Jólabókaflóðið 2024 fer heldur rólega af stað, enda þurfa skáldin nú að keppast um athygli við hamfarastjórnmál og kosningar bæði hérlendis og Vestanhafs. Það stefnir hins vegar í einstaklega spennandi bókajól þetta árið og því langaði mig að tileinka þessu bloggi þeim fimm skáldsögum sem ég er hvað spenntastur fyrir að lesa. Þar sem ég er gagnrýnandi er rétt að taka það fram að þetta val er algjörlega byggt á mínum eigin persónulegu væntingum og er fullkomlega hlutdrægt. Flestum þessara höfunda er ég raunar það kunnugur að ég myndi veigra mér við að skrifa gagnrýni um bækur þeirra enda stendur það ekki til á þessum tímapunkti.
Friðsemd eftir Brynju Hjálmsdóttur
Friðsemd er fyrsta skáldsaga Brynju Hjálmsdóttur sem hefur vakið mikla athygli fyrir ljóðabækur sínar, Okfruman og Kona lítur við. Brynja er góð vinkona mín frá því í ritlist í Háskólanum og ég hef fengið að fylgjast með henni springa út sem höfundur á síðustu árum.
Á káputexta segir:
Friðsemd hefur alla tíð verið með nefið ofan í erótískum spennusögum, sem Fatima, besta vinkona hennar, framleiðir á færibandi. Hennar eigið hversdagslíf er allt annað en spennandi. Þegar besta vinkonan deyr af grunsamlegum slysförum heldur Friðsemd í háskaför og áður en hún veit af er líf hennar orðið ískyggilega reyfarakennt.
Hvílíkur húkkur! Ég hef ekki lesið bókina en heyrði Brynju lesa upp úr henni á útgáfuhófinu þar sem ég tryggði mér að sjálfsögðu eintak. Brynja er náttúrlega eitt fyndnasta og frumlegasta skáld Íslands þannig ég held að lesendur megi búast við stórfurðulegri og bráðskemmtilegri bók. Í það minnsta hlakka ég mikið til að lesa Friðsemd.
Gólem eftir Steinar Braga
Steinar Bragi er geitin í íslenskum furðusögum, það þarf ekkert að ræða frekar. Enda er hann mögulega eini íslenski höfundurinn sem skrifar hreinræktaðan hrylling og vísindaskáldskap og fær samt að sitja við sama borð og fagurbókmenntahöfundar. Síðustu tvær bækur Steinars, Truflunin og Dáin heimsveldi voru gjörsamlega truflaðar (pun intended) og mesta furða að enginn kvikmyndaleikstjóri sé búinn að pikka þær upp til aðlögunar því þær eru með því allra besta sci-fi sem komið hefur út á íslenskri tungu.
Ég veit ekkert meira um Gólem annað en það sem stendur á káputexta en það er líka alveg nóg fyrir mig:
Grípandi saga úr myrkum framtíðarheimi. Ung kona vinnur fyrir valdamikið fyrirtæki við að lengja líf ríkasta fólks heims. Dag einn er tilvist fyrirtækisins ógnað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Breiðþotur eftir Tómas Ævar Ólafsson
Tómas Ævar er annar skáldvinur minn úr ritlistinni sem hefur nú sent frá sér sína fyrstu skáldsögu sem ber titilinn Breiðþotur en hann hefur áður gefið út ljóðabókina Umframframleiðsla. Tómas og Brynja héldu sameiginlegt útgáfuhóf á Loft Hostel í síðustu viku sem var einstaklega skemmtilegt en þótt þau séu bæði með svipaðan bakgrunn er ljóst að bækur þeirra eru eins ólíkar og hugsast getur.
Á káputexta segir um Breiðþotur:
Gagnaleki skekur heimsbyggðina. Þeir sem lýsa yfir ábyrgð krefjast róttækra aðgerða í loftlagsmálum. Áhrifa lekans gætir hjá krökkunum í Þorpinu. Verið er að undirbúa Þorpið undir næsta gagnaleka, þann sem mun afhjúpa öll leyndarmálin. Breiðþotur er grípandi saga um vináttu og söknuð, tæknihyggju og uppgang öfgaafla.
