Skáldaskúffan #13 – Mest spennandi skáldsögur flóðsins (hávísindalegt mat)
- Þorvaldur Sigurbjörn Helgason

- 20 hours ago
- 4 min read

Í fyrra skrifaði ég bloggpóst þar sem ég taldi upp fimm mest spennandi skáldsögur jólabókaflóðsins 2024. Í tilefni þess að í dag er dagur íslenskrar tungu er því við hæfi að endurtaka leikinn og hér er því listi yfir þau fimm skáldverk sem ég er spenntastur að lesa þessi jólin. Rétt er að taka það fram að þetta val er fullkomlega hlutdrægt en samt sem áður hávísindalegt, enda byggt á áralöngum bókmenntarannsóknum mínum sem lesandi, gagnrýnandi og höfundur. Bækurnar eru ekki í neinni sérstakri röð.
Huldukonan eftir Fríðu Ísberg

Huldukonan er fimmta útgefna bók Fríðu Ísberg og önnur skáldsaga hennar á eftir Merkingu sem kom út 2021 og sló í gegn á heimsvísu. Fríðu er ég búinn að þekkja lengi og hef fylgst með henni þróast úr Reykjavíkurskáldi yfir í stórskáld á heimsmælikvarða. Það eru alltaf mikil tíðindi þegar Fríða vinkona mín sendir frá sér bók og ég efast ekki um að Huldukonan verði nein undantekning á því. Bókin er íslensk örlagasaga sem fjallar um fjölskyldu á Vestfjörðum en káputexti bókarinnar segir svo:
Konurnar í Lohr fjölskyldunni skilja ekki að Sigvaldi þeirra, með alla sína augljósu mannkosti, hafi aldrei gengið út. Ennfremur fá þær ekki skilið þá fráleitu ákvörðun hans að gerast einsetumaður í eyðivík. Dag einn birtist Sigvaldi á dyraþrepi móður sinnar með mánaðargamla stúlku í fanginu og neitar að svara því hver sé móðir barnsins.
Mjög dularfullt og spennandi allt saman! Ég er búinn að lesa fyrstu 40 blaðsíður bókarinnar og strax orðinn heltekinn. Enda ekki laust við að ég tengi smá við þennan Sigvalda, einhleypa og myndarlega einsetumanninn sem enginn í fjölskyldunni skilur af hverju hafi aldrei gengið út. Nei ég segi svona.
Lausaletur eftir Þórdísi Helgadóttur

Lausaletur er önnur skáldsaga Þórdísar Helgadóttur sem sendi frá sér Armeló hittífyrra sem var ein áhugaverðasta skáldsaga jólabókaflóðsins 2023 og tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þórdís var með mér og Fríðu í árgangi í ritlistinni og það hefur einnig verið ótrúlegt að fylgjast með árangri hennar sem rithöfundi enda hefur einfaldlega allt sem ég hef lesið eftir hana verið frábært. Samkvæmt káputexta bókarinnar er um einhvers konar hversdagslega heimsendafrásögn að ræða og hljómar hún mjög spennandi:
Dularfullur faraldur herjar á heimsbyggðina og á prentsafninu hefur ekki sést gestur vikum saman. Björn og Írena drekka kaffi, endurraða í safnbúðinni og dytta að vélunum. Innra með þeim bærast langanir og eftirsjá. Þau vita ekki að einmitt þennan dag stendur borgin á heljarþröm, né að innan stundar muni óvæntur gestur birtast í anddyrinu.
Jötunsteinn eftir Andra Snæ Magnason

Andri Snær hefur verið einn af mínum uppáhalds íslensku höfundum síðan ég las Lovestar einhverntíma í menntaskóla. Andri Snær hefur ekki sent frá sér prósaverk síðan hann gaf út smásagnasafnið Sofðu ást mín 2016 og því gaman að fá loksins nýtt skáldverk eftir hann. Bókin er stutt nóvella og það er gaman að sjá loksins íslenska útgefendur gangast við þessu bókmenntaformi enda hefur það verið leiðinlegur ávani bókaútgefenda að rembast við að kalla öll verk sem eru lengri en smásögur skáldsögur. Nú er bara að vona að Andri Snær sendi aftur frá sér skáldsögu í fullri lengd. Á káputexta segir:
Þrjátíu ár eru síðan Andri Snær steig fram á ritvöllinn og skipaði sér í hóp eftirtektarverðustu höfunda landsins. Í þessari kröftugu nóvellu er Jötunsteini kastað inn í heita umræðu um fegurð í borg sem er smám saman að hjúpast svartri klæðningu og gráu þverliggjandi bárujárni. Skörp og ögrandi saga.
Vegur allrar veraldar eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur

Vegur allrar veraldar er framhald skáldsögunnar Hamingja þessa heims sem Sigríður Hagalín sendi frá sér árið 2022. Sú bók var ein áhugaverðasta sögulega skáldsaga sem ég hef lesið í langan tíma og get ég ekki beðið eftir því að lesa framhaldið. Ég var örlítið ósáttur við blálokin á þeirri bók og hlakka til að sjá hvernig Sigríður vinnur áfram með framhaldið og þá sérstaklega þann hluta frásagnarinnar sem gerist í nútímanum. Bókin er eftir sem áður byggð á sögunni um Ólöfu ríku af Skarði, sem er sögð vera efnaðasta kona Íslandssögunnar og var mikill höfðingi á 15. öld. Á káputexta bókarinnar segir:
Haustið 1479 kemur kona norður yfir Kjöl og teymir hest undir gömlum manni. Sveinn döggskór, hirðskáld Ólafar ríku, er kominn í Reynistaðarklaustur til að deyja. En ekki fyrr en hann hefur skrásett sannleikann um atburðina í Rifi, þegar Englendingar drápu Björn Þorleifsson, hirðstjóra konungs og eiginmann Ólafar. Vígið kveikti ófriðarbál.
Kómeta eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson

Kómeta er fyrsta skáldsaga Aðalsteins Emils Aðalsteinssonar sem hefur áður sent frá sér nokkur smásagnasöfn. Ég las fyrstu bók Aðalsteins, 500 dagar af regni, fyrir nokkrum árum en það var á ári sem ég las 100 bækur þannig ég man ekki mikið meira eftir henni annað en að mér fannst hún nokkuð góð. Kómeta er söguleg skáldsaga sem gerist á 16. öld (ég hef alltaf verið svolítill sökker fyrir sögulegum skáldsögum) og fjallar meðal annars um „kraftaverk lífsins, stríðið gegn gleymskunni, leitina að ljósi í heimi þar sem dauði, illska og fáfræði ráða oft ríkjum“. Það hljómar eins og nokkuð góð tvenna að hafa með sér í bústaðinn, bækur Sigríðar Hagalín og Aðalsteins Emils. Ég er allavega mjög spenntur að lesa þær báðar. Á káputexta Kómetu segir svo:
Kolnismeyjamessa árið 1536. Aldrað skáld sem dvelur í íslensku klaustri finnur reifabarn við klausturhliðið, bjargar lífi þess og byrjar að rita bréf til þeirra sem dauðinn hefur tekið frá honum. Upphefst þá frásögn sem spannar breitt svið og berst frá Íslandi á tímum siðaskipta, hertöku og skefjalausrar grimmdar til logheitrar Andalúsíu og öngstræta Granadaborgar. Einnig er greint frá afstöðu fugla til dauðans, brottflutningum Mára og sorginni sem situr eins og fleinn í hjartanu.
ÞSH, 16. nóvember 2025.



Comments