Skáldaskúffan #12 – Bækur eru mýksta en stærsta valdið
- Þorvaldur Sigurbjörn Helgason

 - 2 days ago
 - 5 min read
 

Það var einstaklega gaman að fá að vera formaður dómnefndar Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar annað árið í röð. Verðlaunin voru veitt í Höfða í byrjun þessarar viku og hlaut skáldið Þórdís Dröfn Andrésdóttir þau fyrir bók sína Síðasta sumar lífsins sem kom út sama dag hjá Benedikt bókaútgáfu. Í ár voru rúmlega 100 handrit send inn í keppnina sem er ríflega tvöföldun frá því í fyrra og það var vandasamt verk að velja úr þessum fjölda handrita sem mörg hver voru mjög sterk. Með mér í dómnefnd sátu Brynhildur Björnsdóttir og Soffía Bjarnadóttir og á endanum náðum við saman um Síðasta sumar lífsins. Handrit Þórdísar var eitt það fyrsta sem greip mig af þessum 100 handritum sem bárust í keppnina og það var eins og staðfesting á því að við höfum valið hárrétt þegar ég heyrði ávarp hennar við afhendinguna þar sem hún sagði meðal annars:
Ef bókin hefði ekki hlotið þessi verðlaun er ég viss um að ég hefði ekki gefið hana út, mig vantaði einmitt gott spark í rassinn til þess að taka fyrsta skrefið í átt að því sem mig hefur lengi grunað að mér sé ætlað að gera, að helga lífi mínu bókmenntum og íslenskri tungu.
Síðasta sumar lífsins er ljúfsár ljóðsaga sem segir frá tveimur elskendum sem eru staddir á ónefndri sólríkri eyju. Þórdís segist hafa skrifað ljóðin á tíma í lífi hennar þegar samtíminn hafi virst henni gjörsamlega óskiljanlegur.
Mér fannst eins og heimurinn hefði tekið á sig óþekkjanlega mynd og að miklar breytingar ættu sér stað í einhverrri veröld fyrir utan mig, en gætu einn daginn náð til mín.
Þetta sést bersýnilega í ljóðum Þórdísar sem ná í senn að vera tær og heimspekileg á sama tíma og þau vísa út fyrir sig til þeirra pólitísku átaka sem einkenna líf nútímamannsins. Þórdís endaði ávarp sitt á að segja „bækur eru mýksta en stærsta vald okkar tíma“ sem er eitthvað sem ég er hjartanlega sammála.
Ég hlakka til að sjá hvaða viðtökur Síðasta sumar lífsins fær í jólabókaflóðinu enda er þetta bæði einstök og sumpart óvenjuleg ljóðabók. Hér að neðan má svo lesa ávarpið sem ég flutti á verðlaunaafhendingunni og umsögn dómnefndar um verðlaunaverkið.
ÞSH, 2. nóvember 2025.

