top of page
Search

Skáldaskúffan #11 – Haustið er manískasti tími ársins

  • Writer: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
    Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
  • 13 hours ago
  • 3 min read
ree

Ég hef alltaf verið mikill haustmaður. Þau ykkar sem þekkja mig kemur þetta ekki á óvart. Það sést bæði í því hvernig ég klæði og hvernig týpa ég er. Samt tók það mig langan tíma að sætta mig við þetta og viðurkenna að haustið er minn uppáhalds árstími. Kannski hefur það eitthvað með það að gera að ég er fæddur að hausti til (6. nóvember nánar til tekið) en kannski er það líka bara blanda af alls konar tilviljanakenndum ástæðum og mótandi upplifunum. Allavega, ég hef ekki skrifað neitt hérna í marga, marga mánuði og fannst því tilvalið að þessi fyrsti bloggpóstur eftir sumarfrí yrði um haustið.


Það eru margar ástæður fyrir því að ég dýrka haustið umfram aðra mánuði. Teljum upp topp fimm:


  1. Haustið er fallegasti tími ársins – Þegar daginn tekur að stytta en birtan er ennþá nógu mikil svo að við fáum þessi löngu og fallegu ljósaskipti þar sem það verður allt gulli slegið. Sem leiðir okkur að næsta punkti.

  2. Haustlitirnir – Þetta útskýrir sig sjálft. Haustlaufin, guð minn góður. Haustlitirnir eru bara einfaldlega fallegasta litapalletta sem til er.

  3. Haustið er tími framkvæmda – Á sama tíma og náttúran fer að undirbúa sinn vetrardvala þá vöknum við mannfólkið úr sumardvalanum, hristum af okkur slenið og mætum aftur til vinnu/skóla. Haustið er tími framkvæmda, tími til að byrja á nýjum verkefnum, vera duglegur og leggja drög að komandi ári.

  4. Haustið er tími íhugunar – Haustið er líka tími til að hafa það kósý, kúra sig undir teppi með bolla af heitu súkkulaði og horfa á góða mynd. (Mér finnst haustið reyndar skiptast í tvö tímabil, september fram í miðjan október er tími framkvæmda en miður október fram undir lok nóvember er tími íhugunar). Þess vegna getum við sagt:

  5. Haustið er manískasti tími ársins – Haustið er sá tími þar sem mig langar að gera allt og ekkert. Hlaupa maraþon innan um haustlitina, keyra upp í bústað í ljósaskiptunum og öskursyngja Bruce Springsteen alla leiðina, hitta vini mína í bröns sem leiðir í happy hour sem leiðir í dinner sem leiðir í djamm langt fram á nótt, fara á sýningaropnun/frumsýningu/tónlistarhátíð allt sömu helgina, vera heima næstu helgi liggja uppi í sófa í heilan dag og gera ekkert nema lesa bók og horfa á mynd.

 

Á haustin verð ég bæði manískur og melankólískur, elska einveruna en þrái líka ekkert heitar heldur en að hafa einhverja manneskju mér við hlið til að horfa á When Harry Met Sally með. Í tilefni haustsins langar mig að birta þetta ljóð sem ég samdi einhvern tíma að hausti til og er nokkuð ánægður með, þótt það hafi aldrei birst neins staðar áður. Takk fyrir mig kæru vinir og sjáumst í haust annað hvort í maníu eða huggulegheitum.


ÞSH, 19. október 2025.



Dauði að hausti

 

Ef ég dey,

þá skiljið svaladyrnar eftir opnar.

Federico García Lorca

 

ef ég dey

látið það þá verða að hausti

 

þegar birtan er fegurst allra

og laufin byrjuð að falla

eins og appelsínugul loftskeyti

eða ljóð í felulitum

 

ef ég dey

látið það þá verða að hausti

 

þegar sláttumaðurinn tekur sér pásu

til að virða fyrir sér öskrandi kvöldsólina

og grunlaus lömbin

hlaupa syngjandi á móti ljánum

 

ef ég dey

látið það þá verða að hausti

 

þegar ég var barn grét ég á haustin

því þá var sumarið búið og skólinn að byrja

nú þegar ég er fullorðinn græt ég á haustin

því þá er sumarið búið og lífið að byrja

 

ef ég dey

látið það þá verða að hausti

 

því dauði að hausti er ekki napur

eins og dauði að vetri

heldur fullur af reisn

 

eins og frú í rauðri kápu

sem arkar upp Skólavörðustíg

með nýsnyrtan púðluhund í fanginu

og nýbrýndan eldhúshníf í veskinu

 

ef ég dey

látið það þá verða að hausti

 

því haustið er ekki endir

heldur upphaf

 
 
 

Comments


bottom of page