

Þú ættir að lofa hinn afskræmda heim.


(þýðing Þorvaldur S. Helgason, birtist á Starafugli 2017)

 

Vonandi þurfa ljóðskáld nútímans ekki að takast á við jafn stórt verkefni og ljóðskáld eftirstríðsáranna þurftu að gera fyrir rúmum 80 árum. En verkefnið er svo sem alltaf það sama, vandamálin eru bara mis aðkallandi. Ég held að hlutverk okkar sem lifum þessa umbrotatíma sé að bera fegurðinni, sannleikanum og voninni vitni. Ekki þrátt fyrir grimmd og vonleysi heimsins einmitt vegna þess að „við höfum hæfileika til að sjá fegurð í forgengileika og eyðileggingu“, eins og Andri Snær orðar það. Heimurinn mun alltaf innihalda bæði grimmd og kærleika og á endanum er það undir sjálfum okkur komið hverju við forgangsröðum og hvað við upphefjum. Í samfélagi sem upphefur grimmd og ljótleika þá er það að bera fegurðinni vitni ekki bara róttæk afstaða heldur raunverulegt móteitur.

 

ÞSH, 1. maí 2025.

 
 
 

Comments


bottom of page