Borgarstjóri, verðlaunahafi og góðir gestir,
Við lifum furðulega tíma; börn búa við verri efnahagsaðstæður en foreldrar þeirra gerðu, yngri kynslóðir eru að verða íhaldssamari en þær eldri og réttindin sem félagsleg barátta fyrri alda skilaði okkur hafa eitt af öðru verið dregin í efa. Á sama tíma er jörðin að hlýna, hafið að súrna og átök víða í heimi. Ef finna ætti heiti yfir þá öld sem lifum þá mætti eflaust kalla hana „Öld kvíðans“, eins og samnefnt ljóð W.H. Auden, svo útbreiddur er hann orðinn í okkar heimi, hvort sem átt er við loftslagskvíða, afkomukvíða, stríðskvíða, framtíðarkvíða, eða bara gamla góða kvíðann með greini sem læsir sig í hjartað þegar maður á síst von á því.
Í einu ljóði bókarinnar sem hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár segir „það er orðið of seint að kvíða fyrir framtíðinni / hún er löngu liðin“. Eflaust gætu margir í dag samsinnt þessu. Framtíðin sem okkur var lofað; hin línulega þróun í átt að betri heimi, réttlátara samfélagi og friðsælli tímum reyndist vera tálsýn. Tæknin sem átti að sameina okkur einangraði fólk í sínum eigin bergmálshelli, auðurinn sem átti að gera okkur rík safnaðist á hendur fárra og hugmyndirnar sem áttu að gera okkur frjáls snerust upp í andhverfu sína. Við sjáum óveðursskýin hrannast upp á sjóndeildarhringnum en hér á litlu eyjunni okkar lifum við þó enn við töluverða friðsæld. Það gæti breyst, enda fengum við fregnir af því í síðustu viku að áður óséð rándýr, moskítóflugan, hafi nýlega numið hér land.
Kæru gestir, þið eruð að sjálfssögðu ekki hingað komin til að hlusta á mig predika heldur erum við saman komin til að fagna skáldi og ljóðabók sem í dag hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2025. Handritið sem hlýtur verðlaunin í ár heitir Síðasta sumar lífsins og er eftir Þórdísi Dröfn Andrésdóttur. Bókin kemur út í dag á vegum Benedikts bókaútgáfu og er fyrsta útgefna verk höfundar. Af innganginum gætuð þið haldið að um sé að ræða einkar pólitískt verk en svo er ekki beinlínis. Bókin er augljóslega afurð þess pólitíska veruleika sem hún sprettur úr en líkt og með flest góð listaverk þá vísa ljóðin bæði út fyrir sig til hins almenna og inn fyrir sig til hins sértæka. Síðasta sumar lífsins er tær og tregafull ljóðsaga, bók sem er einföld á yfirborðinu en margræð undir niðri með miklum undirtexta. Í umsögn dómnefndar um vinningshandritið segir:
Sigurhandrit Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar 2025, Síðasta sumar lífsins, er ljóðsaga sem segir frá tveimur elskendum sem eru staddir á ónefndri sólríkri eyju. Handritið er ljúfsár og tregafull lýsing á endalokum í víðum skilningi; endalokum tímans, ástarinnar, lífsins og sumarsins sem hverfur frá birtu yfir í óvissu myrkurs. Hvorki elskendurnir tveir né eyjan sem þeir dvelja á eru nokkru sinni nefnd á nafn svo reynsluheimurinn sem ljóðin lýsa verður almennur á meðan ljóðmyndirnar eru bæði sértækar og óvenjulegar, allt frá þekktu minni þar sem fiskur verður táknmynd Guðs, yfir til kirsuberjasteina í öskubakka.
Umfjöllunarefni ljóðanna í Síðasta sumar lífsins eru þau sömu og skáld hafa fengist við frá örófi alda; ástin, dauðinn, náttúran, svo eitthvað sé nefnt, en höfundur tekst á við þessi þemu af tilfinningalegri dýpt, næmni og frumleika. Um ljóðin blása tregafullir vindar sem vekja upp hugrenningatengsl við nostalgíu, endalok ástar og þá sorg sem fylgir því að fullorðnast og skilja við heim bernskunnar. Einnig finnur lesandinn fyrir mýkt og fegurð í hinu smáa sem opnar á stærri spurningar um tímann sem bæði sleikir og sýkir sárin, eins og segir í textanum. Þótt söguheimur verksins sé afmarkaður þá vísa ljóðin út fyrir sig í átt að stærri veruleika með tilvísunum í náttúruhamfarir, átök og loftslagsbreytingar. Þrátt fyrir að frásögn verksins sé ívið kyrrlát þá liggur í gegnum ljóðin undiralda sorgar og við sjóndeildarhringinn vofir óútskýrð hætta sem ógnar hinu eilífa sumri eyjunnar. Þannig verður verkið að eins konar myndlíkingu fyrir líf nútímamannsins á Vesturlöndum, líf sem þrátt fyrir að hafa aldrei verið þægilegra og friðsælla er á sama tíma markerað af djúpstæðum ótta og óveðursskýjum sem hrannast upp á himni. „Heima er hvar sem er“, segir í ljóðtextanum og hér hvílir söknuður eftir því sem er að líða, ekki því sem var, heldur því sem er að renna okkur úr greipum hér og nú og spurningar vakna um það hvað og hvar er heima. Síðasta sumar lífsins er þannig eins og friðsæl og ljúfsár landslagsmynd af logninu á undan storminum, rétt áður en allt breytist fyrir fullt og allt.
Kæru gestir, þótt það sé fátt til að gleðjast yfir í heimsmálunum þá er margt til að fagna í bókmenntunum. Það er sjaldan sem maður sér höfund stíga fram með svo sterka frumraun og það er svo sannarlega eitthvað til að gleðjast yfir. Fyrir hönd dómnefndar Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar óska ég Þórdísi Dröfn innilega til hamingju með verðlaunin og á sama tíma langar mig að þakka Bókmenntaborginni og Reykjavíkurborg fyrir gott samstarf.



Comments