Ég hef ekkert farið í grafgötur með það að Adam Zagajewski (1945-2021) er mitt uppáhalds ljóðskáld. Ég birti til að mynda grein í Tímariti Máls og Menningar haustið 2022 undir yfirskriftinni „Ljóðin sem breyttu lífi mínu“ þar sem ég fjallaði meðal annars um ljóðið Eldingu eftir Zagajewski en það ljóð á sérstakan stað í hjarta mínu (og raunar á líkama mínum því ég er með upphafslínu þess tattúveraða á hægri handlegg minn). En allavega, í sumar þá las ég nýjustu og síðustu ljóðabók Zagajewskis sem kom út á pólsku tveimur árum áður en hann lést 2021. Bókin heitir True Life og kom út í enskri þýðingu Clare Cavanagh hjá Farrar, Straus and Giroux 2024. Síðasta bók hans þar á undan, Asymmetry, var fremur óspennandi og því var ég pínu stressaður fyrir því að lesa þessa síðustu bók meistarans. Ég hefði hins vegar ekki þurft að hafa neinar áhyggjur því bókin er alveg stórgóð. Þótt hún sé vissulega fremur lágstemmd og hversdagsleg þá er Zagajewski mjög beittur og kjarnyrtur í ljóðum sínum í True Life og í þeim má einnig finna ýmsar hliðstæður við fyrri verk skáldsins. Ég ákvað því að snara tveimur ljóðum úr bókinni yfir á íslensku og langar að birta þau hér í þessu fyrsta skáldabloggi mínu. Fyrra ljóðið, Upplýsing (Enlightenment á ensku), finnst mér vera eins konar framhald eða eftirmáli við ljóðið Elding sem skrifað var nokkrum áratugum fyrr en íslensk þýðing af því birtist í þýðingasafni Jóns Kalmans Stefánssonar Undir vernd stjarna sem kom út 2013 hjá Bjarti og voru mín fyrstu kynni af verkum Zagajewskis. Elding hefst á upphafslínunni „Við skildum fátt í lífinu og þráðum þekkingu“ sem kallast á við línuna „... ég held að ég hafi leitað þekkingar / (án uppgjafar)“ í Upplýsingu. Eins klisjulega og það hljómar þá hefur þessi upphafslína Eldingar orðið að eins konar lífsmottói mínu og einhvern veginn þreytist ég aldrei á þessu ljóði. En ég ætla ekki að endurtaka mig og ef einhver eru áhugasöm um þetta get ég sent þeim TMM greinina mína. Hér að neðan má lesa ljóðin tvö sem ég þýddi og svo læt ég fylgja með ljósrit af ljóðinu Elding í meistaralegri þýðingu Jóns Kalmans.
ÞSH, 30. september 2024.
Fjöll
Þegar nóttin nálgast
eru fjöllin hrein og tær
– eins og heimspekinemi
fyrir próf.
Skýin fylgja myrkvaðri sólinni
til skuggsæls enda götunnar
og koma sér hæglega á brott,
en enginn grætur.
Horfðu, horfðu af áfergju,
þegar húmar að,
horfðu óseðjandi,
horfðu óttalaus.
Upplýsing
Ljóðlistin er bernska siðmenningarinnar,
sögðu heimspekingar upplýsingarinnar,
það sama sögðu prófessorarnir okkar í Póllandi, langir og mjóir
eins og upphrópunarmerki sem hefur glatað trúnni.
Ég vissi ekki hverju ég átti að svara þá,
ég var ennþá fremur óþroskaður,
en ég held að ég hafi leitað þekkingar
(án uppgjafar) í ljóðum
og einnig ákveðinnar hófstilltrar brjálsemi.
Ég uppgötvaði, löngu síðar, stundargleði
og einsemdarinnar myrku sátt.
Comments