top of page
Search

Skáldaskúffan #14 – Fimm bestu ljóðabækur ársins

  • Writer: Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
    Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
  • Dec 11, 2025
  • 4 min read

Um daginn skrifaði ég færslu þar sem ég taldi upp þær fimm skáldsögur jólabókaflóðsins sem mér finnst hvað mest spennandi. Ég ætla hins vegar hér með að lýsa því yfir að flóð ársins er sannkallað ljóðabókaflóð, í ljósi þess að í ár koma út langtum fleiri spennandi ljóðabækur heldur en skáldsögur. Ljóðabókaútgáfa ársins hefur verið gífurlega frjó og mér finnst ljóð, og þá sérstaklega ljóð ungra skálda, vera að eiga ákveðið móment. Ein birtingarmynd þess er sú að um daginn prýddu tvö ung ljóðskáld (Anna Rós og Þórdís Dröfn) sem báðar sendu frá sér sínar fyrstu bækur í haust forsíðu bókablaðs Heimildarinnar. Ég man ekki eftir mörgum öðrum sambærilegum dæmum frá síðustu 10-15 árum, oftar en ekki hafa fyrstu bækur ljóðskálda fengið litla sem enga athygli í jólabókaflóðinu og þótti mér því gaman að sjá þetta. Hér kemur listi yfir þær fimm ljóðabækur sem mér þóttu bestar af þeim sem ég hef lesið í ár. Einhver gæti rekið augun í það að hér komast eingöngu bækur eftir konur á lista en það er ekkert skrýtið því ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að kvenskáld hafa algjörlega verið í fararbroddi íslenskrar ljóðlistar undanfarin ár. Listinn er ekki í neinni sérstakri röð.



Draugamandarínur eftir Birgittu Björg Guðmarsdóttur


Draugamandarínur er fyrsta ljóðabók Birgittu Bjargar sem vakti mikla athygli fyrir skáldsögu sína Moldin heit í fyrra en sú bók hlaut Fjöruverðlaunin og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ég skrifaði ritdóm um Draugamandarínur í tímaritið Són og hér kemur úrdráttur úr honum:


Draugamandarínur er vægast sagt óvenjulegt verk og er langt síðan undirritaður hefur lesið svo ögrandi og frumlega ljóðabók orta á íslenskri tungu. Leita þyrfti í framúrstefnulegustu verk Kristínar Eiríksdóttur eða Sjóns til að finna eitthvað í líkingu við Draugamandarínur en þó er rétt að taka það fram að ljóðheimur Birgittu Bjargar er algjörlega einstakur hvað varðar stíl og efnistök. Bókin er byggð upp af ónefndum, númeruðum ljóðum og er eins konar konseptverk þar sem ekki er að finna eiginlegan söguþráð. Ljóðin eru í senn holdleg, heimspekileg og hrollvekjandi og eru sögð frá sjónarhorni ónefnds ljóðmælanda sem lýsir tilvistarlegum vangaveltum sínum er hún rífur í sundur mandarínu og uppgötvar undir berki hennar ekki bara sætt aldinkjöt, heldur heilan heim. Mandarínan verður þannig að sterkri táknmynd í verkinu sem stendur í senn fyrir nautnir, leyndardóma og grótesku holdsins.


 

Síðasta sumar lífsins eftir Þórdísi Dröfn Andrésdóttur


Sigurhandrit Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar í ár var Síðasta sumar lífsins eftir Þórdísi Dröfn Andrésdóttur sem er fyrsta bók höfundar. Rétt er að taka það fram að ég sat í dómnefnd verðlaunanna og er því kannski ekki alveg hlutlaus hvað bókina varðar en ég var mjög hrifinn af henni og það er ekki oft sem ég hef lesið jafn heilsteypta og útpælda frumraun. Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars:


Síðasta sumar lífsins, er ljóðsaga sem segir frá tveimur elskendum sem eru staddir á ónefndri sólríkri eyju. Handritið er ljúfsár og tregafull lýsing á endalokum í víðum skilningi; endalokum tímans, ástarinnar, lífsins og sumarsins sem hverfur frá birtu yfir í óvissu myrkurs. Hvorki elskendurnir tveir né eyjan sem þeir dvelja á eru nokkru sinni nefnd á nafn svo reynsluheimurinn sem ljóðin lýsa verður almennur á meðan ljóðmyndirnar eru bæði sértækar og óvenjulegar, allt frá þekktu minni þar sem fiskur verður táknmynd guðs, yfir til kirsuberjasteina í öskubakka.