Ég heyrði Tómas lesa upp úr bókinni á útgáfunni og var mjög hrifinn. Breiðþotur virðist vera útpæld skáldsaga stútfull af hugmyndafræði og pælingum um samtímann. Enn fremur virðist hún hafa einhvern alþjóðlegan tón sem finnst aðeins hjá höfundum sem eru vel lesnir í því sem er að gerast í erlendum nútímaskáldskap og minnti mig á Pedro Gunnlaug Garcia, annan frábæran íslenskan höfund.
Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttur
Eva Rún Snorradóttir er einn af áhugaverðustu listamönnum sinnar kynslóðar. Hún starfar jöfnum höndum sem sviðslistamaður og rithöfundur og hefur ítrekað sent frá sér verk sem ögra viðteknum venjum og eru í senn ískyggilega næm og óborganlega fyndin. Eldri konur virðist ætla að tikka í bæði þessi box en ég heyrði Evu Rún lesa upp úr handriti bókarinnar á ljóðakvöldi Queer Situations, bókmenntahátíðar sem hún og Halla Þórlaug skipulögðu. Ég held að ég geti með sanni sagt að þessi upplestur var einn sá fyndnasti sem ég hef nokkurn tíma heyrt á bókmenntaviðburði, enda var allur salurinn grenjandi af hlátri undir lok hans. Ég er því einstaklega spenntur að lesa Eldri konur og er viss um að bókin muni koma mér á óvart.
Á káputexta bókarinnar segir:
Ung kona gefur rapport af þráhyggju sinni fyrir eldri konum og rekur líf sitt frá barnæsku til fullorðinsára gegnum frásagnir af konum sem hafa heltekið hana. Eldri konur er röntgenmynd af ástandi. Við kynnumst konunni með ólíkum brotum af sögu hennar, uppvexti í flóknum heimilisaðstæðum, mismunandi vinnustöðum, vináttu, ástum, sigrum og ósigrum.
Mikilvægt rusl eftir Halldór Armand
Halldór Armand hefur heldur betur stimplað sig inn í bókmenntalífið sem einn sterkasti skáldsagna- og pistlahöfundur þúsaldarkynslóðarinnar. Mikilvægt rusl er hans fimmta skáldsaga og er fyrsta bók Halldórs sem er sjálfútgefin, áhugavert útspil sem verður spennandi að sjá hvernig gengur. Síðasta bók Halldórs, skáldsagan Bróðir, kom út 2020 og er að mínu mati ein besta íslenska skáldsaga þessa áratugar. Ég er því einkar spenntur að lesa Mikilvægt rusl þótt ljóst sé að hún er töluvert frábrugðin síðustu bókum höfundar. Ég heyrði Halldór lesa upp úr Mikilvægt rusl á útgáfuhófinu sem haldið var í Góða hirðinum í síðasta mánuði og af því sem ég heyrði er bókin bæði spennandi og húmorísk. Hún gerist árið 2008 í hruninu sem mér finnst mjög spennandi því núna er loksins liðinn nógu langur tími til að hægt sé að skrifa sannfærandi sögulegar skáldsögur um þetta tímabil og Halldór hefur sýnt það með fyrri bókum sínum að hann er einstaklega lunkinn í því að lýsa tíðaranda.
Á káputexta bókarinnar segir:
Daginn sem forsætisráðherra Íslands biður Guð að blessa þjóðina finnur öskukallinn Gómur Barðdal afskorið mannsnef í ruslatunnu við glæsihýsi í Þingholtunum. Skömmu síðar er frændi hans, seinheppna skáldið Geir Norðann, ráðinn sem ljóðakennari inn á þetta sama heimili. Hver á þetta nef? Hvernig endaði það í ruslatunnu?
Þar hafið þið það! Þær fimm skáldsögur sem ég hlakka hvað mest til að lesa í Jólabókaflóðinu 2024. Vissulega hefði ég getað talið upp margar fleiri en ég ákvað að halda við mig fimm og hver veit nema ég geri sambærilegan lista yfir ljóðabækur. Við sjáumst svo bara í næsta útgáfuhófi.
ÞSH, 3. nóvember 2024.
Comments