 

Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur


Hvalbak er önnur ljóðabók Maó Alheimsdóttur sem hefur vakið töluverða athygli í íslenskum bókmenntaheimi, meðal annars með skáldsögu sinni Veðurfregnir og jarðarfarir. Hvalbak er mjög sterkt og vel skrifað verk sem fjallar um samband manna og jökla í kynngimögnuðu líkingamáli. Ég skrifaði einnig dóm um þessa bók í tímaritið Són þar sem ég sagði meðal annars:


Hvalbak er gífurlega vel heppnað verk, kraftmikil ljóðabók sem fjallar um samband manns og náttúru á nýstárlegan hátt. Hér er ljóðmálinu beitt af fagmennsku og leikgleði og það er einkar gaman að sjá höfund sem hefur íslensku ekki að móðurmáli notfæra sér þjóðararfinn okkar, íslenskuna, á svo frumlegan og skapandi máta. Þrátt fyrir síendurteknar fregnir af hnignandi stöðu íslenskunnar þá er ljóst að tungumálið okkar er í góðum höndum á meðan skáld á borð við Maó Alheimsdóttur munda pennann.


 

Postulín eftir Sunnu Dís Másdóttur


Sunna Dís hefur auðvitað fyrir löngu sannað sig sem eitt eftirtektarverðasta skáld okkar og styrkir það enn betur með sinni annarri ljóðabók, Postulín, sem kom út í haust. Postulín er sterk og áleitin bók sem fjallar um konu sem býr á safni og lendir í þeim harmi að missa fóstur. Bókin nálgast þetta erfiða viðfangsefni af næmni, virðingu og fegurð en bókin hlaut nýlega tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og í umsögn dómnefndar hennar segir meðal annars:


Sögusvið bókarinnar er safn í smábæ þar sem fjallið vakir yfir íbúum og draugar fortíðar eru alltumlykjandi. Kona og fjall renna að lokum saman í eitt þegar dregin er upp mynd af snjóflóði samhliða því þegar ljóðmælandi upplifir fósturmissi. Undurfagur texti um sorg, missi og grimmd dauðans sem lætur í ljós einstaka næmni höfundar.


 

Fyrir vísindin eftir Önnu Rós Árnadóttur


Anna Rós Árnadóttir átti mjög sterka innkomu inn í íslensku ljóðasenuna nýlega og hlaut til dæmis Ljóðstaf Jóns úr Vör í byrjun árs fyrir ljóðið Skeljar sem er að finna í fyrstu bók hennar Fyrir vísindin. Um er að ræða konseptverk eða ljóðsögu sem fjallar um unga vísindakonu sem er að sögn „of næm“ fyrir lífið. Í ritdómi mínum um bókina í tímaritinu Són skrifaði ég:


Fyrir vísindin eftir Önnu Rós Árnadóttur er spennandi ljóðabók sem tekst á við ljóðformið á skemmtilegan hátt. Ljóðin eru ekki alveg jafn tilraunakennd og maður hefði mátt búast við af skáldskap sem fjallar um vísindarannsóknir því höfundur heldur sig að mestu leyti við hefðbundna frásagnartækni. En ljóðmál Önnu Rósar á þó óneitanlega hrós skilið fyrir að vera bæði vandað og nákvæmt og minnir lesendur á það sem vísindin eiga sammerkt með ljóðlistinni; þær eru hvort um sig greinar sem glíma við hið sértæka í veröldinni og geta flakkað áreynslulaust á milli stærstu og smæstu eininga tilverunnar.


 

Þetta er svo sannarlega ekki tæmandi listi yfir ljóðabækur ársins 2025 en af öðrum frábærum bókum sem komið hafa út í ár mætti einnig nefna:


Fimm ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl

Þyngsta frumefnið eftir Jón Kalman Stefánsson

Mara kemur í heimsókn eftir Natöshu S.

Félagsland eftir Völu Hauksdóttur

Eignatal eftir Francescu Cricelli

 

ÞSH, 11. desember 2025

 
 
 

Comments


bottom of page